Að velja lit á hárið

Punktar

Ein leiðin til að leysa vanda er að gera ekkert. Kannski fer vandinn eða gleymist að minnsta kosti. Þetta eru einkennisorð Bjarna Benediktssonar. Hann hóf ferilinn með því að afnema auðlegðarskatt. Að því loknu hefur fátt verið þaðan í fréttum. Ríkisstjórnin hefur 32,7 stuðning. Forsætis hefur falið fé í skattaskjóli eins og kollegi hans í Pakistan, sem sagði af sér. Bjarni Benediktsson segir aldrei af sér. Ætlar að þrauka út kjörtímabilið. Fækkar ráðherrafundum um helming til að draga úr ónæði. Tími hans fer í að velja lit á hárið. Ríkisstjórnin er lömuð og tveir stjórnarflokkanna án þingmannsfylgis í könnunum. Bjarni getur bara þraukað.

Fasteignabrask fólksins

Punktar

Krónur og gjaldeyrir er sitt hvað. Séu tekjur þínar í krónum, sem sveiflast, geta þær hækkað og einkum lækkað í raunverulegum verðmætum, það er gjaldeyri. Sjóðum er brýnt að hafa eignir sínar frekar í gjaldeyri, því til langs tíma rís hann í verði. Til að spara gjaldeyri hafa stjórnvöld oft takmarkað yfirfærslur um tíma. Ekki núna, hagvöxtur er góður vegna ferðaþjónustu. Því er góður tími til að losa sig við eignir á ferðamannasvæðum, svo sem Reykjavík. Fénu má svo skipta yfir í evrur til að kaupa í staðinn eign í sólarlöndum. Nú er fasteignabóla nýsprungin á Spáni og margir farnir að hugsa sér að verja ellinni á hvítum og ljúfum ströndum.

Takk, Jamie

Veitingar

Jamie Oliver búinn að opna á Borginni og slöngva geisla af heimsfrægð sinni yfir á gamla gleðihúsið. Enn nýtt útlit er komið á elzta matsal landsins. Ég er ekki frá, að þetta sé þeirra bezt. Hönnunin er alþjóðlegt brassière. Afgreiðsla úr eldhúsi afar sein, kúnnar orðnir óþolinmóðir. Risotto í innbökuðum kúlum, umvafið tómötum, olífum og chili, mjög gott og mjög Jamie. „Þorskur“ reyndist saltfiskur, örlítið ofeldaður, umvafinn tómötum og olífum. Jamie elskar tómata. Íslenzkir eru nákvæmari í eldunartíma fiskjar, þar hefur hann ekkert að kenna. Eitt af beztu eldhúsum landsins. Kærar þakkir, Jamie, og mundu að lækka verðið í hádeginu.

Sannur Varoufakis

Punktar

Sjálfsævisaga Yanis Varoufakis er ein merkasta slík, sem ég hef lesið. Átti mikinn þátt í uppreisn Grikkja gegn fjárkröfum Evrópusambandsins. Lýsir atburðum eins og utangarðsmaður. Átti kost á að verða innvígður og innmúraður í alþjóðlega fjármálaklúbbinn fullorðinna, en hafnaði því í viðtali við Larry Summers. Varð viðskila við félaga sinn Alexis Tsipras í evrópska þjarkinu, sem hefur haldið Grikklandi á floti um árabil. Síðan varð Varoufakis einmana tígrisdýr á vinstri kantinum. Sífellt að minna á, að heiminum er stjórnað af peningagreifum, ekki pólitíkusum.  Heiðarlegur og einlægur texti Varoufakis sýnir siðferðisgjaldþrot kapítalismans.

Bjart dómgreindarleysi

Punktar

Dómgreindarleysi ráðherra Bjartrar framtíðar ríður ekki við einteyming. Enginn ráðherra hefur sætt öðrum eins ákúrum og ráðherra flokksins í heilbrigðismálum. Óttar Proppé virðist ekki fatta neitt af þessari gagnrýni og talar eins og hann sé á rölti hjá Kormáki og Skildi. Tízkumálin fara líka þversum hjá Bjartri Ólafsdóttur umhverfisráðherra. Segja varð henni þrisvar, að ekki væri við hæfi, að ráðherra auglýsti flík, áður en hún hætti að snúa útúr og fór að biðjast afsökunar. Björt framtíð á ekki og hefur aldrei átt neitt erindi í pólitík. Þar á bæ vottar ekki fyrir meðaldómgreind, svo sem sýna þau ráðherrar, Óttar og Björt.

Markaðshyggja er dauð

Punktar

Í gamla daga trúðu sumir á kommúnisma. Þegar Sovétríkin brugðust, sögðu þeir: Kommúnismi er annað, kannski Albanía, Kína eða Maó. Sama gerist núna þegar sumir trúa á kapítalisma. Þegar Bandaríkin bregðast, segja þeir: Kapítalismi er annað, kannski nýfrjálshyggja, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn eða Singapúr. Í báðum tilvikum hefur aðeins eitt gerzt: Isminn reynist vera tálsýn. Sovétin voru röng. Og græðgi er ekki góð, þótt Hannes Hólmsteinn segi það. Samstarf er það, en ekki samkeppni, sem flytur fólk og þjóðir fram eftir vegi. Óbeizluð markaðshyggja leiðir alltaf fyrst til fáokunar og síðan til einokunar. Nú sjá þetta allir.

Gerónýtur bransi

Punktar

Hér á landi læra menn ekkert af alkalí, flötum þökum, raka og öðru mótlæti, sem einkennt hefur íslenzk hús um marga áratugi. Frágangur þræla úr Austur-Evrópu er tætingslegur, fagmennska á undanhaldi. Samt eru ný hús til sölu á uppsprengdu verði. Fimm herbergja blokkaríbúð á 200 milljónir, eruð þið viti fjær? Á sama tíma kostar svipuð fasteign á Spáni 20 milljónir. Ljóst er, að bransinn getur ekki séð þjóðinni fyrir nægu húsnæði á kurteisu verði. Það er ekki bransi, heldur þjófahópar. Að venju gerir ríkisstjórnin ekkert, flytur ekki inn norræn hús. Er í þriggja mánaða sumarfríi eftir verklausan vetur. Forsætis bara í gæsapartíum.

Slegist um stefnu

Punktar

Slegist er um stefnumál Þjóðfylkingarinnar í málum hælisleitenda og félags flugvallarvina í málum Vatnsmýrar. Undir forustu Sigmundar Davíðs frá Tortola stal Framsókn báðum þessum málum í síðustu borgarstjórnarkosningum. Raunar líka í þingkosningunum í fyrra. Þjóðfylkingin fékk þá nærri ekkert fylgi. Það er þó til þarna einhvers staðar í landslaginu, um 5% alls í síðustu skoðanakönnun. Hafði þó öllu verið sópað upp af Flokki fólksins, sem fékk 6% og obbann af pólitískri umræðu í samfélaginu. Inga Sæland er nýja stjarnan í pólitík, stelur líka fátækum frá væntanlegum Sósíalistaflokki. Sagan gerist óskipulega framhjá formúlunum.

Blessuð bílastæðin

Veitingar

Matarhúsið Marshall er á jarðhæð í háa gluggahúsinu úti á Granda, þar sem einu sinni var fiskverkun Bæjarútgerðarinnar. Hátt til lofts og vítt til veggja, útsýni á trukka og fiskikassa. Matreiðslan fremur slöpp, fiskitvenna dagsins hvorki ný né nógu lítið steikt. Fiskur dagsins á að vera fiskur dagsins. Þjónusta ekki útlærð, en hins vegar vingjarnleg. Hádegisseðillinn er með skemmsta móti og lítið spennandi. Efast um, að ég verði tíður gestur næstu vikur. Eru þó bílastæði næg, sem er að verða eitt af brýnustu atriðunum við val á veitingahúsi í borg kalins og saltstorkins reiðhjólafólks.

Tilskipun á Twitter

Punktar

Trump lætur ekki undan síga. Allt gengur á afturfótunum í stjórn hans. Þar koma menn og fara eins og á járnbrautarstöð. Trump tekur ekkert mark á stjórnarskrá og lögum. Dreifir út marklausum tilskipunum eins og confetti á Twitter. Segist geta náðað sig sjálfur. Segir allt, sem segja þarf um karlinn. Hann er óður og þarf að fara á viðeigandi stofnun. Tapaði í þinginu um afnám sjúkratrygginga Obamacare. Næst sendir hann þingið sennilega heim með tilskipun á Twitter. Raunar er hann að bylta bandaríska stjórnkerfinu frá degi til dags. Þannig endar þetta með, að bandaríski herinn verður sendur í Hvíta húsið til að koma Trump í hvíta treyju.

Sæðið að klárast

Punktar

Nýjasta heimsendaspáin felst í, að sæðisframleiðsla karla hafi rýrnað um helming á 40 árum Vesturlanda. Frá þessu þrumuskoti er sagt í Guardian og víðar. Með sama framhaldi verða vestrænir karlar orðnir næsta sæðislausir eftir hálfa öld. Þar með fer mannkynið að deyja út, jörðinni og lífríki hennar til heilla. Ekki er upplýst, hvað veldur þessum happafeng, né hver áhrifin verða. Hugsanlega verða konur búnar að koma sér upp sjálfsæðingu með hjálp lífræns viðhengis, sem kæmi í stað karls. Það mætti kallast jafntefli milli kvenna og jarðar. Karlar hafa jafnan verið til vandræða. Slást, lykta af bjór, ljótir ásýndar og karlrembdir.

Spíttað um bæinn

Punktar

Þegar stóru skemmtiferðaskipin voru hér um daginn, mátti sjá gamlingjana þeysa um gangstéttir á rafskutlum. Herramaður með snjallsíma og vindil sat keikur í einni slíkri og vantaði bara viskíglasið. Vélvirkið tók næstum ekkert pláss. Svo kom frú ein í rafknúnum Lazy Boy með hallanlegu baki. Það var glæsilegt að sjá. Svona heillatæki þurfa að koma í búðir, rafknúnir letistólar til að skeiða um miðbæinn. Kannski ætti ég bara að fá mér rafknúið og stillanlegt sjúkrarúm til að þeysa milli kaffihúsa. Það mundi spara húsakost í miðbænum og kannski spara pláss á spítalanum. Framtíðin er að taka við okkur, björt og fögur eins og veðrið sjálft.

Rakakóngar í byggingum

Punktar

Miðað við Evrópu eru hús á Íslandi illa byggð og illa við haldið. 25% húsa eru hér gölluð vegna rakaskemmda. Þær valda vaxandi heilsutjóni og kostnaði við að rífa upp skemmdir og laga. Betra væri að byggja almennileg hús, en varla verður hlustað á slíkt meðan bóla húsbygginga er við hún. Við svipaðar aðstæður annars staðar á hnettinum hefur verið farið í markvissar aðgerðir. Á Nýja-Sjálandi hafa þær minnkað rakaskemmdir um helming. Íslendingar eru seinir á ferð í þessu eins og alkalí-málinu sæla. Héldu áfram að reisa alkalí-hús löngu eftir að vandræði þeirra voru komin í ljós. Í ýmsu fleira hangir fólk, svo sem í flötu þökunum.

Flokkur fólksins

Punktar

Flokkur fólksins virðist hafa náð þeim markaði í pólitík, sem Sósíalistaflokkur Gunnars Smára sóttist eftir. Inga Sæland flokksformaður náði saman skemmtilegu samspili í Háskólabíói. Talsmenn alvöru verkalýðsfélaga, öldunga og öryrkja komu þar fram. Fólkið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hatar, húsnæðislausir, öldungar, öryrkjar og sjúklingar. Þarna var líka fólkið, er telur alls ekki sjálfsagt, að múslimar safnist fyrir á Íslandi. Fólkið, sem vill ekki múlti-kúlti Gunnars Smára og er stundum kallað rasistar. Samanlagt getur þetta fólk orðið nokkuð fjölmennt. Áhugavert verður að sjá, hvar flokkurinn dúkkar svo upp í pólitískra mynztrinu.

Valtað yfir átrúnaðargoð

Punktar

Karl Marx, Hayek og Friedman eru átrúnaðargoð ýmissa trúarbragða, sem kenna mætti við Mammon. Þeir boðuðu sínar lausnir og útskýrðu í löngu máli, hvers vegna sín lausn væri bezt. Nú er kominn metsöluhöfundurinn Thomas Piketty. Hann boðar engin trúarbrögð, en valtar samt yfir Marx og félaga. Sýnir með stærðfræði og gröfum, að allar lausnir verkuðu nokkurn veginn eins um aldir fram undir 1980. Frakkland, Þýzkaland og Bandaríkin voru í svipaðri stöðu eftir mjög svo misjafnar aðferðir. Höfuðmál Piketty er, að nýkapítalisminn eða nýfrjálshyggjan eftir 1980 leiddi til hratt vaxandi stéttaskiptingar. Að færa þarf skattbyrðina frá fátækum til ríkra.