198 tegundir byltinga

Punktar

Óvinsæl ríkisstjórn stelur fé frá þjóðinni handa pilsfaldaliði sínu. Þá tekst blóðug bylting yfirleitt ekki og samningaviðræður takast yfirleitt ekki. En til eru 198 aðrar ágætar aðferðir til að bylta ríkisstjórn. Aðalskilyrðið er, að skoðanakannanir sýni óvinsældir hennar. Gene Sharp hefur rakið þessar aðferðir í bókinni „From Dictatorship to Democracy“, sem sagt er frá í samnefndri kvikmynd. Sumar þessar aðferðir voru notaðar til að koma frá ríkisstjórn Geirs G. Haarde. En flestar hafa samt ekki verið prófaðar. Allar friðsamlegar, fela í sér alls konar verkföll og mótmæli. Ég held, að þessi ríkisstjórn sé að kalla á byltingu.

Gene Sharp

Lati Simmi

Punktar

Sigmundur Davíð sinnir illa skyldum sínum sem alþingismaður. Hefur verstu stöðu kladdans, mætir kannski einu sinni í mánuði. Þætti vont í skóla. Samt hefur hann enn stuðningsmenn, sem vilja fá aftur sinn Trumpista. Misheppnaðir formenn hafa oftast orðið sendiherrar, samanber Geir H. Haarde. Engra slíkra þreifinga hefur orðið vart hjá Sigmundi. Flest bendir til, að hann hugsi sér til eins konar endurkomu Napóleons, þegar færi gefst. Sigurður Ingi gæti orðið þreyttur á formennsku Framsóknar með Sigmund Davíð á bakinu. Bezt væri auðvitað að losna við SDG úr flokknum og koma honum í útlandið. En þar vill enginn hafa karlinn.

Bækur um byltingu

Punktar

Eftir nokkur ár hefjast byltingar gegn gerræði auðmagnsins. Vilji fólk eða leshópar taka þátt í slíku, er gott að vera vel lesinn. Hér eru nokkur rit á ensku, sem fjalla samanlagt á fjölbreyttan hátt um ýmsar hliðar byltingar. Þær fást allar á Amazon. Síðasta bókin telur upp 198 mismunandi aðferðir:

The Prince; Niccolò Machiavelli
The Roman revolution; Ronald Syme
Explosion in a Cathedral; Alejo Carpentier
Episodes of the Cuban Revolutionary War; Che Guevara
Political Order in Changing Societies; Samuel P. Huntington
The Natural History of Revolution; Lyford Paterson Edwards
Crown Duel; Sherwood Smith
History’s Locomotives; Martin Malia
The Anatomy of Revolution; Crane Brinton
The French revolution; Thomas Carlyle
The Kingdom of this World; Alejo Carpentier
The Ideological Origins of the American Revolution; Bernard Bailyn
The Sleeper Awakes; H. G. Wells
Outpassage; Janet Morris, Chris Morris
Reason and Revolution, Herbert Marcuse
The State and Revolution; Vladimir Lenin
The Machiavellian Moment; J.G.A. Pocock
A Vindication of the Rights of Men; Mary Wollstonecraft
States and Social Revolutions; Theda Skocpol
Ten Days that Shook the World; John Reed
The Structure of Scientific Revolution; Thomas Samuel Kuhn
The Rebel; Albert Camus
From Dictatorship to Democracy, Gene Sharp (líka kvikmynd)

Áróðursstríð ferðagreifa

Punktar

Vegna áróðursstríðs ferðagreifa fyrir lækkuðu gengi krónunnar hef ég eytt dögum í að lesa umsagnir erlends ferðafólks. Í stuttu máli sagt er nánast ekki kvartað yfir of háu og hækkandi verði á Íslandsferðum. Í almennu spjalli TripAdvisor fann ég ekkert dæmi um slíkt og í dómum þar um gistingu og veitingar fann ég sáralítið. Fólk hefur miklu meiri áhyggjur af, að fá ekki gistingu. Greinar í fjölmiðlum um afbókanir eru ómarktækt áróðursstríð hagsmunaaðila. Þau viðbrögð koma ekki frá ferðafólkinu sjálfu. Ef þið sjáið fleiri lygar um, að hátt gengi krónu sé að slátra gullhænum, skuluð þið frekar lesa orð ferðafólksins sjálfs.

Gullgæsin kyrkist ekki

Punktar

Krónan heldur sínu og lækkar ekki í verðgildi, þótt Már Seðlabankastjóri hafi reynt að lækka gengið. Kvótagreifar og ferðagreifar gráta, en almenningur missir af þeirri launalækkun, sem ríkisstjórnin vildi fá. Grátur kvótagreifa er þekktur og sagnfræðilega marklaus. Grátur ferðagreifa er líka marklaus. Ef þið flettið umsögnum ferðalanga um gistingu og mat í TripAdvisor, sjáið þið, að lítið er kvartað um verðlag hér. Þá sjaldan er bætt við jákvæðum texta á borð við „en allt er dýrt á Íslandi“ eða „en það er þess virði“. Þótt evran haldi áfram að síga niður fyrir 100 krónur, þarf ekki að hafa áhyggjur. Gullgæsin kyrkist ekki.

Svört framtíð Bjartrar

Punktar

„Við í Bjartri framtíð viljum umfram allt vernda miðhálendið og hafa þjóðgarð þar,“ sagði Björt Ólafsdóttir rétt fyrir kosningar. Nú er Björt orðin ráðherra og leggur til að reisa orkuver við Skrokköldu á miðju hálendinu. Aldrei hefur verið neitt að marka Björtu. Eins og aðrir í Bjartri framtíð segir hún það, sem hentar hverju sinni. Mikið rask mun verða við Skrokköldu, byggingar, skurðir og lón. Björt framtíð lagði í kosningabaráttunni mikla áherzlu á andstöðu sína við þessa tillögu. Minnir á Óttar Proppé, sem orðinn er heilbrigðisráðherra og gerir allt öfugt við það, sem hann lofaði. Þetta er alveg siðlaust lið, svört framtíð.

Hæstiréttur tapar enn

Punktar

Enn verður Hæstiréttur sér til skammar í óbeit sinni á frjálsri fjölmiðlun. Enn hefur Mannréttindadómstóll Evrópu snúið við forneskju Hæstaréttar í dómum gegn fréttaflutningi. Dómstóllinn segir Hæstarétt hafa brotið gegn tjáningarfrelsi Steingríms Sævars Ólafssonar, þáverandi ritstjóra vefsins Pressunnar. Umfjöllun Pressunnar um Ægi Geirdal hafi verið vönduð. Áður hafði Erla Hlynsdóttir í þrígang lagt Hæstarétt fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu út af fréttaflutningi hennar. Nú er fyllilega kominn tími til, að Hæstiréttur láti af óbeit sinni á fréttum og fréttafólki. Hann hætti að láta hlæja að sér úti um alla Evrópu.

Wilders var stöðvaður

Punktar

Þótt Geert Wilders hafi unnið á í þingkosningum Hollands, er aukningin mun minni en búizt var við. Andúðin á múslimum hefur dvínað og Wilders hefur innan við 15% atkvæða. Íhaldsflokkur forsætisráðherrans Mark Rutte tapaði fylgi, en er samt langstærsti þingflokkurinn. Snarpar deilur Rutte og Erdoğan Tyrkjasoldáns hafa aukið fylgi Rutte síðustu vikuna. Sú virðist vera staðan víðast í Vestur-Evrópu um þessar mundir. Múslimahatarar treysta stöðuna í pólitíska mynztrinu, en ná ekki fylgi til að komast til beinna áhrifa. Le Pen til dæmis getur fengið flest atkvæði í fyrstu umferð í Frakklandi, en tapar svo í seinni umferð forsetakosninganna.

Róið samfélagið

Punktar

Stjórnarflokkarnir vilja ekki nota hærri auðlindarentu og lægri niðurgreiðslur ríkisskulda til að róa samfélagið. Sumir finna sárt fyrir því að hafa verið skildir eftir í góðærinu. Það er unga fólkið, sem nær ekki að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er sumt gamla fólkið, sem hefur verið svikið um aðild að góðærinu. Það eru þeir, sem samkvæmt orðbragði ráðherra hafa valið sér að verða veikir eða verða örkumla af slysförum. Þeir eru taldir alvarlegri svindlarar en einkavinir ríkistjórnarinnar. Auðvitað á að nota auðlindarentu og ferðatekjur til að jafna til í þjóðfélaginu og róa samfélagið, sem fanatískir ráðherrar reyna að kljúfa.

Loksins lífræn vottun

Punktar

Verið er að taka upp lífræna vottun í landbúnaði. Þar með lýkur langvinnu stríði bændasamtakanna gegn fjölþjóðlegri vottun. Um tíma var farið framhjá lífrænni vottun með því að taka upp séríslenzka umhverfisvottun. Ekkert mark var tekið á henni erlendis. Hin nýja vottun kemur frá Evrópusambandinu eins og flest annað, sem er til bóta. Framtakssamir bændur geta hugsað sér að reyna að selja afurðir sínar erlendis. Auðvitað þarf fyrst að fara eftir reglum um grindargólf og rými húsdýra, útivist og lífrænt fóður, og svo framvegis. Þeir, sem uppfylla kröfur um lífræna ræktun, geta þá fengið vöruna stimplaða með merki, sem eykur sölu og hækkar verð.

Engin gengislækkun

Punktar

Engeyingum og Má tókst ekki að fella krónuna um helgina. Gengið raskaðist lítið og er núna það sama og það var fyrir mánuði. Kvótagreifar misstu af sælustund ríkisstjórnarinnar og geta ekki lækkað kaup sjómanna. Ekki einu sinni Gamma græðir á kukli Engeyinga. Hún er búin að setja upp nokkur útibú í Evrópu til að verða fyrst til að grípa gæs gengislækkunar. Svo kom bara engin lækkun, engin gæs. Nú eru góð ráð dýr. Framundan er frekara ris krónunnar vegna 70% aukningar ferðafólks. Grátandi kvótagreifar fara að hágráta. Það er alveg makalaust, hvað greifar geta grátið sárt, ef ekki fer allt að óskum og ekki er hægt að lækka laun.

Illugi endurreistur

Punktar

Illugi Gunnarsson hefur verið ráðinn til að gera tillögur um framtíðarskipan á stjórn peningamála, hvorki meira né minna. Þið munið hann Illuga. Var á framfæri góðviljaðs verktaka og gat launað greiðann, þegar hann varð menntamálaráðherra. Upp úr því hrökklaðist hann úr embætti, hvarf af sjónarsviðinu og gleymdist. Þá sagði flokksbróðir hans, Páll Magnússon, að verk Illuga hafi verið „kristaltær pólitísk spilling“. Nú er hann ráðinn til að hafa umsjón með Seðlabankanum og peningaveltu hans. Smám saman verður liðið kringum ríkisstjórn Engeyinga hlaðið gaurum, sem eru á sama siðferðisplani og Bjarni Ben og Benedikt Jóhannsson.

Seðlabankakukl

Punktar

Seðlabankinn er miður gáfulega rekinn. Hefur ítrekað keypt gjaldeyri í vonlausu stríði gegn hækkun krónunnar. Seðlabankar geta keypt gjaldeyri til að hamla gegn árstíðabundnum sveiflum. Það kostar hins vegar mikið, svo sem í vaxtatapi. Því gjaldeyrir er vaxtalaus og jafnvel með neikvæða vexti. Nú er krónan á löngu ferðalagi upp í evru á innan við 100 krónur, jafnvel 70 krónur eins og í den. Nú dugar því ekkert kukl í Seðlabankanum. Láta ber krónuna fljóta eðlilega. Í kukli fær pilsfaldafólk fyrirfram vitneskju, eins og Sambandið í gamla daga. Þess vegna er Gamma komin með útibú út um Evrópu til að græða á tapi Seðlabankans. Og okkar allra.

Erdoğan ögrar Evrópu

Punktar

Recep Tayyip Erdoğan, einræðisherra Tyrklands, reynir að æsa landflótta múslima í Evrópu. Notar komandi kosningar um aukið einræði í Tyrklandi til að senda ráðherra sína á útifundi múslima í Evrópu. Þeir hafa kosningarétt í Tyrklandi. Þessu hefur verið fálega tekið. Þýzk lönd hafa mörg hver bannað þessa fundi, svo og Austurríki og Sviss. Holland hefur meira að segja flutt tyrkneskan ráðherra burt með lögregluvaldi. Erdoğan sakar þessi ríki um nazisma. Ástæða bannsins er ótti hollenzkra stjórnvalda við uppþot, sem muni auka fylgi flokks Geert Wilders múslimahatara. Slagorð hans er núna: Múslimar, farið heim til Erdoğans ykkar.

Fréttafundur Engeyinga

Punktar

Fundur Engeyjarættarinnar í dag boðaði ýmsar aðgerðir, sem ráðherrar segja draga úr gengishækkun krónunnar. Mikilvægasta aðgerðin er að bæta stöðu kvótagreifa, sem hafa grátið mikið að undanförnu. Græða færri milljarða á ári en þeir höfðu vænzt. Þá hefur ríkisstjórn Engeyinga ákveðið að gera svikurum í skattaskjóli á aflandseyjum tilboð, sem þeir geta ekki hafnað. Þeir fá sérstök verðlaun fyrir að skipta út myntinni í stað þess að fá sektir fyrir skattsvik. Sumt er ágætt í breytingum Engeyinga, en flestar eru auðvitað sniðnar að hagsmunum ættarinnar. En Engeyingar segjast reikna með að molar falli af borðum sínum til aumingjanna.