Velmegun í Evrópu

Punktar

Velmegun hefur aukizt á meginlandi Vestur-Evrópu síðustu ár. Gildir raunar um öll ríki Evrópusambandsins, en einkum um Þýzkaland og Frakkland. Financial Times kallar þetta hljóðláta byltingu. Á tímum pólitískra erfiðleika stendur sambandið sterkum fótum og evran reynist traustur gjaldmiðill. Blaðið spáir sömu framvindu næstu árin. Bretland hins vegar stefnir í fjármála- og efnahagsvanda vegna Brexit, brottfarar úr sambandinu. Undanfarin ár hafa fjölmiðlar spáð illa fyrir sambandinu og gjaldmiðli þess. En nú er það að breytast. Ég sé í þessu merki um, að Evrópa sé að hverfa frá auðhyggju. Að byrja að vinna meira fyrir almenning.

Uppákomur duga skammt

Punktar

Komið er í ljós heima og erlendis, að skammvinnur er árangur af mótmælafundum, göngum, og þvílíku uppistandi. Sjaldan er þátttakan svo mikil að pólitíkusar verði hræddir og þá aðeins til skamms tíma. Fljótt fer allt í sama farið og fólk hefur ekki úthald í stöðuga atburði. Það vantar að tengja þetta við stöðuga og sterka kröfu um innleiðingu nýrrar hagfræði, fræði Chomsky og Piketty. Hagfræði fyrir þarfir almennings komi stað hagfræði fyrir 1%, auðgreifana. Nýja hagfræði sem segir, að græðgi sé ekki góð og brauðmolar falli ekki af borðum auðugra. Þeir sogast bara til Tortola. Nýfrjálshyggjan er að deyja. Ný hagfræði tekur við.

Hlýðir yfirvaldinu

Punktar

Guðni Th Jóhannesson forseti sendir kjósendum sínum skilaboð um, að hann ráði engu í stjórnkerfinu. Geri bara það, sem honum er sagt. Svarar þannig gremju sumra yfir því, að forseti vinni ekki „samkvæmt stjórnarskrá“. Í henni segir, að forseti ráði hinu og þessu, sem hann, samkvæmt hefð, ræður ekki. Er raðnauðgari barna fær forgang með uppreist æru, fer almenningur að ókyrrast. Guðni svarar og segir: „Enda er ég ábyrgðarlaus á stjórn­ar­at­höfn­um sam­kvæmt stjórn­ar­skrá.“ Þrálát er sú óskhyggja sumra kjósenda, að forseti sé öryggisventill kerfisins. Svo hefur ekki verið, nema í tíð Ólafs Ragnars, sem víkkaði fáránlega lélega stjórnarskrá.

Reynir að ögra

Punktar

Heimskulegasta ráðstöfun Ögmundar Jónassonar sem innanríkisráðherra var að skipa Harald Johannessen aftur sem ríkislögreglustjóra. Sá hefur ekki verið með fullum sönsum og er vís til að valda vandræðum. Vinstri grænir geta þakkað það Ögmundi. Haraldur hefur lengi þjáðst af ofsóknarkennd og flýr af veitingahúsum, þegar hann sér mig þar. Hefur nú ákveðið að herlögreglan beri sýnilegar Glock skammbyssur á barnahátíðum og 17. júní. Áður var herlögreglan á sömu stöðum, en falin bakvið myrkvaða glugga sendiferðabíla. Munurinn er sá, að nú er hún sýnileg og sýnilega vopnuð. Johannessen er að reyna að ögra ímynduðum hryðjuverkamönnum sínum.

Leynideila uppi á sviði

Punktar

Leynideila pólitíkusanna Þorsteins Pálssonar og Svandísar Svavarsdóttur er háð fyrir opnum tjöldum. Á vefsíðum fjölmiðla deila þau um, hvort Vinstri græn eða Viðreisn sé að spilla sátt í pólitískri nefnd um sátt í sjávarútvegi. Auðvitað er athyglisvert, hvernig flokkum þessum og nokkrum öðrum tekst sí og æ að hindra markaðslögmál í sjávarútvegi. Felast í uppboði á veiðileyfum, svo að komast megi að raun um verðgildi þeirra. Og til að ná megi fé til fullrar velferðar að hætti norður-evrópu. Við skiljum ekki deilu Þorsteins og Svandísar, því að þau tala í gátum. Væru nefndarstörf gegnsæ, mundum við hin skilja, hvað þau eru að deila um.

Hægri villimenn

Punktar

Mér finnst ekkert skrítið, að Bjarni Ben & Co sé í fjölþjóðasamtökum evrópskra hægri villimanna. Með Recep Tayyip Erdoğan, einræðisherra Tyrklands, Jussa Halla-aho, formanni Finnaflokksins, Jarosław Kaczýnski í Lögum og rétti í Póllandi. Og svo auðvitað Theresu May, formanni Íhaldsflokksins. Húsum hæfir hægri foringjar eru í European People’s Party með Angelu Merkel og meirihluta fulltrúanna á þingi Evrópusambandsins. Þeir eru auðvitað ekki nógu hægri sinnaðir fyrir Bjarna Ben. Húsum hæfir hægri pólitíkusar reyna að blanda saman auðhyggju og velferð. En villimennirnir keyra á auðhyggjunni, blandaðri við léttan Mussolini, il Duce.

Verið hrædd, mjög hrædd

Punktar

Haraldur Jóhannesson er hræddur. Hræddur við kommúnista, Rússa, útlendinga og Íslendinga. Vill, að við séum hrædd. Verið hrædd, er boðorðið. Telur fælingarmátt felast í, að hazarstrákar í löggunni beri sýnilegar byssur á hátíðum, þar á meðal barnahátíðum og 17. júní. Engar rannsóknir liggja að baki fælingarmætti sýnilegra byssa. Það eru órar í Haraldi. Líklegra, að sýnilegar byssur æsi kommastráka upp. Hazarstrákar mega vera á hátíðum, en bezt er, að þeir haldi sig bak við myrkvaðar rúður sendibíla sinna. Þegar byltingin verður 17. júní, geta þeir stokkið út með byssur á lofti, æpt „stinganapp“, komið að sama ógagni og sýnilegir hazarstrákar.

Borgaralaun eru dýr

Punktar

Borgaralaun kosta mikið fé. Upp í þau ganga styrkir til atvinnulausra, aldraðra, fátækra, sjúklinga og öryrkja. Greiðslur fyrirtækja á jafngildi borgaralauna. Ennfremur greiðslur þeirra á hvert vélmenni sem kemur í stað láglaunafólks. Sé gert ráð fyrir ókeypis heilsuþjónustu og skólaþjónustu, verða þessar mótgreiðslur lægri en borgaralaun. Því þarf ríkið líka að fá auðlindarentu og auðlegðarskatt til að veita þá velferð. Ég hef ekki séð tölur um, hver þessi mismunur getur orðið. Gott væri að stíga skrefið í áföngum. Svo að á hverju stigi sé hægt að sjá, hvert fjárhagsdæmið er og haga seglum eftir því. Borgaralaun eiga að vera til umræðu.

Chomsky-Piketty

Punktar

Eftir seinni heimsstyrjöld ríkti sósíaldemókratismi og Keynes hagfræði í Evrópu, friður og spekt. Þjóðirnar jöfnuðu sig eftir stríðið og stofnuðu Evrópusamband. Kaupmáttur almennings jókst verulega. Þá kom til sögunnar nýfrjálshyggja um 1980 og Hayek-Friedman hagfræði um, að græðgi sé góð, brauðmolar muni falla af borðum ríkra til fátækra. Síðan þá hefur kaupmáttur almennings frosið og staða fátækra og velferðar versnað. Bara ríkasta 1% þjóðar bætti hag sinn og tók til sín allan hagvöxt. Settar eru skorður við útgjöldum í velferð og innviðir engilsaxneskra samfélaga eru rústaðir. Nú þarf nýja hagfræði Chomsky-Piketty. Líka hér á landi.

Ekki allir eins

Punktar

Almenningur segir þá vera alla eins. Flokkarnir séu allir sama tóbakið og einnig pólitíkusarnir. Grundvallarmisskilningur, flokkarnir eru gerólíkir. Valdið hefur í hundrað ár verið í höndum stóra bófaflokksins. Vinstri græn eru gerólík, að vísu íhald, en miklu hlynntari almenningi en auðgreifum. Á milli eru flokkar tækifæranna, sem eru til hægri í hægri stjórn og til vinstri í vinstri stjórn. Þarna eru Framsókn opin í báða enda, Samfylking Blairista og Bezti flokkur bjána, sem haga öll seglum eftir vindi. Píratar eru byltingarsinnaður miðjuflokkur, sem meinar það, sem hann segir. Ætti að vera óþarft að segja þér, hver þjóni fólkinu.

Í bönker er öryggi

Punktar

Ég fylltist þjóðaróöryggi, þegar Þjóðaröryggisráð hélt fund í bönker sínum á Keflavíkurflugvelli. Þar er bara dósamatur og Bjarni Ben var heldur súr, þegar honum var færður diskur með sardínudós og Ora-baunum. Tilefni fundarins var lát þriggja fórnardýra hryðjuverka í London. Mikil hætta er á, að þjóðaröryggisstig á Íslandi geti hækkað. Ákveðið var að senda vopnaða þjóðaröryggissveit á vettvang, þegar samkvæmi eru haldin, hvar búast má við tuttugu manns eða fleirum. Fyrsta óöryggið reyndist vera Hrafnistumenn á Sjómannadegi. Þar var ekki framið neitt hryðjuverk. Þakkar Bjarni það sýnilegri árvekni byssumanna og Þjóðaröryggisráðs. Fylgist hér áfram með fréttum úr bönkernum.

Fimm utangarðsmenn

Punktar

Donald Trump er utangarðsmaður. Réðist inn í tóma skel Repúblikana og rændi flokknum. Sameinaði sósíalískt tal og nýfrjálshyggju gerðir. Varð forseti út á botnlausan róg og lygar um Hillary Clinton. Kringum hann er hirð samvizkulausra og siðblindra almannatengla. Sigmundur Davíð er líka utangarðsmaður. Réðist með fjármagn föður síns inn í tóma skel Framsóknarflokksins og rændi flokknum. Flutti lýðskrum í síbylju. Missti síðan ríkisstjórn og flokk úr höndum sér vegna eigin fjárglæfra. Einnig utangarðsmenn, en öðru vísi lýðstjórar eru Bernie Sanders og Jeremy Corbyn. Þeir segja satt: Hinir ríkustu mergsjúga þá fátæku gegnum pólitík.

Ljósið sést í myrkrinu

Punktar

Kjör Donald Trump er stærsta dæmið um villu og svima í Bandaríkjunum. Fólki mislíkar, hvað mikið það skuldar, að það skuli þurfa að búa í aftanívagni, að það geti ekki greitt fyrir veikindi, slys og skólagöngu barna. Það hatar allar stofnanir, helzt þær sem tengjast ríkinu. Það hatar forsetann, pólitíkusa, velferðina, fjölmiðlana og oft sér í lagi útlendinga. Það hafnar sósíaldemókrötum og kýs fasista eins og Trump, sem elur á þessu hatri. Þannig er ábyrgðinni vísað frá því 1%, sem öllu ræður í Bandaríkjunum. Bernie Sanders er samt dæmi um, að sumt fólk er byrjað að sjá gegnum þokuna. Hann náði langt, en ekki nógu langt. Kannski sér fólk ljósið bráðum.

Skertur hlutur óheppinna

Punktar

Ekki er aðeins, að efsta 1% samfélagsins raki saman fé á kostnað 10% botnsins, heldur nýta efstu 20% samfélagsins sér það líka. Vaxandi tekju- og eignabil er milli þeirra og 20% samfélagsins, sem næst eru botninum. Í Bandaríkjunum er ris upp samfélagsstigann orðið næstum ókleift. Yfirstéttin og efsti hluti miðstéttar gína yfir nærri öllum valda- og tekjupóstum samfélagsins. Í Íslandi er það ekki eins magnað. Hér hefur almennt launafólk náð auknum kaupmætti í kjölfar hækkunar á verðgildi krónunnar vegna túristasprengjunnar. Aðeins hin 10% óvinnufæru á botninum, gamlingjar, öryrkjar og sjúklingar, svo og húsnæðislausir, sitja eftir með skertan hlut.

Áhrifalaus dagblöð

Punktar

Flest mest seldu dagblöð Bretlands mæltu með Theresu May og vöruðu ákaft við Jeremy Corbyn í lok kosningabaráttunnar. Financial Times, Times, Daily Mail, Sun, Telegraph og Express töldu það jaðra við þjóðníð að kjósa Corbyn. Allt kom fyrir ekki. May missti meirihlutann og verður að styðjast við fulltrúa 17. aldar, flokk Ian Paisley í Ulster. Mirror eitt studdi Corbyn, svo og Guardian síðustu vikuna. Dagblöðin og BBC eru hætt að ráða úrslitum kosninga í Bretlandi. Blöðin eru talin vera hluti elítunnar, sem Bretar eins og aðrar þjóðir eru farnar að hata. Enginn hliðvörður hefur lengur hemil á lýðnum, sem smám saman færir sig upp á skaftið.