Ekki sósíalisti

Punktar

Er ekki sósíalisti, þótt ég vilji efla velferð. Lít ekki á átökin í samfélaginu sem vinstri-hægri stríð. Pólitíkin skiptist samt í tvennt. Annars vegar bófarnir, sem efla auðgreifa á kostnað smælingja. Hins vegar heiðarlegir, sem vilja frelsi, jöfnuð og bræðralag. Því vil ég skattleggja sérleyfi til fiskveiða og hátekjur. Þess vegna vil ég hækka útgjöld til heilbrigðismála í 11% eftir forskrift Kára Stefánssonar. Því vil ég jafnsetja öryrkja, öldunga og sjúklinga við annað fólk. Þess vegna vil ég hafa heilsu, skóla ókeypis og vel launaða kennara. Þetta kemur ekki hægri-vinstri við. Heldur er þetta bein afleiðing heilbrigðrar hugsunar.

Launabylting

Punktar

Tíunda ríkasta samfélag heims á ekki að eyða fé sínu til að hlaða upp gullhrúgum skattsvikara á Tortóla. Nota ber féð til gagns, einkum til að hækka lágmarkslaun og laun fyrir að vera til. Lágmarkslaun verða á næsta ári 300.000 krónur fyrir láglaunafólk og 280.000 krónur fyrir óvinnufæra. Er of lágt í gróðaþjóðfélagi. Láglaunafólk, öryrkjar, öldungar og sjúkir eiga að fá 500.000 krónur á mánuði. Og enginn bossi meira en 2.000.000 á mánuði, fjórfalt lágmark. Gerist með réttlátari dreifingu fjármagns, sem til er. Til þess þurfum við byltingu pírataflokksins. Allir aðrir þingflokkar starfa innan þess ramma, sem aldrei veitir neinn jöfnuð.

Einkavinarekstur undir pilsfaldi

Punktar

Mesti glæpur bófa stjórnarflokkanna er að draga ríkisfé inn í einkavinarekstur með því að fjársvelta velferð á borð við Landspítalann. Næstmesti glæpur þessara bófa er að skera niður útgjöld hinna allra ríkustu. Of lág eru auðlindarenta og auðlegðarskattur. Þessi fjármissir er síðan notaður til svelta þjónustu, sem er undirstaða lífs hinna fátækustu. Peningar eru fluttir frá þeim 10%, sem minnst mega sín til hinna 5% sem öllu ráða. Þriðji glæpur bófanna er að gera pilsfald ríkisins að alfa og ómega gróðans. Þannig höfum við ríkisrekinn kapítalisma. Hann er versta hugsanlega fjármálastjórnin. Undir marklausu yfirskini nýfrjálshyggju.

Rofið birtist ekki

Punktar

Þótt rof hafi orðið á pólitísku trausti, sjást þess fá merki í könnunum. Enn ber bófaflokkurinn höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka. Ríkisstjórn hans er að vísu í minnihluta, en ekki í neinni fallhættu. Hún vinnur ósleitilega að hruni velferðar og einkavinavæðingu hennar. Opinská spilling blómstrar sem aldrei fyrr. Bófarnir vita, að þeir komast upp með hana. Þriðjungur þjóðarinnar er sáttur við hana. Bófarnir geta látið sér það nægja. Síðasta hrun var á kostnað fátækra. Það næsta virðist verða það líka. Andstaðan verður að vinna öflugar að heildstæðri og fjárhagslega útreiknaðri stefnu. Sem fjötrar bófana og bjargar velferð fólksins.

Vestfirzkur þjóðgarður

Punktar

Sukkið í fjárglæfrum á kostnað skattgreiðenda er orðið meira en það var í sukki Geirs H. Haarde. Öllu er til tjaldað. Gæludýrinu Thorsil á að halda á floti með peningum úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Annað gæludýr á að fá ókeypis flutning á rafmagni frá fyrirhugaðri einkavirkjun Hvalár á Ströndum. Landsnet á að kosta langa línu frá Hvalá til Geiradals, svo að hægt sé að nýta orkuverið. Á þessum slóðum er miklu nær að stofna þjóðgarð norðan frá Hornströndum og suður fyrir Drangajökul. Þarna ætti að vera óbyggt svæði, komandi kynslóðum til yndis og slökunar. Í það ætti ríkisféð að fara, ekki í tilgangslausar rafmagnslínur.

Kemur víða við sögu

Punktar

Gunnar Smári Egilsson er harðgreindur og áhættusækinn. Hefur langa reynslu af að stofna fjölmiðla og flokka. Reynslan er misjöfn, enda yfir brött fjöll að klífa. Aðskilnaður hans við Fréttatímann leiddi til spennu milli hans og starfsliðs, sem fær ekki greidd laun. Gunnar Smári var aðaleigandi blaðsins og getur ekki falið sig að baki uppsagnar sinnar, sem aðrir könnuðust ekki við. Einnig er djarft að breyta fésbók Noregsflokks hans yfir í fésbók Sósíalistaflokks hans. Það minnir á kennitöluflakk. Efast þó ekki um, að Gunnar Smári verði harðskeyttasti talsmaður sósíalismans eins og hvers þess máls, sem hann kynni að vilja taka sér í fang.

Þöggun í Stokkhólmi

Punktar

Hryðjuverkið á Drottninggatan í Stokkhólmi er höndlað af varfærni að sænskum sið. Nánast allir fjölmiðlar þögðu fyrst um uppruna morðingjans. Nema Aftonbladet og útvarpið, sem sögðu hann frá Úzbekistan. Þýðir væntanlega, að hann sé múslimi. Sænska þöggunarstefnan mun ekki lengi megna að halda leyndu nafni og trú. Er bara svoleiðis. Þöggun yfirvalda og samsæri þeirra með löggu og fjölmiðlum gerir bara illt verra til lengdar. Fólk hættir að trúa máttarstólpum samfélagsins, sem telja sig yfir upplýsingaskyldu hafna. Verður eins og í Þýzkalandi og víðar í Evrópu. Hatur á múslimum eykst. Vanda verður móttöku innflytjenda miklu betur en gert er.

Fornar lögbækur gilda

Punktar

Fornar lögbækur, Grágás, Járnsíða og Jónsbók, nýtast enn til að efna í dóma. Í dómi hæstaréttar vegna slyss í skipulögðum slagsmálum er vitnað í þær góðu bækur, sem enn hafa gildi. Um það veit ekki Ívar Pálsson lagatæknir. Skilaði áliti fyrir Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur ferðaráðherra um, að lög hamli ekki gjaldtöku af umferð um eignarlönd. Þetta mál var útrætt í fornum lögum og birt í Járnsíðu. Á þeim lögum hefur síðan verið byggt. Þar segir, að ferð um eignarlönd sé heimil og bannað sé setja á þær tálmanir. Þetta er fín lausn á aldagömlum vanda og hefur staðizt tímans tönn. En nú eru komnir til valda einkagróða-sjúklingar Mammons.

Gráðugasta ættin

Punktar

Eitt nýjasta dæmið um græðgi Engeyinga er kísilverksmiðjan Thorsil, að hluta til í eigu Einars Sveinssonar, föðurbróður formanns bófaflokksins. Bjarni Benedikts skipar fjóra menn fyrir hönd ríkisins í stjórn fyrirtækisins í Helguvík. Í stjórn sitja þau Gunnar Björnsson, Áslaug Friðriksdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Viðar Helgason fyrir hönd ráðherra. Thorsil fær ýmiss konar fyrirgreiðslu ríkisins. Nú síðast á að fá Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að fórna eignum sjóðfélaga í þetta gæludýr Engeyinga. Endanleg ákvörðun er ekki enn komin. Forsætisráðherra er í þessu máli eins og mörgum öðrum að gæta hagsmuna gráðugustu ættar Íslands.

Frá Bismarck til Merkel

Punktar

Ekkert bendir til sátta milli stétta. Fámenn yfirstétt er orðin svo gráðug, að hún gín stjórnlaust yfir öllum hagvexti. Lengst komið í Bandaríkjunum, þar sem ekki er lengur hægt að lifa af láglaunastörfum. Endar með ósköpum, það er að segja byltingu. Í öllum vestrænum ríkjum eru málhressir utangarðsmenn að skríða upp vinsældalistann. Yfirstéttin reynir að beina ótta fólks að múslimum, en þeir eru ekki hættan. Yfirstéttin sjálf fer undir fallöxina að lokum. Auðhyggjan hefur engan öryggisventil til að dempa sig. Í gamla daga voru Bismarck, Adenauer og Willy Brandt. Nú höfum við þó Angelu Merkel. Kannski sættir hún ágreininginn.

Að missa starf og íbúð

Punktar

Ikea hyggst reisa ódýra íbúðablokk nálægt verzluninni fyrir starfsfólk hennar. Markmiðið er að tryggja sér starfsfólk, þrátt fyrir íbúðaskort á svæðinu. Sýnir að vissu leyti föðurlega umhyggju Ikea, en gerir starfsfólk háðara fyrirtækinu. Hver fer í verkfall hjá fyrirtæki, sem getur sagt þér í senn upp vinnu og íbúð? Við sjáum fyrirtækjahverfi víða erlendis, til dæmis þar sem eru bílaverksmiðjur. Sum verða að auðn, þegar verksmiðjan er flutt annað, til dæmis til Kína. Betri lausn á húsnæðisvanda er frumkvæði að ódýrum leiguíbúðum á almennum markaði, svo að fólk geti almennt fært sig um borgarsvæðið í sama takt og vinnumarkaðurinn.

Trúðar tala í kross

Punktar

Engeyingarnir Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson tala í kross í erlendum fjölmiðlum. Bjarni segir við Bloomberg, að fasttenging krónunnar við evru eða pund sé ekki á döfinni. Benedikt segir við Financial Times, að til skoðunar sé að tengja íslensku krónuna við evru eða pund. Fullyrðingarnar stangast á, enda veit sennilega hvorugur um hvað hann er að tala. Svo segir Benedikt á alþingi, að áfram þurfi að rannsaka hrun bankanna, en Bjarni segir slíkt vera óþarft. Ekki vekur traust, að Engeyingar og ráðherrar tali í kross. Ekki fræðast menn neitt um helztu fjármál ríkis og þjóðar með því að hlusta á trúða tala í kross um gengið.

Strákar eiga bágt

Punktar

Strákar eiga bágt. Sérréttindi þeirra eru rofin. Þeir eru ekki lengur mestir og beztir. Nánast allir kennarar í skólum eru konur, sem leggja áherzlu á kvenlæg gildi, samstarf í stað styrjalda. Strákar fíla sig ekki í skólum, verða tossar. Íþróttafélögin fyllast af duglegum stúlkum, sem taka þátt í námskeiðum. Í Fáki eru 28 stúlkur með hest í unglingahesthúsi og bara 1 strákur. Nútíminn er ekki gerður fyrir stráka. Með jafnstöðu kynjanna hafa opnast tækifæri fyrir stúlkur. Strákar verða meira eða minna óþarfir. Liggja uppi í sófa og spila tölvuleiki. Útivist er nánast óþekkt. Tími Sannra Vesturbæinga og Tígrisklóar löngu liðinn.

Bjarni svarar engu

Punktar

Kári Stefánsson vekur í Fréttablaðinu athygli á, að Bjarna Benediktssyni virðist sama um fjölbreyttar kjaftasögur um sig. Hann heldur sínu striki og svarar engu, þótt hann sé á kafi í spillingu. Líklega eru þetta samantekin ráð almannatengla Bjarna Ben. Væri farið að rannsaka Bjarna, mundi hann líklega enda á Kvíabryggju  eins og fleiri gróðafíklar. Kári kvartar yfir áhugaleysi Bjarna á meðferð mála á borð við Óla þjóf. Lítið er um fordæmingar Bjarna á slíkum hneykslismálum, enda mundi fólk efast um þær. Bjarni glottir og þegir. Stafar af, að almannatenglar segja honum, að 30% fólks séu meðvirk og ónæm fyrir fréttum af gróðafíkn hans.

Bylting á næsta leiti

Punktar

Nýfrjálshyggjan er komin á endastöð. Árin 2007-2017 fengu efstu 10% í sinn hlut allan hagvöxt Bandaríkjanna og neðstu 90% fengu ekkert í sinn hlut. Bretland fylgir fast á eftir. Hástéttin fær allt, miðstéttin heldur ekki jöfnu og undirstéttin tapar. Íslenzkir smælingjar eru líka í stórtapi, en við erum þó styttra á veg komin. Margir eru farnir að spá byltingu í Bandaríkjunum, þegar vélmenni hirða ódýru störfin. Um allan hinn vestræna heim er almenningur farinn að sjá þetta og líta kringum sig. Í örvæntingu kjósa menn Trump, le Pen, Geert Wilders o.s.frv. Um alla Evrópu hlaða málglaðir utangarðsmenn á sig atkvæðum.