Sprekið í hafinu

Punktar

Hef litla trú á, að gengi krónunnar lækki á næstu misserum. Hefur að jafnaði verið á uppleið allt árið. Ytri skilyrði eru ekki að fara að versna. Ferðamenn verða fleiri en í fyrra og næsta ár verða þeir fleiri en í ár. Aflabrögð verða betri en í fyrra. Ég sé ekki, að slíkt gefi tilefni til lægri krónu. Dýrt fúsk í Seðlabankanum hefur ekki nein áhrif. Né heldur grátkórar hagsmunaaðila. Dollarinn er á leið niður fyrir hundraðkallinn og evran niður að hundraðkalli. Pundið er í sínu eigin Brexit-rugli og verður áfram, þegar bankarnir flýja til Frankfurt. Íslenzka krónan verður áfram sprek í gengishafinu, handónýt sem gjaldmiðill.

Knús og viðvaranir

Punktar

Ársskýrslur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru enskar þýðingar á oflofi íslenzkra almannatengla. Þær endurspegla skoðun ríkisstjórnar hvers tíma. Nú er skýrslan um Ísland bland af knúsi og viðvörunum. Öllum má ljóst vera, að hér er góðæri vegna sprengingar í ferðaþjónustu og hærra gengis krónunnar. En AGS segir líka: Svig­rúm í fjár­mál­um hins op­in­bera gæti nýst í innviðum, í heil­sumálum og mennta­mál­um. Þetta þýðir, að ríkið geti fjármagnað viðreisn velferðar í heilsu og menntun. Ríkið lækkaði gjöld á ofurríka. Með að hætta því rugli og rukka líka fyrir afnot af auðlindum, getur ríkið fjármagnað betri velferð. Eins og AGS og þjóðin vilja.

Allt í plati

Punktar

Daglega heyri ég og les grátkór ferðaþjónustunnar í fjölmiðlum. Yfirgnæfir kór kvótaeigenda. Hvorir tveggja gráta hækkun krónu og segjast vera að gefast upp. Textinn er saminn af grátsérfræðingum í almannatengslum. Taka fjölmiðlaviðtöl við greifana sína og senda minnst eitt á dag til fjölmiðlanna. Þeir taka í tímahraki við framleiðslunni og birta athugasemdalaust. Áratugum saman hafa helztu þjófar landsins komizt upp með þessa hegðun. Ferðaskrifstofur erlendis eru sagðar hættar að selja ferðir hingað, en erlend flugfélög fjölga samt ferðunum. Og nú segjast bílaleigurnar vera að fara á hausinn. Harmleikurinn „Alt í plati“ magnast óðum.

Hættur að lita hárið

Punktar

Hef áhyggjur af, að Bjarni Ben hætti að lita hárið og tók upp hárlagningu Gunnars Braga Sveinssonar fyrrum ráðherra. Er orðinn steingrár á fax. Ýmsir hafa kvartað yfir þessu og bent á, að steingrátt hár fari ekki við ryðlit vetrarföt. Krónan lækkaði um stundarsakir, en komst til meðvitundar og fór aftur að hækka. Svona stílbylting hefur örugglega áhrif. Bjarni hefur hingað til verið teflon-húðaður eins og Katrín Jakobsdóttir og haft tilsvarandi kjörþokka. Þar sem við höfum ekki fleira kjörþokkafólk, er úr vöndu að ráða. Hvað gerist, ef oddakona andstöðunnar tæki upp á að verða steingrá? Verðum við þá ekki að leita dauðaleit að kjörþokka?

Svarti misskilningurinn

Punktar

Tilraun Benedikts Jóhannessonar til að innkalla verðmikla peningaseðla er byggð á misskilningi. Gamlar konur, sem gefa seðla í afmælum, draga þá ekki upp úr töskum að hætti fíkniefna-heildsala. Fólk, sem borgar píparanum svart, er ekki heldur að gera slíkt. Yfirgnæfandi meirihluti svarta hagkerfisins er hjá félögum Benedikts í eignatoppi samfélagsins. Svart hagkerfi er minnst í seðlum og mest á reikningum í bönkum. Þar er það flutt milli banka um allan heim á sekúndubroti, samkvæmt frjálsu peningaflæði auðhyggjunnar. Svarta hagkerfið felst fyrst og fremst í gamalkunnum þjófnaði, hækkun í hafi. Þar eru framin öll helztu skattsvik Íslendinga.

Líkist Loðvík fjórtánda

Punktar

Benedikt Jóhannesson líkist Loðvík 14, sem sagði: Ríkið, það er ég. Af og til fær Benedikt lélegar hugmyndir, sem honum finnst svo frábærar, að hann lýsir yfir, að þær verði framkvæmdar. Þannig talaði hann um afnám tíuþúsund króna seðla, eins og það væri ákveðið. Dró svo allt til baka, þegar almenn andstaða kom í ljós. Vinnubrögð Benedikts eru ekki í lagi. Hann þarf að gera sér grein fyrir lögmætu ferli breyttrar seðlaútgáfu. Ekki tala eins og franskur einvaldskóngur. Kannski stafar fum Benedikts að einhverju leyti af þekktri rökleysu. Hún felst í að fólk ruglar saman sögnunum að segja og að gera. Það heldur að nóg sé að tala og tala.

Thomas Piketty er málið

Punktar

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty fer fyrir hópi hagfræðinga, sem hefur nýtt sér nýjar og  gamlar hagtölur og nýtt innihald hagtalna til að mæla gegn nýfrjálshyggju og boða andlát hennar. Sterkasta sönnunin er vaxandi munur tekna og eigna auðgreifa og fátæklinga. Nýfrjálshyggjan steypir mannkyninu í byltingu, ef kjósendur átta sig ekki í tæka tíð. Piketty hefur rökstutt borgaralaun allra, almenna velferð auðlegðarskatt á hina moldríku og auðlindarentu á auðlindir þjóða. Ísland ætti til dæmis að leigja út auðlindir sjávar og lands á frjálsum markaði. Nota féð til að efla velferð og heilsu fólks og koma upp borgaralaunum. Hér væri hann Pírati.

Kaldi bletturinn

Punktar

Undanfarin ár hefur kaldur blettur í hafi og lofti suðsuðvestan Íslands vakið athygli. Hefur valdið grimmara veðri hér en ætti að vera við eðlilegar aðstæður. Áhyggjur hafa komið fram um, að Golfstraumurinn tapi krafti og að hér verði kaldara næstu árin. Norskir veðurfræðingar spá, að vandinn verði kominn þangað eftir áratug. Íslenzkir veðurfræðingar hafa skoðað þessar aðstæður og vilja fylgjast betur með framvindunni. Ekki bara kuldinn er vandi, heldur lágt saltmagn líka. Við getum reiknað með tilfærslum á fiskstofnum og auknum ofsa í veðurfari. Það getur skaðað dýrmæta atvinnuvegi. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi.

Arður úr engu

Punktar

Hægt er að bera saman hagtölur evrópskra ríkja í þrjár aldir. Auðvelt er að sjá, að ekki gengur, að arður sé meiri en framleiðsluaukning. Þá verða til ímyndaðir peningar. Kreppur verða aftur og aftur, brenna umframpeningana. Þær leggja drög að nýjum arði umfram framleiðslu, sem leiðir til annarrar kreppu. Er eitt helzta einkenni þeirrar hagfræði, sem rekin var á síðustu öld og leiddi reglubundið út í kreppu. Græðgistrú nýfrjálshyggjunnar magnar sveifluna og kallar á nýja hagfræði. Sú fræði skrúfar fyrir umfram-arðinn með auðlegðarskatti, auðlindarentu, velferð og borgaralaunum. Kjarni nýju hagfræðinnar er svo að losna við tryllta bankstera.

Víður þjóðarfaðmur

Punktar

Þúsundir rannsóknastofnana eru til í heiminum, flestar í hagsmunagæzlu og gefa út undarleg gröf. Þau eru birt út um allan heim, því að mörgum finnst gaman að lesa, hvar hans land sé statt í súpu heims. Tek sjaldan mark á þessu. Geri þó frávik, ef gröfin samræmast rökhugsun minni. Social Progress Imperative birtir graf, byggt á ýmsum gögnum, sem sýnir Íslendinga hafa mest umburðarlyndi allra þjóða. Hefur gert okkur kleift að taka úthrópaða hópa í þjóðarfaðminn, til dæmis lessur og homma. Viðurkennum þau sem hið bezta fólk. Konur eru líka komnar áleiðis til jafnstöðu. En sumt umburðarlyndi er vont, til dæmis gagnvart bófum í pólitík.

Einhliða fréttir

Punktar

Var að lesa Vísi. Þrjár fréttir vöktu athygli. Fjölluðu um stór ágreiningsefni. Í öllum tilvikum var talað við eina hlið deiluefnis. Betra væri, hefði vefmiðillinn spurt um hin ýmsu ágreiningsefni. Bent á tilvist fleiri skoðana. Í einni frétt emjar Rannveig Rist yfir milljarðatapi Straumsvíkur. Ekki er sagt, að skýringin sé hækkun í hafi, tilbúnar skuldir og vaxtagreiðslur til erlendra fyrirtækja í samsteypunni. Í annarri frétt segir Finnur Árnason Bónus vera ódýrara en Costco. Ekki eru nefnd ýmis dæmi þess, að svo er ekki. Í þriðju frétt Vísis grætur ferðaþjónustan yfir sköttum og skyldum. Ferðamenn hætti því að koma. Engin dæmi eru rakin. Þannig verð ég smám saman ónæmur fyrir metnaðarlausum fjölmiðlum.

Undarleg sáttaleið

Punktar

Athyglisvert er, að fulltrúar launafólks hafa ekki tekið sæti í Þjóðhagsráði. Það stafar af, að ríkisstjórnin hefur fyrirfram bannað ráðinu að tala um ýmis atriði, sem varða þjóðarhag. Til dæmis má ráðið ekki fjalla um notkun ríkisfjár. Þrengir auðvitað hugtakið: Þjóðarhagur. Ef ræða ætti um félagslegan stöðugleika og sátt milli stétta, þarf að ræða notkun ríkisfjár. En ríkisstjórninni er mjög illa við slíkt, því hún stefnir að rústun stofnana, einna fyrst Landspítalans. Því sitja bara seðlabankastjóri og fulltrúar atvinnurekenda með fulltrúum ríkisstjórnar og sveitarfélaga í Þjóðhagsráði. Afar undarleg leið að sátt í þjóðfélaginu. Skrípó.

Bullar í hjáheimi

Punktar

Tveir flokkar ríkisstjórnarinnar hafa enga aðra stefnu en að vera í ríkisstjórn. Fyrir kosningar skrifa Viðreisn og Björt framtíð marklausar stefnuskrár og loforð í sósíaldemókratastíl. Raða sér síðan í ráðherrastóla og taka upp mál Flokksins. Engu máli skiptir, hvað ráðherrar segja, bulla bara eitthvað út í loftið. Einna lengst gengur Þorsteinn Víglundsson, sem skáldar tölur um fjármál Landspítalans og neitar að útskýra þær. Ýkir framlög ríkissjóðs til spítalans og svarar ekki fyrirspurnum fjölmiðla. Sagði spítalann hafa verið endurreistan. Í raun er hann rosalega undirfjármagnaður. Í raun bullar Þorsteinn Víglundsson í hjáheimi sínum.

Legó við háskólann

Punktar

Enn bætist hryllingur við þrengingu byggðar í Reykjavík. Reisa á stúdentagarða í hinum alræmda legó-glerstíl á vel sýnilegu horni neðan við Gamla-Garð. Sams konar arkitektúr og skipulagður hefur við vesturhluta Lækjargötu. Milli Skólabrúar og Vonarstrætis og milli Hafnarstrætis og Geirsgötu. Byggingasvæðin eru öll á flottum stöðum og munu gerbreyta svip miðborgarinnar, eins og skrímslið við Mýrargötu, sem þegar hefur verið reist. Ekkert þessara húsa tekur mið af eldri húsum svæðisins. Virka eins og skítur úr rassi lóðarbraskara. Um langt árabil hefur Borgarskipulagið verið hóra gróðafíkinna verktaka og arkitekta þeirra.

Brauðmolar falla

Punktar

Svo mikið útskrifast af lögmönnum Flokksins, að til vandræða horfir. Að vísu fást embætti á vegum ríkisins, en engan veginn næg. Á lögfræðistofum hrannast upp nýir flokksmenn. Ríkisstjórnin hleypur undir bagga með því að ráða til sérstakra verka á vegum ríkisins. Hinar og þessar geymslur fyrir kvígildi flokksins fá árlega verkefni upp á yfir hundrað milljónir króna. Jafnframt greiða geymslurnar mikið fé til flokksins í þakklætisskyni. Ríkisendurskoðun hefur fundið lyktina: „Gerir athugasemd við, að ráðuneytið hafi ekki staðið betur að samningsgerðinni og hagað þessum kaupum á sérfræðiþjónustu í samræmi við leiðbeiningar sínar.“