Allt fyrir okkur

Punktar

„Allt fyrir okkur og ekkert fyrir alla hina“ eru einkennisorð nýfrjálshyggjunnar. Þau hafa bezt verið þýdd af Hannesi Hólmsteini: „Græðgi er góð“. Felur í sér. að hlúa verði að hinum allra ríkustu, svo molar geti fallið af borðum þeirra til fátæklinganna á gólfinu. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er fyrsta hreinræktaða nýfrjálshyggjustjórnin. Einkavinavæðir leynt og ljóst og lætur feitustu bitana renna til Engeyjarættar. Í krafti eins atkvæðis meirihluta á alþingi og þriðjungs atkvæða í skoðanakönnunum. Boðaði það ekki fyrir kosningar og við stjórnarmyndun, en hófst strax handa. Eykur leynd, ógegnsæi og nýyrðasmíði til að leyna illsku sinni.

Bretar einangraðir

Punktar

Bretar urðu ríkir í gamla daga með því að ráðast á aðrar þjóðir, undiroka þær og ræna auðlindum þeirra. Háðu eftir seinni heimsstyrjöldina þrjú þorskastríð við Íslendinga. Skólaðir í yfirgangi. samanber kröfur um aðgang að Evrópusambandinu eftir brottförina þaðan. Í Bruxelles er hlegið. Stóru bankarnir eru byrjaðir að flytja þúsundir starfa frá London til meginlandsins. Ekki er lengur töluð enska á fundum sambandsins. Bretar áttu aldrei að fara í sambandið og hafa ævinlega verið þar til vandræða. Þeir eiga bara að éta það, sem úti frýs, og sleikja upp Trump. Brexit er ágæt afleiðing yfirboða lýðskrumara í flokkapólitíkinni í Bretlandi.

Hin ósýnilega hönd

Punktar

Fimm ára áætlanir Stalíns voru á sínum tíma aðhlátursefni á vesturlöndum, því þær stóðust aldrei. Nú hafa Engeyingar tekið upp þennan stalínisma á Íslandi. Spurðir um línur í töflunum, segja þeir þær svo leyndó, að fjármálaráðherra fái ekki einu sinni að sjá þær. Alveg eins og í Sovétinu. Pólitíkin þar og hér er svo kúlulaga, að farir þú frá vinstri kantinum til vinstri, endar það með því að koma hægra megin að hægri kantinum. Nýfrjálshyggjan er nákvæmlega eins spáhyggja um framtíðina og kommúnisminn var. Tilgátur um ófrávíkjanleg lögmál um sögulegt ferli langt fram í tímann, núna stundum kallaðar Hin Ósýnilega Hönd Hins Frjálsa Markaðar.

Ljótur græðgisleikur

Punktar

Fráleitt er, að Steingrímur Ari Arason nýfrjálshyggjugaur geti notað opinbert fé Sjúkratrygginga Íslands til upphlaups í einkavinavæðingu. Hann borgar Klínikinni tugi milljóna til að senda fólk í liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar, meðan hann og hans menn skera niður liðskiptaaðgerðir á Landspítalanum. Ódýrast fyrir ríkið er að borga meira inn í Landspítalann. Þannig fer einkavinavæðingin fram, sjúkrahús allra landsmanna er fjársvelt til að Engeyingar geti grætt á kostnað ríkisins. Fráleitt er að fara svona með peninga skattborgaranna til að slá keilur í stríði nýfrjálshyggju við helzta sjúkrahús landsins. Það er ljótur leikur öfgamanna.

Vítahringur vesturlanda

Punktar

Auðsöfnun mjög fárra leiðir til samþjöppunar valds. Í Bandaríkjunum eiga stærstu fyrirtækin nánast alla þingmenn. Þeir orða lög á þann hátt, að hinir ríku verða enn ríkari og þeir fátæku enn fátækari. Þetta ferli varð hraðara, þegar tilgátur Hayek og Friedman komust í tízku fyrir fjórum áratugum. Hefur líka dreift sér út frá Bandaríkjunum til annarra ríkja. Fjármálasamtök á borð við Evrópusambandið, Heimsbankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hallast á sveif með nýfrjálshyggjunni og innleiða bandarísk áhrif í Evrópu og víðar. Vítahringur dauðans er um allan heim, þótt komið hafi í ljós, að hann eykur hratt bilið milli ríkra og fátækra.

Draumi lauk 1981

Punktar

Draumaskeið Bandaríkjanna var tími Roosewelt, Eisenhower, Kennedy, Carter og Nixon. Frá valdatíma Reagan hefur nýfrjálshyggja verið við völd í aldarþriðjung. Á þeim tíma hefur lögum og reglum verið breytt í þágu auðfólks. 1% fólksins hefur komizt yfir allan hagvöxt í 36 ár. Hin 99% hafa ekki fengið neitt af hagvextinum. Stéttaskipting er frosin, þú fæðist og deyrð í sömu stétt. Dýrar háskóladeildir nýfrjálshyggjunnar hafa predikað Hayek og Friedman. Sú frjálshyggja hefur stýrt meginstraumi hagfræðinnar. Það er fyrst eftir aldamótin, að til sögunnar kom ný hagfræði sem skýrði hvernig nýfrjálshyggjan væri að brotna upp, mörkuð dauðanum.

Ameríski draumurinn

Punktar

Ameríski draumurinn snerist um, að útlent fólk flutti aura- og eignalaust til Bandaríkjanna, var duglegt, fékk vinnu og maka. Börnin gengu í skóla, lærðu og gerðu eitthvað sniðugt, urðu rík og lifðu hamingjusömu lífi. Ameríski draumurinn er löngu dauður. Þar er nánast ekkert um flutning fólks milli stétta. Fátækir hafa ekki ráð á góðum háskólum, góðum sjúkrahúsum, góðum elliheimilum og hafa ekki ráð á slysum. Fólk heldur sér einum mánuði frá hungri og útilegu með því að vinna fyrir skít og kanil á skyndibitastöðum. Milljónir eru í fangelsi fyrir fíkniefnamál af ýmsu tagi. Bandaríkin þykjast vera lýðræði, en eru brostið ríki.

Ekki minn flokkur

Punktar

Hef ekki trú á Sósíalistaflokki. Nafnið fælir meira frá en það dregur að. Ekki mundi Viðreisn vilja nefna sig Nýfrjálshyggjuflokk. Svona gömlum nöfnum fylgir töluverður sögulegur baggi. Auk þess er öflugur flokkur fyrir á vinstri vængnum með 25% fylgi, Vinstri grænir. Sá er að vísu nokkuð framsóknarlegur sums staðar úti á landi, en er stabíll flokkur á stærð við bófaflokk Sjálfstæðismanna. Hef heldur ekki neina trú á, að títt skipreika maður í bísniss og blaðamennsku sé heppilegur til að leiða flokkinn. Þetta er verra en, að Jakob Bjarnar Grétarsson hygðist stofna kvennalista. Þetta verður eins manns flokkur eins einræðisherra.

Sjálfkeyrðir einkastólar

Punktar

Skil ekki margumrædda borgarlínu. Að hvaða leyti verður hún öðruvísi en strætó? Ekki verða þeir keyrðir áfram um kapla í loftinu. Verða þetta tíðari vagnar? Á að kosta tugmilljarða. Er ekki of mikið í lagt? Og svo á þessi della að fara út um allar trissur. Veit ekki borgarstjórn, að tímamót eru framundan í samgöngum? Þar sem enginn veit núna, hvað verður ofan á. Eins manns og tveggja manna rafbílar. Alls konar millistig milli hjóla, stóla og bíla. Íslendingar eru fyrir löngu búnir að velja sér einkabílinn sem sitt guðshús. Í sjálfkeyrðum farartækjum næstu framtíðar geta ungir og gamlir og aðrir prófleysingjar farið allra sinna ferða.

Hatrið á smælingjum

Punktar

Við búum við velmegun vegna fullrar atvinnu við ferðamannaþjónustu. Margir hafa þar að vísu lág laun, en oft eru það viðbótarlaun í fjölskyldum. En botninn í samfélaginu hefur verið skilinn eftir. Öryrkjar, sjúklingar, aldraðir, ungt fólk í húsnæðisleit og einstæðar mæður. Það er ofsótt af stjórnvöldum. Auglýst góðvild á einum stað er tekin til baka á næsta stað. Engu fjármagni er bætt við. Það er eins og þessi ríkisstjórn og sú næsta á undan hati þá, sem minnst mega sín. Ekki bætir úr skák, að ríkisendurskoðandi laug svindli á fátæka. Síðan þjófkenndi Vigdís Hauksdóttir þá hatrammlega. Allt það reyndist vera skaðleg haugalygi.

Fátækleg umræða

Punktar

Umræðan um pólitík er tiltölulega fátækleg á fésbókinni. Þekktir bloggarar vísa þar í bloggtexta sinn. Í Pírataspjallinu eru fjölbreytt viðhorf, enda eru aðilar þess helmingi fleiri en flokksmenn. Annars staðar eru yfirleitt lokaðar blöðrur, þar sem ein skoðun ræður. Vinsælar fésbókarsíður af því tagi eru Málfrelsið og Stjórnmálaspjallið, báðar andvígar hingaðkomu múslima. Einnig Sósíalistaflokkur Íslands og Frjálshyggjufélagið, sem fjalla um það, sem kemur fram í heitinu. Séu fleiri síður vinsælar, þætti mér gott að frétta af því. Að öðru leyti eru flestir enn í bloggi. Nafnlausir „virkir í athugasemdum“ fjölmiðlanna eru annar kapítuli.

Velmegun dreifist illa

Punktar

Aukin ferðaþjónusta og auknar byggingar leiða ekki til neins launaskriðs að ráði. Spennan hefur verið jöfnuð með aukinni atvinnu-þátttöku fólks. En einkum þó með innflutningi vinnuafls, sem gerir sér lægri væntingar um kaup. Seðlabankinn hefur líka reynt að halda krónugengi niðri til að hindra launaskrið. Launþegar hafa því ekki fengið aukinn hlut af þessari velmegun. Öryrkjar, öldungar, sjúklingar og húsnæðislausir hafa skertan hlut. Auknar útflutningstekjur hafa því ekki gagnast lágstéttafólki, eingöngu atvinnurekendum. Flutningur vinnuafls milli landa hefur í þrjá áratugi nýfrjálshyggju stöðvað aðild fátæks fólks að aukinni velmegun.

Margir treysta bófum

Punktar

Allur þorri þjóðarinnar hefur það sæmilegt eða gott. Verkafólk eins í gamla daga þekkist varla lengur. Útlendingar sinna þeim verkefnum. Þrælkun við færibönd er úr sögunni. Aðeins 5% eru undir fátæktarmörkum og önnur 5% taka of mikið til sín á toppnum. Þar á milli eru 90%, hinar eiginlegu miðstéttir. Þær hafa lítinn áhuga á stéttarfélögum og taka ekki þátt í stéttabaráttu. Því dettur ekki í hug að taka þátt í sósíalistaflokki og varla þjóðrembuflokki. Líklega er ómögulegt að predika þessu fólki byltingu eða hugsun til mjög langs tíma, til dæmis hundrað ár fram í tímann. Það hefur vægan áhuga á góðmálum og hneigist til að treysta bófaflokkum.

Einkavæða í laumi

Punktar

Einkavæðing er óvinsæl hér á landi. Allur þorri spurðra í könnunum er andvígur einkavæðingu í heilsuþjónustu, skólum og vegum. Sjálfstæðisflokkurinn og viðhengi hans lofuðu hvorki né hótuðu einkavæðingu í kosningaloforðum sínum og stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Einkavæðing er samt helzta hjartans mál þessara bófaflokka. Vegna óvinsældanna einkavæða þeir í laumi. Nýjasta dæmið er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Verið er að sameina hann Tækniskólanum, sem varð til, þegar Iðnskólinn var einkavæddur. Þar á undan var ákveðið að einkavæða fleiri skurðaðgerðir með því að taka fé af Landspítalanum og færa það Klínikinni í Ármúla. Allt í laumi.

Evrópa á hrakhólum

Punktar

Stjórnarskráin frá 2004 var samin  fyrir Evrópu af Valéry Giscard d’Estaing. Síðan verið túlkuð af forstjórunum José Manuel Barroso og Jean-Claude Juncker. Allt eru þetta hægri pólitíkusar og bankavinir, hallir undir nýfrjálshyggju. Á tímanum, sem síðan er liðinn, hefur Evrópusambandið hallað sér að slíkri pólitík. Um leið stóð sambandið andspænis verulegum áföllum, hruni Grikklands, úrsögn Bretlands og öfgastefnu í Ungverjalandi og Póllandi. Hefur ekki getað mætt vanda af skynsemi. Ef Emmanuel Macron sigrar í Frakklandi, getur rof orðið á stirðri íhaldssemi sambandsins. Sambandið á líf sitt undir að hverfa frá nýfrjálshyggju.