Losna við þjóðina

Punktar

Mesta vandamál Íslands er að losna við þjóðina. Senda til dæmis til Sýrlands, þar sem skoða má vanda hennar nánar. Íslendingar hafa frá ómunatíð verið masókistar, sem gátu ekki forðað sér í tæka tíð. Meira eða minna innræktaðir í 1100 ár og alls ekki undir það búnir að fást við lýðræði. Kjósa helzt þá, sem mestum vandræðum valda. Taka upp geggjuð trúarbrögð frá hagfræðiprófessorum Koch-bræðra. Neita sér um allt eftirlit með galinni einkavinavæðingu, einkum einkavinavæðingu banka og heilsu. Trúa á Mammon og Hannes Hólmstein. Kjósa ætíð sjálfstæðismenn, þótt vitað sé, að þeir krækja sér í allt steini léttara.

28 á móti 1

Punktar

Var í hesthúsinu að leysa af. Að hleypa út hestum, moka og raka skít, dreifa spónum í stíu. Þetta er unglingahesthús, þar sem eru 28 stelpur og 1 strákur. Þar var annar karl sömu erinda. Ég sagði við manninn: „Pabbarnir gefa stelpunum hest, svo þær hafi á þessum aldri ekki tíma til að detta í stráka.“ „Nei“, sagði hann. „Þetta er svona í öllum íþróttafélögum. Stelpurnar taka yfir íþróttir, en strákarnir liggja heima í tölvuleikjum. Stelpur nenna, strákar ekki. Snurfusa hestana, hafa þá fína allan veturinn. Kunna að sitja hesta eins og drottningar.“ Já, strákar mínir, þið megið passa ykkur, til viðbótar nenna þær jiu-jitsu.

Ótímabær tvöföldun

Punktar

Samkvæmt samningi ríkis og Spalar á að hætta gjaldtöku af Hvalfjarðargöngum á þessu ári og afhenda göngin ríkinu. Það eykur afkastagetu ganganna að losna við biðina við tollbúðina og lengir þannig líftíma núverandi skipulags. Spölur vill grafa ný 14 milljarða króna göng við hliðina til að auka afköstin og halda áfram gjaldtöku. Meðan þjóðvegakerfið er í skralli er það ekki tímabært. Vegna fleiri ferðamanna þarf mikla vegagerð. Verkefnum þarf að forgangsraða. Einföld göng duga mörg ár enn. Brýnna er að laga hringveginn, setja varanlegt slitlag á rest, stækka einbreiðar brýr og fjölga akreinum nálægt höfuðborgarsvæðinu.

Spennitreyja í prósentu

Punktar

Ekkert segir, að hallarekstur ríkisins megi ekki nema meira en 2,5% af vergri landsframleiðslu. Viðurkennd hagstjórn segir, að hallinn megi vera meiri til að ná krafti í brýnar framkvæmdir. Sú prósentutala er bara trúaratriði úr tilgátum sumra hagspekinga og styðst ekki við neinn veruleika. Ekkert segir heldur, að útgjöld hins opinbera megi aldrei nema meiru en 41,5% af vergri landsframleiðslu næstu fimm ár. Sú prósentutala er líka bara trúatriði sérviturra hagspekinga og styðst ekki við neinn veruleika. Bjarni Benediktsson hefur kynnt þessar tvær prósentutölur, sem stinga mjög í stúf við pilsfaldastefnu hans í atvinnumálum.

Framlágur endurskoðandi

Punktar

Í Danmörku var drykkfelldur maður fenginn til að gera skýrslu. Hann rannsakaði ekki neitt og skáldaði upp tölum. Auðvitað sáu menn, að skýrslan var marklaus. En svo sá hinn íslenzki Ríkisendurskoðandi skýrsluna og varð fjarska hrifinn. Þýddi hana rangt af dönsku yfir á íslenzku og taldi öryrkja svindla á ríkinu um tæpa 4 milljarða á ári. Olli mikilli umræðu á Alþingi. Þar gekk Vigdís Hauks berserksgang í ofsóknum á öryrkja. Þeir væru mesta og dýrasta þjóðarplágan. Nú hefur sannleikurinn komið í ljós. Öryrkjar svindla ekki á ríkinu, heldur er það ríkið, sem svindlar á öryrkjum. Ríkisendurskoðandi var framlágur í Kastljósi.

Kreddan öllu æðri

Punktar

Ríkisstjórnin byrjar á að neita ríkissjóði um tekjur af auðlindarentu, fullar tekjur af 24% vaski, tekjur af auðlegðarskatti og ýmsar smærri tekjur af ríku fólki. Að þessu búnu segir hún, að ekki sé til fé til að bæta ýmsa velferð, einkum í heilbrigðismálum. Samt hefur komið í ljós, að meirihluti fólks styður aukna velferð umfram það frelsi, að ríkir þurfi ekki að háa skatta. En stjórnin hefur tekið trú á lykilorð nýfrjálshyggjunnar að létta beri álögum af ríkum. Þess vegna sé ekki til fé til að bæta velferð í það horf, sem ríkir í Þýzkalandi og á Norðurlöndum. Hún er frosin inni í úreltri kreddu nýfrjálshyggjunnar.

Ofsatrú á skáldaða reglu

Punktar

Sé ekki, að hærri vaskur í ferðaþjónustu sé leið til að útvega fé til varðveizlu ferðamannastaða. Bara er verið að færa vask milli atvinnugreina, hækka hann á ferðaþjónustu og lækka á öðrum atvinnugreinum. Ekkert nýtt fé innheimtist til brýnustu lagfæringa á of miklu álagi á náttúruperlum. Breytingar á vaski leysa engin vandamál við óhóflega fjölgun ferðamanna. Eins og áður hefur komið fram, þarf hærra gistináttagjald og bílastæðagjald og full gjöld á nýja bílaleigubíla og rútur. Það er ekki eftir neinu að bíða. Ofsatrú á skáldaða reglu um bann við meira en 2,5% halla á ríkisreikningi dugar ekki, þegar náttúruspjöll magnast.

Með allt niðrum sig

Punktar

Allar aðgerðir síðustu ríkisstjórnar og þessarar snúast um að færa til kostnað, en ekki auka hann. Þannig fá sumir lyfjanotendur ódýrari lyfjaþjónustu á kostnað annarra lyfjanotenda. Þannig fá sumir gamlingjar og öryrkjar ódýrari þjónustu á kostnað annarra gamlingja og öryrkja. Því getur ríkið ekki tekið undir kröfuna um 11% heilbrigðiskostnað. Það er raunveruleg fjármögnun, en ekki millifærsla. Ríkisstjórnin hafnar henni með innihaldslausu slagorði um, að það sé þjónustan, sem skipti máli, ekki prósentan. Allt bendir til, að þessi ríkisstjórn muni í fyllingu tímans mæta kjósendum aftur með allt niðrum sig í heilbrigðismálum.

Meira af Óla glæp

Punktar

Vilhjálmur Bjarnason sagði á alþingi í gær, að líklega hafi 20 milljarðar sogast úr Kaupþingi í hruninu. Lífeyrissjóðirnir hafi tapað 150 milljörðum króna. Efast um, að málið sé fyrnt, því það hafi verið samfelldur glæpur 2003-2017. Benti líka á, að Fjármálaeftirlitið hafi ekki haft áhuga á ábendingum hans um glæpinn. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill læra af reynslunni, en Bjarni Ben forsætis taldi ekki ástæðu til halda áfram. Athuga þarf hegðun lögmanna Ólafs, sem stunduðu skrípaleik í réttarsal og sögðu sig frá málinu um skeið. Öll hegðun þeirra benti til, að þeir væru að draga málið á langinn, svo það mundi fyrnast.

Talar ekki í gátum

Punktar

Þorgerður Katrín sjávarútvegsráðherra talar ekki í gátum þessa dagana: „Gengið verður ekki fellt“. Einnig: „Það er ekki á dagskrá að lækka veiðigjöldin.“ Og það sem mestu máli skiptir: „Við hljótum öll að sjá, að það gengur ekki lengur að vera með íslenska krónu.“ Erfitt verður fyrir flokk pilsfaldakapítalismans að kyngja þessum þremur málsgreinum. Pólitísk stefna bófaflokksins gengur beinlínis út á að geta hagrætt þessum þremur atriðum í þágu fjárhaldsmanna sinna. Og gegn hagsmunum almennings. Þorgerður Katrín virðist ekki eins tilkippileg og Benedikt Jóhannesson, Óttar Proppé og Björt Ólafsdóttir að steingleyma loforðum sínum.

Ólafur helgi

Punktar

Nýju upplýsingarnar um fjármálamanninn Ólaf Ólafsson eru fyrndar, nema litið sé á gerðir hans sem landráð. Það er raunar það eina sem eftir er að kanna í máli hans áður en því verður lokað og gleymt. Að vísu þarf að skilgreina í tölum, hversu miklu Ólafur stal af hverjum í bankasölu-málinu. Hvernig hann gat orðið slíkur bossi, að fá að lokum mynd af sér með borgarstjóra yfir skipulagi við Ánanaust. Einhvers staðar eru þar slummur á ferð um fangelsi og betrunarhús landsins. Og er búið að finna Finn? Hvenær kemur næsta Jesúsargrein eiginkonu snillingsins? Eru bankarnir ekki alveg eins eftirlitslausir núna og árið 2002?

Rústir Ragnheiðar

Punktar

Ragnheiður Elín Árnadóttir var lélegasti ráðherra sögunnar. Kom engu í verk. Sem ferðamálaráðherra tönnlaðist hún á náttúrupassa, þótt allir aðilar vildu aðra fjármögnun ferðamála. Á endanum bjó hún til nýtt apparat, Stjórnstöð ferðamála, sem rakst á við Ferðamálastofu. Hin litla og lélega stjórnsýsla varð hálfu umfangsmeiri, þegar tvær stofnanir áttu að vinna sama verk. Rákust sífellt á. Ríkiendurskoðun kvartaði ítrekað yfir þessum fáránlegu vinnubrögðum Ragnheiðar. Ríkisendurskoðandi segir: „Hún er sett á laggirnar fyrir utan allt laga- og regluverk um ferðamál. Það er ekki sérlega góð stjórnsýsla.“

Einn fannst réttlátur

Punktar

Þótt sjaldgæft sé, eru til  þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa samvizku. Ásmundur Friðriksson þingmaður baðst á þingi í gær afsökunar á stuðningi sínum við United Silicon í Helguvík. Skammaði fyrirtækið harðlega fyrir svikin loforð. Sagði fyrirtækið hafa fengið hundruð milljóna frá skattgreiðendum til að byggja upp rekstur. Greiði starfsmönnum laun undir tekjuviðmiðum í landinu. Hafi lítil tök á mengun frá rekstrinum í Helguvík. Arsenmengun sé tuttugufalt yfir leyfðum mörkum. Sé í alls konar málarekstri við stéttarfélög, fyrirtæki og bæjarfélagið. United Silicon vinnur hvorki með samfélaginu né fyrir það, sagði Ásmundur.

Veruleiki Skagamanna

Punktar

Raunar ætti að vera í lagi, að Skagamenn missi atvinnu sína. Þeir hafa hingað til verið meðal tryggustu sauða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Hafa kosið flokka, sem halda uppi kvótagreifum sjávarplássa. Greifum, sem hafa yfirgefið heil pláss í rústum. Sem hafa haldið út í heim með gróðann af sölu kvótans til Reykjavíkur. Nú sitja þessir flokkasauðir niðurlútir og atvinnulausir og reyna að sníkja sér vinnu hjá mengunarskrímslum Hvalfjarðar. Það þarf ekki að vera tekið út með sældinni að eiga allt sitt undir siðblindum kvótagreifum. Kominn er tími til, að fólkið í sjávarplássum landsins sjái veruleika elsku bófaflokkanna sinna.

Losum Granda við kvótann

Punktar

Lendi kvótagreifar í vinnudeilum er svar þeirra fólgið í brottrekstri. Í skjóli einkaaðgangs að auðlind allrar þjóðarinnar geta þeir sagt upp heilum plássum. Þannig seldi einn greifinn Flateyri undan íbúunum og keypti fyrir það blokk í Berlín. Nú er Grandi að leggja niður vinnslu á botnfiski á Akranesi og reka 100 manns úr vinnu. Ef hér á landi væri eitthvert réttlæti, mundi einkaréttur Granda á kvóta vera tekinn af fyrirtækinu og seldur öðrum, sem vilja landa á Akranesi. Þessi dæmi sýna öll, að kvótann beri að leigja þeim, sem hæst býður, en ekki tengja tilteknum bófaflokkum. Ekki láta siðblinda bófa hafa neinn veiðikvóta.