Ísland er óljúft

Punktar

Útgjöld ríkisins í ellilífeyri eru hér bara 2% af landsframleiðslu. Eru frá 5,3% í Hollandi upp í 8% í Danmörku. Samanlögð útgjöld vegna lífeyris, frá ríkinu og lífeyrissjóðum, eru hér á landi 5,3%. En um 10% í öllum samanburðarlöndunum; Hollandi, Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. Wilhelm Wessman hótelstjóri bendir á þetta á fésbók sinni. Þetta eru sláandi upplýsingar, til dæmis fyrir þá, sem trúa línuritum nýfrjálshyggjunnar. Fara saman við hliðstæðar upplýsingar um of lítinn þátt ríkisins í heilsukostnaði. Saman við algert getuleysi ríkisstjórnar nýfrjálshyggju í húsnæðismálum unga fólksins. Ísland er ekki ljúfur staður.

Snúum við einkavinavæðingu

Punktar

Engin ástæða er til að einkavinavæða ríkishlutafélög eða breyta ríkisstofnunum í ríkishlutafélög. Í nánast öllum tilvikum hefur það leitt til lakari þjónustu, til dæmis hjá Isavia og Strætó. Þjónusta hefur yfirleitt verið skert í báðum tilvikum. Nú eru uppi kröfur um einkavinavæðingu Isavia. Tilgangurinn er að auka tekjur forstjóragengis og framleiða arð undir pilsfaldinum. Þið munið væntanlega eftir ótal fréttum af yfirgangi forstjóra Isavia og Strætó á síðustu árum. Brýnt er, að innviðir samfélagsins séu í opinberum rekstri: Flugvellir og vegir, orkuöflun og orkudreifing, heilsa og velferð. Íslenzka ríkið, það erum við.

Kúgaði sjónvarpskarlinn

Punktar

Skoðanafasismi gengur svo langt á Íslandi, að fólk krefst þess hópum saman að gagnrýnendur verði reknir úr vinnunni. Jafnvel sjónvarpsfólk heimtar, að Hildur Lilliendahl verði rekin úr vinnunni hjá Reykjavíkurborg fyrir hraustleg ummæli um vanda kvenna. Ætti sjónvarpsfólk þó að vita, að þetta er fasistakrafa. Í ríki lýðræðis á fólk að hafa leyfi til hraustlegra skoðana, án þess að þurfa að sæta atvinnuofsóknum. Hildur sagði, að sér væri: „skapi næst að kveikja í hárinu á mér fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhommann með alla sjónvarpsþættina.“ Ég sé ekki betur en að þessi orð hæfi mjög vel vandanum, sem hún talar um.

Hér er engin sátt

Punktar

Einstaklega heimska og drukkna menn þarf til að halda, að Salek samkomulag henti íslenzkri alþýðu. Salek dugir bara fyrir samfélög, sem eru í sómasamlegri innri sátt um, hver velferð og launamunur skuli vera. Salek hentar Svíum og heldur ró á þeirra vinnumarkaði. Hér er engin sænsk velferð. Hér borgar fólk extra fyrir að verða veikt, slasast eða verða gamalt. Hér er engin sátt um, hver velferðin skuli vera, enda er hún miklu lakari en í Svíþjóð. Fyrst þarf að koma hér sænsk velferð með 10-11% hlutfalli heilsu af þjóðarbúinu. Og fyrst þarf að koma höndum yfir árlegt tugmilljarða þýfi þeirra, sem hafa aðstöðu til hækkunar í hafi.

Við byltum bófunum

Punktar

Jafnvel Kristján Loftsson er hættur að veiða hval. Næst gerir hann skipin út í hvalaskoðun. Ferðamenn færa okkur helminginn af öllum gjaldeyristekjum. Fiskur verður bara úthrópaður eins og prjónaskapur. Smíði hótela nægir ekki í aukningu ferðamanna. Útleiga stakra herbergja úti í bæ, AirB&B, verður að tvöfaldast á þessu ári. Hafði þó tvöfaldazt í fyrra og gaf þá 6-8 milljarða króna. Í sumar verða hundruð að sofa á bekkjum eða í undirgöngum. Á þessu ári verður aukning ferðamanna 50% og önnur 50% árið 2018. Þá getum við öll unnið í ferðamennsku. Þá getum við bylt bófunum og náð tvöföldu kaupi með því að sameinast í verkfalli.

Þjóð í gíslingu

Punktar

Stefna ríkisstjórnarinnar er frekar skýr. Hún er að gera ekki neitt, nema skera niður samþykktir alþingis. Taka fjárveitingavaldið af alþingi. Skýrast er það í vegunum. Markmiðið er að vegirnir verði svo illfærir, að fólk samþykki í neyð sinni einkavinavæðingu vegagerðar. Sama er uppi á teningnum í heilbrigðismálum. Niðurskurður þeirra miðar að opnun möguleika á einkavinavæðingu sjúkrahúsa, samkvæmt hugsjón Albaníu-Höllu. Byrjaði með einkavina-sjúkrahóteli í Ármúla, þar sem sjúklingar fengu martraðir. Minna heyrist um einkavinavæðingu skóla, enda var hörmuleg reynsla af Hraðbraut. Ekkert er minnst á húsnæðisskort ungs fólks.

Ekkert fegurðarskyn

Punktar

Hef oft kvartað yfir óbeit meirihluta borgarstjórnar á einkabílum og ráðaleysi í samskiptum við gráðuga verktaka. Hef minna talað um tilfinningaskort Hjálmars Sveinssonar og Dags B. Eggertssonar á skipulagi. Borgarfegurðin hefur að vísu minnkað í þrjá aldarfjórðunga undir stjórn alls konar pólitíkusa. En nú hefur tekið steininn úr. Tveir mikilvægir reitir við einu breiðgötu miðborgarinnar, Lækjargötu, valda mér angist. Það er reiturinn neðan við Arnarhól og við hlið Iðnaðarmannahússins. Þar á að reisa breið hús með láréttum línum og flötu þaki. Stílbrot. Að uppruna er Reykjavík borg lóðréttra og mjórra húsa með bröttu þaki.

Ótraust og ranglátt

Punktar

Þjóðarsátt í líkingu við Salek nýtist ekki hér, þótt hún geti það í Svíþjóð. Þar er lítill munur á skoðunum á velferð. Svíar borga lítið sem ekkert sjálfir fyrir heilbrigðisþjónustu, geta lifað af ellistyrk og geta slasast eða orðið veikir án þess að verða gjaldþrota. Geta auðveldlega fengið sér íbúð. Lifa við velferð og geta því sameinazt um litlar sviptingar í tekjuskiptingu. Við lifum ekki við þá velferð. Við borgum glás fyrir heilsuþjónustu. Aldraðir og öryrkjar borga enn meira. Við búum við margfalt meiri stéttaskiptingu en Svíar. Salek passar því ekki hér. Ekki er hægt að frysta ástand, sem í eðli sínu er ótraust og ranglátt.

Borga vélmennin skatta

Punktar

Hreyfanlegar tölvur, svokölluð vélmenni, eru að valda byltingu. Hún felst í, að hálfu þjóðirnar verða atvinnulausar. Við færiböndin í sjávarútvegi munu starfa vélmenni. Flutningabílum verður stjórnað af vélmennum. Þau taka einnig störfin af helmingi allra lögfræðinga. Svona mætti lengi telja. Þetta gerist á næstu árum og næsta áratug. Hvað gerum við til dæmis, þegar 100.000 Íslendingar verða atvinnulausir? Hver borgar? Verða vélmennin látin borga skatta til að standa undir borgaralaunum? Missa vangefnir valdhafar vesturlanda tökin á verkefninu? Munu bófar á borð við lePen, Donald Trump, Berlusconi og Bjarni Ben taka við?

Íhaldið er víðfeðmt

Punktar

Steingrímur J. og Björn Valur hafa báðir nýlega krafizt gengislækkunar til að létta súra lund kvótagreifa. Þeir eru raunar tveir helztu opinberu baráttumenn gegn frjálsum uppboðum á aflaheimildum og með óbreyttri stöðu vinnslustöðva landbúnaðarins undir pilsfaldi ríkisins. Þeir eru íhald eins og Sjálfstæðis, vilja ekki raska ró auðgreifa og vilja viðhalda stéttaskiptingu. Fái Viðreisn eða Björt framtíð fyrir hjartað í stjórnarsamstarfinu, getur Flokkurinn sparkað þeim úr rúminu. Kippt Vinstri grænum upp í til sín í staðinn og jafnvel Framsókn líka. Þetta sýnir, hversu óralangt Íslendingar eru frá siðuðum þjóðum Evrópu.

Þjóðarsátt um auðgreifa

Punktar

Eins konar þjóðarsátt ríkir á Íslandi. Sátt Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og verkalýðshreyfingarinnar um stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessir aðilar halda dauðahaldi í Salek-samkomulagið um lág laun láglaunafólks, þrátt fyrir miklar hækkanir annarra stétta, einkum alþingismanna. Þeir eru sammála um að gera ekki neitt í húsnæðisvanda unga fólksins. Og þeir eru sammála um að þjarma enn frekar að þeim verst settu í samfélaginu, hluta af öldruðum, veikum og öryrkjum. Þetta er sátt um auðgreifastefnu, sem gefizt hefur illa í vestrænum ríkjum síðustu ár. Verst er, að þessir aðilar telja allir, að auðgreifastefna henti þrælum sínum.

Hvorki vinstri né grænn

Punktar

Sumir telja Vinstri græn vera eins konar andstæðan pól við Sjálfstæðisflokkinn, vinstri flokk gegn hægri flokki. Málið er ekki svona einfalt, því pólitíkin hefur fleiri ása. Hluti af Vinstri grænum stendur sem íhald mjög nálægt öðru íhaldi. Styður til dæmis kvótagreifa og vinnslustöðvar búvöru gegn almenningi. Er ekki heldur eins umhverfisvænn og Píratar. Segja má, að sumpart sé flokkurinn hvorki Vinstri né Grænn. Þingmenn flokksins í þéttbýlinu kunna sumir að vera það, en hvorki Steingrímur J. né Björn Valur. Þeir mæla til dæmis með lækkun gengis krónunnar til að styðja við kvótagreifa og rýra kaupmátt almennings.

Bjarni falsaði kosningar

Punktar

Ísland er Undraland. Þar velja kjósendur sér bófaflokk og fjárglæframann til að stjórna. Afskriftir fyrirtækja á vegum Bjarna Ben fara senn yfir 100 milljarða, þegar Vafningur verður gerður upp. Í þessu Undralandi kemst Bjarni Ben upp með að ljúga ítrekað að alþingi og fjölmiðlun um tvær skýrslur. Báðar voru tilbúnar fyrir kosningar, Bjarni faldi þær frá október fram í janúar. Önnur var skýrslan um skattaskjól íslenzkra bófa, þar á meðal Bjarna Ben, á aflandseyjum. Hin var skýrslan um „leiðréttinguna“. Hefðu kjósendur vitað þetta í kjörklefanum, hefðu þeir getað kosið á annan hátt. Þannig falsaði Lyga-Bjarni einnig kosningarnar.

Enn lýgur Sigmundur

Punktar

Sigmundur Davíð heldur ótrauður áfram hjáreyndum sínum. Þótt viðtalið fræga við hann hafi alltaf verið til á YouTube og beri engin merki misræmis myndbands og hljóðbands. Samt segir hann einfaldlega eins og Donald Trump: „Þetta er falsað  viðtal“. Þegar engin merki eru um klippingar á viðtalinu, verður hann að gera betur og segja, hvernig það hafi verið falsað. Það er nefnilega komið í tízku á vesturlöndum að tékka á fullyrðingum pólitíkusa. Afleiðing af innkomu Trump í pólitíkina. Fólk trúir nefnilega ekki fullyrðingum. Stöð 2 lét Sigmund Davíð komast upp með þvættinginn. Hún er kannski ekki enn orðin vestrænn fjölmiðill.

Engar fréttir af Íslandi

Punktar

Skoðanakannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og MMR eru nokkurn vegin sammála um fylgi flokkanna. Pólitískir turnar eru tveir, Sjálfstæðisflokkurinn með 27% fylgi og Vinstri græn með 24%. Hálf þjóðin styður þessa tvo flokka. Síðan eru Píratar og Framsókn hálfdrættingar með 12% hvor flokkur. Aðrir flokkar berjast við að vera yfir 5% lágmarkinu. Viðreisn og Björt framtíð hafa dofnað við að skríða uppí hjá Sjálfstæðisflokknum, flokki landsins mestu auðgreifa. Ráðherrum flokkanna tveggja finnst hlýtt að vera þar. Nýjar upplýsingar um fjárglæfra Bjarna Ben og Engeyinga almennt megna ekki að rjúfa fylgisturn Sjálfstæðisflokksins.