Sandkúlufell

Frá Grettishæðarvatni á Stórasandi að Sandkúlufelli á Kjalvegi.

Þessi jeppaslóð tók við af Skagfirðingavegi, sem Blöndulón færði í kaf. Urðu hestamenn þá að krækja suður eða norður fyrir lónið. Að austanverðu liggur þessi slóð miklu sunnar en gamli reiðvegurinn.

Förum frá suðurenda Grettishæðarvatns austur eftir jeppaslóð, hæst í 800 metra hæð, síðan sunnan við Svörtuhæð og loks norðan við Sandkúlufell inn á þjóðveg 35 um Kjöl.

20,7 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláfell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða, Hanzkafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sandhólar

Frá þjóðvegi 47 suðvestan Miðfells í Hvalfirði um Sandhóla að Katlavegi í Leirársveit.

Förum af þjóðveginum norður með Miðfelli að vestanverðu, norður yfir Laxá í Leirársveit og yfir þjóðveg 502 að Skarðsheiði. Beygjum þar til vesturs undir heiðinni, förum framhjá Sandhólum að Lambagili og þaðan suðvestur á Katlaveg milli Hafnar í Melasveit og Leirárgarða í Leirársveit.

12,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Sanddalur

Frá Hamraendum í Miðdölum að Háreksstöðum í Norðurárdal.

Sanddalur var fyrr á öldum mikilvæg samgönguleið milli Norðurárdals og Dalasýslu, þótt Brattabrekka hafi alltaf verið helzta leiðin og sé það enn. Upp í Sanddal liggja fleiri leiðir úr Dölum en hér er lýst. Sunnan þessarar leiðar er leið vestan úr botni Reykjadals um Sprengibrekku og Mjóadal. Norðan þessarar leiðar er leið úr botni Haukadals um Sátudal. Sanddalur er gróinn dalur, fremur þröngur og var í byggð fyrr á öldum. Síðasti bærinn, Sanddalstunga, fór ekki í eyði fyrr en 1974.

Förum frá Hamraendum með þjóðvegi 582 upp með Miðá að suðvestanverðu með þjóðvegi 582 og síðan beggja vegna árinnar til suðausturs. Yfir þjóðveg 60 og til austurs inn í Reykjadal um Fellsendaskóg og eyðibýlið Fellsendakot og til austurs upp úr dalbotninum hjá Tröllakirkju. Komum þar í 410 metra hæð á Merkjahrygg, sýslumörkum Dala og Mýra. Síðan áfram austur um stutt og þröngt skarð, austur Heydal og beygjum til suðurs niður í Sanddal, sem við fylgjum út í Norðurárdal, alltaf vestan við Sanddalsá. Fjallið Sandur er að vestanverðu og Hádegisfjall að austanverðu. Við förum um eyðibýlið Sanddalstungu og síðan áfram suður meðfram Hvammsmúla að vestanverðu og Sveinatungumúla að austanverðu. Förum yfir þjóðveg 1 í Norðurárdal og síðan beint yfir Norðurá upp á þjóðveg 528 og eftir honum einn kílómetra vestur að Háreksstöðum.

38,3 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Skógarströnd, Jafnaskarð.
Nálægar leiðir: Miðá, Hallaragata, Eyðisdalur, Illagil.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sandá

Frá skála í Leppistungum á afrétti Hrunamanna suðvestur með Sandá að skála í Svínárnesi á afrétti Hrunamanna.

Leiðin fylgir ekki jeppaslóðinni, heldur liggur um gróna bakka Sandár vestan árinnar alla leið í Svínárnes.

Miklumýrar eru víðáttumikið votlendi, erfitt yfirferðar utan vegarins.

Förum frá fjallaskálanum í Leppistungum yfir Sandá og suður með henni um Miklumýrar og vel færan Ófærukrók. Síðan til vesturs fyrir norðan Skyggni í Lausamannsölduver og loks yfir Sandá að fjallaskálanum í Svínárnesi.

17,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Kjalvegur, Harðivöllur, Leirá, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Rjúpnafell, Klakkur, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sandaskörð

Frá Hjaltastað í Útmannasveit á Héraði að Hvannstóði í Borgarfirði eystra.

Algeng reiðleið milli Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar fyrir lagningu bílvegarins um Vatnsskarð. Um skarðið liggja raflína og gróf jeppaslóð.

Förum frá Hjaltastað suður Skógarás í Geitabjargadal. Þaðan austur um Ánastaði og Rauðulæki og yfir Bjarglandsá. Síðan til norðausturs fyrir Beinageitarfjall, um Innri-Sauðahraun og austur í Sandadal. Þaðan austur um Sandaskörð í 620 metra hæð. Áfram austur fyrir sunnan Tindfell, á jeppaslóð niður að Hólalandi og austur að Hvannstóði.

20,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tröllabotnar, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandakravegur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Vogum á Vatnsleysuströnd um Sandakraveg að þjóðvegi 427.

Á ferlir.is segir m.a.: “Gengið var um Skógfellaveg, beygt út af veginum skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá) og haldið upp Mosadal vestan við Kálffellið, upp fyrir Mosadalsgjá og áfram um sandsléttur norðvestan Nauthóla. Síðan var slóðinni fylgt suður með Fagradalsfjalli allt að Drykkjarsteinsdal.”

Förum frá Vogum um Reiðskarð og suður yfir Keflavíkurveg 41. Síðan áfram til suðausturs, austan við Snorrastaðatjarnir og um Mosadali að Fagradal. Svo til suðurs vestan við Fagradalsfjall, um Sandhóla að þjóðvegi 427.

13,0 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Skógfell, Stapafell, Einiberjahóll, Vatnsleysuheiði, Vatnsleysuströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandafell

Frá Þingeyri við Dýrafjörð á Álftamýrarheiðarleið milli Kirkjubóls í Dýrafirði og Álftamýrar í Arnarfirði.

Förum frá Þingeyri suður úr bænum og fyrir suðausturendann á Sandafelli. Síðan vestur í Brekkudal og upp með ánni suður að Bakka. Þaðan til vesturs norðan við Bakkahorn að Múla, þar sem við komum á Álftamýrarheiðarleið milli Kirkjubóls í Dýrafirði og Álftamýrar í Arnarfirði.

5,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Álftamýrarheiði, Göngudalsskarð, Kvennaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandabrot

Frá Þeistareykjabunguleið um Sandabrot að Þeistareykjum.

Byrjum á Þeistareykjabunguleið frá Svínadal. Förum til vesturs sunnan við Eyjólfshæð og um Beinaklett við Bláskóga. Þar beygjum við til suðvesturs um Sandabrot, förum vestan við Ketilfjall og þaðan suður að Þeistareykjum.

15,6 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.

Nálægir ferlar: Þeistareykjabunga, Þeistareykir, Hamrahlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Saltnesáll 2

Frá Snorrastöðum yfir Saltnesál og áfram um Stóra-Hraun yfir Haffjarðará og um Prestasker til Skógarness.

Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis. Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ríði menn bara einu sinni þessa leið, er bezt að fara vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið. Þetta er skjótasta útgáfan af Löngufjörum. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni, er svo breytilegur, að leita þarf vaðs á honum. Hann er því varasamur, farið hann eingöngu með staðkunnugum. Hafið flóðatöflurnar með í farteskinu. Hér reið Þórður kakali 1242 á flótta undan Kolbeini unga, svo sem segir í Sturlungu, og slapp yfir Saltnesál áður en flæddi að.

Förum frá Snorrastöðum með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint áfram vestur og tökum land í Viðarhólma, förum norður hólmann og aftur út á leirurnar vestan við Litla-Hraun. Stefnum beint á Stóra-Hraunsnes, þar sem við tökum land og förum jeppaslóð heim að bæ á Stóra-Hrauni. Förum aðeins upp fjöruna og út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á Bænahúsavaði og síðan vestur fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá Prestaskeri förum við áfram vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes.

23,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar: Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hítará, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Orðabókin belgist út

Punktar

Vikulega fjölgar orðum í Newspeak, orðabók ríkisstjórnarinnar og þjóna hennar.

„Tafarlaust“ þýðir kannski einhvern tíma.

„Bein útlending“ þýðir niðursoðin útsending.

„Ekki einkavæðing“ þýðir einkavinavæðing.

„Ómöguleiki“ þýðir óþægindi.

„Óframfylgjanleiki“ þýðir pirringur.

„Heiðarleiki“ þýðir svikið kosningaloforð

„Varnagli“ þýðir svikið kosningaloforð.

„Vanda þarf umræðuna“ þýðir haltu kjafti.

„Vangaveltur“ þýða fjárlög,

„Kosningaloforð“ þýða vangaveltur.

„Strax“ þýðir aldrei.

„Auðvelt“ þýðir óframkvæmanlegt.

„Þjóðarsátt“ þýðir vilji ráðherra.

„Friðlýsing“ þýðir fjölgun virkjanakosta.

„Hagræðing“ þýðir niðurskurður.

„Samstaða“ þýðir hlýðni.

„Verður varin“ þýðir lögð niður.

„Óhefðbundinn“ þýðir lyginn Frosti.

„Hugsar upphátt“ þýðir lygin Vigdís.

„Tékki í pósti“ þýðir nefndir & engar efndir.

Hraðbrautin endurvakin

Punktar

Þekktasta einkavinavæðing fyrirhrunsáranna var menntaskólinn Hraðbraut undir pilsfaldi þáverandi menntaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ríkisendurskoðun komst að svindlinu. Upplýsti, að skólinn sogaði til sín fjármagn umfram aðra skóla og kom því fyrir í arði á aflandseyjum. Nemendur voru færri en vera átti samkvæmt greiðslum. Skólinn var lagður niður, þegar ný ríkisstjórn tók við og fór að spara í sukkinu. Nú er komin illvíg sukkstjórn, sem elskar einkavinavæðingu og arð handa gæludýrum. Illuga Gunnarssyni lízt því  vel á, að Hraðbraut verði endurvakin. Senn fær hún því aftur að mjólka ríkissjóð.

Stríð gegn velferð

Punktar

Ragnar Árnason er efnahagsráðunautur silfurskeiðunganna, sem stjórna ríkinu og sjóðum þess. Hann vill velferð feiga, segir hana ekki borga sig. Hafnar niðurgreiðslu sjúkrakostnaðar, hvað þá ókeypis sjúkraþjónustu. Vill lækka skatta á kvótagreifa og aðra þá, sem aðstöðu hafa. Og draga á móti úr allri þjónustu ríkisins við minni háttar fólk. Skrifaði grein um þetta í tímarit hagfræðinema. Lærisveinar hans eru ráðherrarnir. Einn reynir að koma sjúkum fyrir kattarnef, annar reynir að loka fyrir aðgang fátækra að menntun. Saman reyna þeir að rústa evrópskri velferð hér, koma upp þriðja heims frumskógi.

Saltnesáll 1

Frá Snorrastöðum yfir Saltnesál á Gömlueyri og áfram til Stóra-Hrauns.

Hafið flóðatöflurnar með í farteskinu.

Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ríði menn bara einu sinni þessa leið, er bezt að fara vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið. Þetta er skjótasta útgáfan af Löngufjörum. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni, er svo breytilegur, að leita þarf vaðs á honum. Hann er því varasamur, farið hann eingöngu með staðkunnugum. Gamlaeyri var þekktur rekastaður, fimm km löng. Mörg skip hafa strandað þar, einkum erlend fiskiskip. Þar á meðal tvær franskar skútur árið 1870.

Förum frá Snorrastöðum niður með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Einnig er hægt að krækja upp í landið fyrir álinn og fara þá varlega milli pytta. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint til suðurs vestan við Öskjugrasey og alla leið suður á Gömlueyri. Við förum yfir á eyrina sjávarmegin og síðan eftir henni endilangri til norðvesturs eins langt og við viljum. Þar förum við í land í Viðarhólma, förum norður hólmann og aftur út á leirurnar vestan við Litla-Hraun. Stefnum beint á Stóra-Hraunsnes, þar sem við tökum land og förum jeppaslóð heim að bæ á Stóra-Hrauni.

20,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hítará, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rjúpnafell

Frá Bjarnalækjarbotnum á Gnúpverjaafrétti í Leppistungur á Hrunamannaafrétti.

Þessi leið tengir saman leiðir á afréttum Gnúpverja, Skeiðamanna, Flóamanna og Hrunamanna. Liggur frá Þjórsá til Hvítár.

Förum frá skálanum í Bjarnalækjarbotnum beint norðvestur að Eystra-Rjúpnafelli og tökum stefnu í það norðanvert og förum yfir Fellakvísl, sem er efri hluti Dalsár. Þegar við nálgumst fellið, förum við suður fyrir það og norðan við Rjúpnafellsvatn. Síðan áfram suður fyrir Vestra-Rjúpnafell og fyrir norðan Grænavatn, þar sem við komum á dráttarvélaslóð. Henni fylgjum við norðvestur að jeppaslóð milli skálanna í Leppistungum og Klakki. Fylgjum þeirri slóð skamma leið yfir Fúlá og síðan út af slóðinni til vesturs meðfram Stóra-Leppi að sunnanverðu og loks vestur fyrir fjallið að Leppistungum.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Nálægir ferlar: Kóngsás, Fjórðungssandur, Fitjaásar, Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rjúkandisdalur

Frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd um Rjúkandisdal að Leiru í Leirufirði.

Förum frá Unaðsdal norðaustur Rjúkandisdal austan við Rjúkandisá. Til norðurs austan við Rjúkandisvatn og um Öldugilsdal norður á Fremstafell. Síðan austan við Öldugilsheiðarvatn norður í Öldugilsheiðarskarð í 550 metra hæð milli tveggja hóla. Þar komum við inn á leið um Öldugilsheiði. Þar taka við hjallar með lágum klettum. Klettabrún blasir við í norðri, Krubbuhorn syðra. Við förum austan við hornið og stefnum á bæinn Leiru. Hlíðin er brött, en vel gróin.

14,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Öldugilsheiði, Dynjandisheiði, Kaldalón, Vébjarnarnúpur, Leirufjall, Hrafnfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort