Rétt skrimt í auðræði

Punktar

Verði nýfrjálshyggjan ekki stöðvuð á Vesturlöndum, mun ríkja auðræði auðgreifa og aðrir munu rétt skrimta eftir getu. Sama gildir um Ísland og önnur þróuð lönd. Skattar á hina ríkustu hafa verið stórlækkaðir eða afnumdir. Auðveldara er að fela aurinn á aflandseyjum en að borga skatt. Hefur ekki látið brauðmola falla niður til fátæklinga. Þvert á móti er ryksugað daglega. Kreppuvaldar á borð við Goldman Sachs fara lóðbeint á hausinn, allt afskrifað og þeim gefið skattfé til endurlífgunar. Við þekkjum þetta líka hér. Sumir borga alls engan tekjuskatt, til dæmis álverin hérna. Kvótagreifar ráða sjálfir, hvað fer út hljótt úr hagkerfinu.

Lífshættulegasti ráðherrann

Punktar

Kári Stefánsson segir réttilega í dag, að Björt framtíð þurfi að losa þjóðina við hræðilegan heilbrigðisráðherra. Grein Óttars Proppé í dag staðfestir orð Kára. Stefna Proppé er beinlínis skelfileg og veldur mannslátum á hverjum degi. Skorið er niður í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega Landspítalanum, en tveir milljarðar lagðir til hliðar til að efla einkavinavæðingu. Proppé laug 100% fyrir kosningar og jafnvel eftir kosningar, en gerir ekkert núna. Lítur á nefndir og pappíra sem framfarir í heilbrigðismálum. Nefndir og pappírar lækna engan, en það gera læknar og hjúkkur. Proppé er sennilega lífshættulegasti ráðherra landsins á þessari öld.

Margir eru útundan

Punktar

Þegar íslenzkar greiningardeildir eru farnar að endurspegla erlendar haglýsingar, er ljóst, að nýfrjálshyggja er að heyja sitt dauðastríð. Greiningardeild Arion hefur áttað sig á, að ýmsir hópar hafa misst af góðæri ferðaþjónustu. Útundan eru ekki bara hluti gamlingja og stærri hluti öryrkja og sjúklinga. Fjölmennastur útundan hópa er ungt fólk á trompuðum íbúðamarkaði. Það býr við skertan kaupmátt og enn skertari eignastöðu. Mismunur er því að aukast í þjóðfélaginu hér sem og í Bandaríkjunum og Evrópu. Eins og ég hef margsinnis bent á að undanförnu. Aukin sjálfvirkni mun fljótt leiða til atvinnumissis. Kominn er tími á nýtt hagkerfi.

Sjáum ekki borgaralaunin

Punktar

Við lifum í herbergi með einum glugga. Út um gluggann sjáum við sumt fyrir utan. Við sjáum ekki hitt og viljum því ekki tala um það. Borgaralaun er eitt af því, sem ekki má tala um. Fitji einhver upp á umræðu um þau, þegja menn bara og tala um annað. Stöku sinnum þóknast mönnum að lýsa frati á vitleysuna: Borgaralaun! Og hver á að borga? Fáránlegt! Samt er tækniþróun að hraða sér svo hrikalega, að sjálfstýrðir bílar koma á götuna eftir tvö ár. Eftir tíu ár verða vélmenni búin að taka yfir verkefni fjölmennra hópa. Með tilsvarandi atvinnuleysi. Hvernig á þá að leysa þann vanda? Með borgaralaunum. Við þurfum núna að fjalla um borgaralaun.

400.000 á mánuði

Punktar

Um 400.000 krónur á mánuði ættu að nægja fyrir öldunga, öryrkja og sjúklinga. Eftir skatta er upphæðin komin niður í 305.000 krónur. Þá er gert ráð fyrir, að heilsuþjónusta sé ókeypis eins og áður var. Einnig má gera ráð fyrir, að hækka þurfi lágmarkslaun í landinu upp í sömu tölu, 400.000 krónur fyrir skatta. Gera má ráð fyrir, að lífeyrissjóðir geti til að byrja með haldið áfram að leggja í ellipúkkið, þótt tilgangur þeirra sé að veita ábót á lágmarksframfærslu. Enginn þarf að efast um, að fé sé til fyrir þessu. Tugmilljarðar fara framhjá sköttum í skattaskjól og leiga á helztu auðlindum landsins fer enn framhjá útboðum.

Frosin laun

Punktar

Economist segir okkur að raunlaun hafi verið frosin á vesturlöndum frá aldamótum. Fólk hefur ekki fengið aðild að hagvextinum. Hann hefur allur farið í vasa auðmanna. Sama kemur fram í skýrslum OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar. PEW stofnun telur, að frostið hafi staðið síðan seint á síðustu öld. Fræðimenn eru farnir að átta sig á, að hagspekitilgátur Hayek og Friedman hafa allt annan enda en þeir töldu. Þær leiða til aukins ójafnaðar í launum og eignum og hindra aðild almennings að hagvexti. Hér á landi eru greiningastofur enn á villigötum. Enda ríkja þar hin gömlu hagtrúarbrögð, sem oft eru kennd við nýfrjálshyggju.

Economist

OECD

PEW

Skattar til jöfnunar

Punktar

Skattar eru oft notaðir til jöfnunar milli ríkra og fátækra. Skattgólf og -þrep eru notuð til að hafa misjafna prósentu. Um þetta ríkir ekki almenn sátt, ríkir vilja gjarna fækka skattþrepum og hafa þau jafnvel bara eitt fyrir alla. Þrepin hafa samt meiri útbreiðslu á vesturlöndum. Forsendur þrepanna hafa styrkzt við, að síðasta aldarþriðjung hafa hinir ríkustu hirt allan hagvöxt, hinir fátækustu ekki fengið neinn. Með Evrópusambandinu hefur tekjuflutningi líka verið beitt milli landa. Tekjujöfnun felst ennfremur í ýmsum öðrum smærri sköttum, svo sem erfðafjárskatti. Auðlindarenta dregur líka úr auknum tekjumun ríkra og fátækra.

Lýðræði og þjófræði

Punktar

Til að koma upp lýðræði á Íslandi þarf í fyrsta lagi að hefja gegnsæi í kerfinu, eins og gert var í vetur í Reykjavík. Þá fær fólk sýn í innviðina. Í öðru lagi þarf að líma þjóðina betur saman með því að flytja fé frá hinum 15.000 ríkustu til hinna 15.000 fátækustu. Það gerist með breyttum sköttum og auðlindarentu. Í þriðja lagi þarf að sparka krónunni og taka upp alvöru myntir frá útlöndum, svo að vextir komist niður í skynsamlegt horf. Þá getur ungt fólk aftur fengið þak yfir höfuðið. Framlenging þjófræðis í áratug eftir hrunið verður afnumið og Sjálfstæðisflokkurinn leggur sig niður. Í stað þjófræðis fáum við loks lýðræði.

Á sömu bókina lært

Punktar

Við höfum séð, hvernig gerðir bófaflokksins og nýfrjálshyggjuflokksins smitast um samfélagið. Óttarr Proppé orðinn svo kexruglaður, að hann er farinn að fjalla um nauðsyn á kostnaðarvitund sjúklinga og aukinni greiðsluþátttöku. Hvort tveggja er newspeak úr nýfrjálshyggju. Framsókn, Vinstri græn og Samfylkingin gangast upp í kjördæmapoti, Vaðlaheiðargöngum og Húsavíkurfabrikku. Þar á ofan eru ýmsir helztu valdamenn Vinstri grænna undirlægjur kvótagreifa. Samtals hafa bófaflokkurinn og Vinstri grænir meirihluta kjósenda samkvæmt könnunum. Þótt pólitíkusar séu vondir eru kjósendur hálfu verri. Eini brúklegi þingflokkurinn núna er flokkur Pírata.

Óbærilegt líf

Punktar

Lífið er sumum ykkar óbærilegt. Þarft að vinna of langa daga. Hver fjölskylda þarf tvær fyrirvinnur. Þú eyðir miklum tíma í ferðir í vinnuna. Þar eru verkefnin hver öðru lík og innihaldslaus. Uppsagnir margfaldast og óöryggi veldur sálrænum sjúkdómum. Láglaun hafa lækkað í hlutfalli við önnur laun. Skuldir hafa gert þig að skuldaþræl. Þú hamast og stendur samt ekki einu sinni í stað, heldur hrekstu undan storminum. Hrekst úr einni vinnu í aðra, reynir að eiga fyrir afborgunum og að eiga fyrir nauðsynjum. Þú óttast um öryggi þitt í ellinni. Lífið er þrældómur. Gerum uppreisn gegn nýfrjálshyggjunni og losum okkur úr þrælahaldi ofurgreifanna.

Einum er fyrirgefið

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn birtir kratastefnu fyrir kosningar og kratískan sáttmála eftir kosningar. Hvorugt plaggið hefur hið minnsta raungildi. Gerðir ráðherra bófaflokksins snúast um allt annað, skattalækkanir á auðgreifana. Þetta misræmi fellur tæplega 30% þjóðarinnar í geð. Kjósa flokkinn gegn eigin hagsmunum sínum. Björt framtíð og Viðreisn birta líka kratisma í plöggum sínum og taka síðan ekki mark á honum eftir kosningar. En þeim er ekki fyrirgefið eins og bófaflokknum. Eru komnir niður fyrir 5% lágmarkið til að fá þingmann. Sjálfstæðisflokkurinn er bófaflokkurinn, hvers kjósendur láta sig einu gilda, hvort gerðir stangist á við orð.

Hangsað yfir skattrannsókn

Punktar

Skattrannsókn á lekagögnum frá Mossack-Fonseca leiðir í ljós, að 349 íslenzkir aðilar eiga þar stórar fúlgur. Sumar reiknast í hundruðum milljóna. Hafa þó bara 34 mál verið könnuð. Hafa skilað í viðbótarsköttum sem nemur margföldum kostnaði við kaupin á leku gögnunum. Þótt dæmið sé komið í plús eftir 10% vinnu, er ástæðulaust að hangsa meira við rannsóknina. Hana þarf að kýla áfram, þótt ýmsir eigendur pólitíska bófaflokksins emji. Engar ákærur hafa enn verið gefnar út, þótt lög mæli svo fyrir. Augljóst er, að þarna er hægt að ná í milljarða, sem sviknir hafa verið undan skatti. Heil tvö ár eru síðan leku gögnin komu í ljós.

Átta móti öllum

Punktar

Í nýrri skýrslu hjálparstofunnar Oxfam kemur fram, að átta menn eiga meira milli handa en 50% mannkyns. Þessi ofboðslegi munur er notaður til að keyra áfram hag hinna allra ríkustu á kostnað allra annarra. Honum er meðal annars beitt til að efla nýfrjálshyggju í pólitík. Til að efla slag fátæklinga um að komast niður á botninn í láglaunum til að fá vinnu. „Allt fyrir okkur og ekkert fyrir aðra“ eru einkennnisorð áttmenninganna. Hannes Hólmsteinn þýddi það á íslenzku sem „Græðgi er góð“. Munur þessi fer ört vaxandi, enda hefur nýfrjálshyggja verið við völd frá tíma Reagan, Thatcher og Davíð. (Hinir 8 ríku eru Gates, Ortega, Buffett, Helu, Bezos, Zuckerberg, Elison og Bloomberg). Senn fer að líða að byltingu.

OXFAM

Sjóðir þræla eiga Granda

Punktar

Lífeyrissjóðir almennings eiga tæp 40% í Granda, sem var að segja upp tæplega 100 manns á Akranesi. Í stjórnum sjóðanna sitja meðal annars fulltrúar stéttarfélaga, sem ættu að gæta hagsmuna félagsmanna. Eins og fulltrúar þýzkra verkalýðsfélaga gæta hagsmuna félagsmanna í þýzkum fyrirtækjum. Þvert á móti eru hér fulltrúar stéttarfélaga dáleiddir af nýfrjálshyggju eins og forseti Alþýðusambandsins og hagdeild hans. Stéttarfélögin hér eru í svo innilegu ástarsambandi við samtök atvinnurekenda, að þau hafa kastað fortíð sinni bak við sig. Mikilvægt er, að pólitísk öfl taki upp gunnfánann, sem verkalýðsfélögin hafa kastað í svaðið.

Í átt til þrælahalds

Punktar

Aukin stéttaskipting í kjölfar nýfrjálshyggju er í fyrsta lagi óréttlát. Í öðru lagi hefur hún slæm áhrif á samfélagið, minnkar límið í því, eykur ósætti og deilur. Heilsa heilla stétta verður lakari en annarra, menntun þeirra lakari og tekjur versnandi. Við hverfum í átt til gamla vistarbandsins, sem var framlenging fyrra þrælahalds. Fólk er hneppt í fjötra skulda og mánaðarlegs yfirdráttar. Bankarnir veifa 90% lánum og klófesta þig síðan í vaxtaokri. Aukin stéttaskipting er fráhvarf frá lýðræði eins og það hefur verið túlkað eftir frönsku byltinguna. Til að auka lýðræði þurfa öll ríki að auka jöfnuð í tekjum og eignum borgaranna.