Hávaði í hænsnabúinu

Punktar

Lítið hefur enn gerzt í forsetatíð Trumps. Ekki er enn hægt að sjá, hvernig mun ganga að flétta saman skoðanir hans og stefnu repúblikana á þingi. Robert Draper skrifar ítarlega fréttaskýringu um þetta í NEW YORK TIMES. Þingmenn repúblikana hafa þegar upplýst, að þeir muni ekki styðja Trump í að afnema velferðarkerfið Obamacare. Margir hörðustu Trumpistar, atvinnulitlir karlar í landsbyggðarþorpum miðvesturríkjanna, eru á framfæri Obamacare, en virðast ekki fatta það. Margt er skrítið í landi, þar sem fávísir kjósa rugludall sem forseta. Þingmenn flokksins eru margir dauðhræddir við skoðanir Trumps. Skelfingin er hávær í hænsnabúinu.

Kverktaka-skrímslin

Punktar

Meirihlutinn í Reykjavík hefur sætt réttmætum ákúrum fyrir einstrengings óbeit á einkabílum. Skynsamlegra væri að fara varlegar meðan við vitum ekki, hvers konar farartæki fólk velur sér eftir fimm ár. Er samt minna mál en eindreginn skortur á tilfinningu fyrir listrænum kröfum við þéttingu gamalla hverfa. Skortur á list hefur einkennt hægri og vinstri stjórn á borginni frá síðari heimsstyrjöld. Við sjáum þetta vel á ljósmyndum úr miðbænum fyrir og eftir þann tíma. Áður voru hús tvær mjóar hæðir með bröttu risi. Svo kom Moggaklumpur og Nýja-bíós klumpur eins og utan úr geimnum. Hjá Degi B. Eggertssyni er lárétta línan með flata þakinu að gera miðbæinn að kverktaka-skrímsli.

Glæpur kjósenda

Punktar

Þegar Sjálfstæðis er búinn að soga merginn úr beinum Viðreisnar og Bjartri framtíð verður hann með 39% fylgi. Ég reikna þá með, að Björt framtíð skili 3,8% og Viðreisn 3,1%. Þetta er alveg rosalegt fylgi bófaflokks með fjárglæframann, skjalahýsil og raðlygara að formanni. Meðan kjósendur flokksins líta á Bjarna Ben sem formann fótboltafélags verður aukningu þjóðarauðs laumað í skattaskjól og ríkið lamað til allra góðra verka. Við náum engri norrænni velferð fyrr en kjósendur Sjálfstæðis átta sig á ábyrgð sinni, glæp sínum. Á meðan verður fólk að taka þátt í þéttri röð mótmælaaðgerða, sem skjóta bófunum skelk í bringu.

Lausn húsnæðisvandans

Punktar

Bent hefur verið á, að ríkið geti fengið erlent lán með 1% vöxtum. Þannig má fjármagna smáíbúðavæðingu höfuðborgarsvæðisins. Ríki og borg geta byggt 2 þúsund litlar leiguíbúðir á ári til að þjónusta yngstu kynskóð leigjenda. Leigan getur verið lægri en helmingur af núverandi leigu. Íbúðabankinn getur samt haft gróða, hóflegan þó. Hann getur líka selt fólki íbúðirnar á skikkanlegu verði. Einhvern veginn verður að brjóta niður okrið á íbúðamarkaði og þessi leið er ein af þeim, sem koma til greina. Hún leysir fljótt húsnæðisvandann og býr til markaðsverð á íbúðum í stað núverandi okurs. Hví er ekki flutt þingmannafrumvarp um þetta?

Ráðherrann ræður engu

Punktar

Samkvæmt tilkynningu forstjóra Klínikurinnar hefur heilbrigðisráðherra ekkert með liðskiptaaðgerðir fyrirtækisins að gera. Hjálmar Þorsteinsson segir þær þegar vera í gangi með samþykki embættismanna. Samkvæmt því er Óttar Proppé heilbrigðisráðherra ekki marktækur. Mér kemur það ekki á óvart. Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, er yfirráðherra. Hefur á kostnað Landspítalans stráð peningum yfir einkavinavæðingu heilbrigðismála. Hann er skúrkurinn, sem ríkið þarf að losna við. Hjálmar segir enga beiðni liggja hjá Óttari um leyfi til þessara aðgerða. Þær séu þegar leyfilegar og hafðu það, Óttar Proppé.

Samfylkingar-hrunið

Punktar

Árni Páll Árnason telur á fésbókinni, að hrun Samfylkingarinnar stafi af hvarfi frá Blair-isma. Árni Páll telur enn, að bezt sé, að hinir ríku verði enn ríkari, svo að meira sáldrist af borðum þeirra til smælingjanna. Trúir enn á bandaríska drauminn, þótt sá hafi orðið sjálfdauður á fyrsta áratug aldarinnar. Raunar hafa hvorki Samfylkingin né Vinstri græn sýnt marktækan áhuga á örlögum fátækra. Það eru sumir aldraðir og öryrkjar, sjúklingar, einstæðar mæður og húsnæðislausir. Mikael Torfason, Gunnar Smári og Vilhjálmur Birgisson eru hver fyrir sig betri málsvari smælingja en Samfylkingin og Vinstri græn eru samtals.

Stela auði

Punktar

Allur auður hér er stolinn, gamall og nýr. Einkum stolinn í skjóli pilsfalds bófaflokks Sjálfstæðismanna og fylgiflokka hans. Auðræði í nafni lýðræðis hefur einkum gengið of langt á þessari öld hruns og ríkisrekins gjaldeyrisgróða og skattaskjóla. Allir Íslendingar hefðu það gott, ef völdin hefðu ekki safnazt hjá Engeyingum. Kominn er tími til, að þriðjungur þjóðarinnar opni augun. Þeir, sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Bjarta framtíð gegn þjóðarhagsmunum. Þetta eru allt bófar. Þar á ofan eru ýmsir vinir kvótagreifa hjá Framsókn og Vinstri grænum. Hingað til hafa kjósendafífl gert lýðræði marklaust á Íslandi.

Feigðin blasir við

Punktar

Tveir flokkar í þriggja flokka ríkisstjórn eru komnir með svo lítið fylgi, að það mælist varla. Viðreisn og Björt framtíð næðu ekki inn neinum manni, ef kosið  yrði núna. Slatti af fylgi þeirra er kominn alla leið inn í Sjálfstæðisflokkinn, enda betra að búa á höfuðbólinu en í verbúðum þess. Ríkisstjórnin er auðvitað kolfallin og ætti að skila lyklunum að stjórnarráðinu. Vinstri græn, Píratar og Samfylkingin eru komin með meirihluta í samfélaginu, en Sjálfstæðis og Framsókn í minnihluta. Allt getur þetta breytzt á löngum tíma, en annað eins hrun höfum við aldrei séð áður á neinni ríkisstjórn á örfáum mánuðum. Feigðin blasir við.

Ótíðindi sögumanna

Punktar

Brynjar Níelsson þingmaður telur kaupin á hlutabréfum í Arion banka ekki vera vanda. Hins vegar sé vandi, að kaupin séu gagnrýnd á þingi og í fréttaskýringum. Nýjasta dæmið um, að menn vilja kenna sögumanni um ótíðindin. Þau felast í, að sagt er, að stíga þurfi varlega til jarðar, þegar um Goldman-Sachs og Och-Ziff er að ræða. Fjölþjóðlegu greiningarfyrirtækin settu Och-Ziff strax í ruslflokk. Hefur líka verið staðið að stórfelldum mútum til pólitíkusa í Afríku. Goldman-Sachs er árvisst í tugmilljarða sektum fyrir mútur og vafasöm viðskipti. Þessi tvö ágætu fyrirtæki eru kjörin til samstarfs við íslenzku bófana í ríkisstjórn.

Verðið: Þeim fjölgar samt

Punktar

Erlendir ferðamenn líta á verðlagið hér sem náttúrulögmál og koma samt. Mundu koma, þótt evran færi niður í hundraðkall. Þeir skrifa vel um Ísland á vefi fyrir ferðaneytendur, svo sem TripAdvisor. Bezt fjalla þeir um láglaunafólkið í ferðaþjónustu, á veitingahúsum, hótelum, í fararstjórn, bílstjóra. Kvarta lítið sem ekkert yfir háum prísum. Hækka þarf lág laun í ferðaþjónustu og refsa fyrir ráðningu starfsfólks á skítakjörum. Raunar þarf að hækka íslenzk lágmarkslaun almennt í 500 þúsund á mánuði. Ferðaþjónusta á að vera atvinnugrein með reisn, ekki félagsmálastofnun ferðagreifanna. Gengi krónunnar á að hækka, ekki lækka.

Bylting á þessu ári

Punktar

Blóðugar byltingar mistakast. Stundum er samt nóg að sýna styrk fjöldans til að misheppnaðir valdamenn á borð við Geir H. Haarde gefist upp. Slíkir atburðir nægja samt ekki, fjari byltingargleðin út, sem hún gerði árið 2013. Ein óvinsæl ríkisstjórn tók við af annarri. Nú er enn önnur við völd með þriðjungs fylgi. Byltingar takast ekki nema með þolinmæði byltingarfólks. Einmitt þolinmæði, sem Íslendinga skortir. Allt þarf að gerast hér og nú. Áhugi á nýrri stjórnarskrá fjaraði út. Ríkisstjórnin hóf að ofsækja ungt fólk án húsnæðis, gamalt fólk, öryrkja, sjúklinga og einstæðar mæður. Hefur fólk kjark og úthald til byltingar árið 2017 ? Forsendur eru nægar.

Einbeitt hatur

Punktar

Skil ekki hatur ríkisstjórnarinnar á þeim, sem minnst mega sín. Verra en hatur síðustu ríkisstjórnar. Þessi notar hvert tækifæri til að skera niður fé til öryrkja. Næstmest er hatrið á gamlingjum. Sé fólk í senn öryrkjar og gamlingjar, gengur ríkisstjórnin berserksgang til að gera fólkinu lífið óbærilegt. Alls konar atriði falla niður úr nýjum lögum, einkum heilbrigðismálum. Mistök er það sagt vera, en ekkert er leiðrétt. Óhugnanlegt og svívirðilegt. Þetta fólk er þó svo fátt, að lítið mál er að leiðrétta hlut þess. Ríkisstjórnin vill líka gera ungu fólki ókleift að koma yfir sig þaki. Önnur sorgarsaga um magnaðan illvilja.

Víðfrægir glæpabankar

Punktar

Arftakar mafíunnar eru að kaupa stóran hlut í Arion-banka. Goldman-Sachs og Och-Ziff eru illræmdir fjárglæfrabankar. Goldman-Sachs hefur ítrekað verið sektað um hundruð milljarða króna fyrir glæpi í viðskiptum í Bandaríkjunum. Sérgrein þess er að kaupa sér stuðning pólitíkusa. Och-Ziff er sérfræðifyrirtæki í mútum til pólitíkusa í þriðja heiminum. Mjög er við hæfi, að þessi víðfrægu fyrirtæki kaupi arftaka hins hugljúfa Kaupþing banka og fari að múta pólitíkusum í þessu spillta landi, Íslandi. Bezt er við hæfi, að arftakar mafíunnar í fjárglæfrum taki upp samstarf við ríkisstjórn Engeyinga, mesta skítahaug Íslandssögunnar.

Illvilji íhaldsins

Punktar

Helztu skrafsskjóður stjórnarflokkanna reyna að verja ríkisstjórnina gegn svipu Mikaels Torfasonar rithöfundar. Hann segir, að við eigum að skammast okkar fyrir meðferðina á fátækum. Pawel Bartoszek er á gamalkunnu íhalds Moskvubakka-plani. Samkvæmt honum er ástandið verra í Kína en hér og því sé það í lagi hér. Nichole Leigh Mosty skrifar torskilinn texta um, að vandinn felist í skorti á samstarfi í nefndum ríkis og bæja. Hver, sem meining hennar er, þá er hún röng. Vandamál fátækra á Íslandi er, að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við óumdeildar skyldur sínar. Pawel og Nichole eru dæmi um andlega fátækt og ofsa í illvilja íhaldsins.

Vilji er allt sem þarf

Punktar

Ótrúlegt er, að Vladimir Putin skuli vera talinn valdamesti maður jarðarinnar. Hann er einræðisherra ríkis, sem hefur efnahag á stærð við Ítalíu. Verðmæti hergagna hans er bara brot af verðmæti hergagna Bandaríkjanna. En svona er það, efnisleg verðmæti segja ekki allt um völd. Á sama hátt var Serbía sterkasta ríki Balkanskaga á tímabili Balkanstríðanna. Sama gildir um Rússland og Serbíu: Þau búa yfir þjóðrembdum styrk til að koma vilja sínum fram við nágrannaríkin. Vilji er allt sem þarf, segir spakmælið. Donald Trump er minnihlutamaður, sem hefur breytt Bandaríkjunum á mánuði. Mun fámennum Engeyingum takast það sama hér?