Ráðum ekki við veðrið

Punktar

Of seint er orðið að bjarga jörðinni frá ofhitnun. Hitinn eykst hraðar en áður. Mótaðgerðir ríkja og ríkjasamtaka eru of fálmkenndar, óskipulegar og síðbúnar. Evrópusambandið hefur staðið sig einna bezt, en það eitt dugir ekki. Pólitíkusar eru margir næsta blindir á þetta örlagamál. Fremstur fer þar í flokki Donald Trump. Slíkir dólgar ógna forsendum núverandi lífsskilyrða. Hugsanlegt er þó, að stórfelldar og yfirgengilegar hamfarir, stormar, hvirfilbyljir, sjógangur, landsig og hærri sjávarstaða verði til þess, að fólk vakni snögglega til vitundar um örlög sín. Geri varnir gegn hlýnun jarðar að pólitísku forgangsmáli.

Manngerðir biðlistar

Punktar

Markmið Sjálfstæðis og fylgisveina hans er að svelta Landspítalann til að búa til pláss fyrir einkavinagróða. Framleiddir eru manngerðir biðlistar og síðan flaggað lausnum, sem fela í sér Albaníuspítala einkavina. Sjúkratryggingar ríkisins eru hluti af hinu fjölbreytta samsæri gegn jafnstöðu fátækra við stöðu ríkra. Hinir ríku kaupa sig fram fyrir biðlistafólkið og vilja að ríkið borgi sem mest af kostnaðinum. Vilja, að Landspítalinn taki erfiðustu og dýrustu vandamálin og græða sjálfir á hálfsjálfvirkum meðaltalstilvikum. Biðlistarnir eru sérstaklega framleitt skálkaskjól til að knýja einkavinavæðingu heilsunnar.

Ég er íslamófóbi

Punktar

Sem deofóbi er ég líka íslamófóbi. Andvígur hvers konar bókstafstrú á guðs orð í heilögum sorpritum. Hvort sem þau eru gamla testamentið eða kóraninn. Einkum, ef klerkar taka að sér að ritskýra sorpritin. Sem betur fer byrjaði veraldarhyggja að víkja kristni til hliðar fyrir hálfu árþúsundi. Kristni er nú komin á kantinn í vestrænum ríkjum. Leggur ekki lengur steina í götu almennings. Íslam hefur hins vegar ekki sætt veraldarhyggju í neinni alvöru. Þar halda flestir klerkar í miðaldaskýringar á sorpritinu. Reyna að gera múslima fráhverfa vestrænum nútíma. Halda dauðahaldi í kvenhatur, barnaníð og annað karlarugl úr eyðimörkinni.

Bófafélag í hnotskurn

Punktar

Borgun er skrítin mafía í meirihlutaeigu Íslandsbanka í meirihlutaeigu ríkisins. Meðeigendur eru Engeyingar og hinir víðfrægu Wernerssynir. Borgun hefur löngum starfað á gráum svæðum og sætt ákúrum Fjármálaeftirlitsins. Borgun hefur ekkert mark tekið á vælinu og núna verið kært til ríkissaksóknara. Umkvörtunarefnið er samstarf við tíu erlend fyrirtæki í peningaþvotti og kostun hryðjuverkasamtaka. Fjármálaeftirlitið krefst þess, að Borgun hætti því svarta samstarfi. Hér hefur Borgun notið Engeyjartengsla við fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra. Bófafélagið okkar í hnotskurn.

Tvær húsnæðislausnir

Punktar

Hvorki ríkið né borgin skilja húsnæðisvanda ungra. Í stjórnarsáttmála er hvergi getið um aðgerðir í húsnæðismálum. Borgarstjórnin segist þó gera klárar lóðir fyrir þúsund íbúðir á árinu. Gallinn er sá, að á hverju ári þarf miklu meira en þúsund viðbótaríbúðir í Reykjavík, bara fyrir AirB&B ferðamenn. Lausn vandans felst ekki í sértækum aðgerðum að íslenzkum hætti. Einfaldlega þarf að byggja ódýrar 50 fermetra stúdíóíbúðir og 70 fermetra íbúðir með einu svefnherbergi, fyrir ferðafólk og fátæka. Þær mega kosta í mesta lagi 20 milljónir. Í öðru lagi þarf að hækka lágmarkslaun Íslendinga upp í hálfa milljón fyrir skatta.

Upp komast svik

Punktar

Skattsvik eru eitt mesta leyndó á Íslandi, enda fína fólkið þar fremst í flokki. Því eru þau leyst með eins konar sátt og fara ekki fyrir dómstóla. Við fáum ekki að vita um upphæð sekta. Vitum stundum heildartölur fyrir alla og stundum ekki. Við vitum núna að lekinn frá Mossack Fonseca var keyptur á 37 milljónir króna. Hefur leitt til endurálagningar á 30 aðila upp á samtals 143 milljónir. Eftir er að ljúka málum um 100 aðila. Ekki er upplýst, hverjir þetta voru. Ekki heldur, að hversu miklu leyti þetta eru endurgreiðslur og að hversu miklu leyti sektir. Bjarna Ben hefur tekizt að tefja þessi skattamál, en ekki tekizt að fyrna þau.

Klórar sér bara í skegginu

Punktar

Hækkun í hafi er ógæfa Íslands. Hluti þjóðartekna fluttur úr landi og kemur ekki fram í skýrslum. Sjávarafurðir seldar lágu verði framhjá markaði og hækka síðan erlendis í verði milli fyrirtækja kvótagreifanna. Mismunurinn fer skattfrír til Panama. Sama er að segja um innfluttar vörur. Fyrst hækka þær í verði milli fyrirtækja íslenzkra auðgreifa erlendis og mismunurinn fer skattfrír til Panama. Varan og þjónustan er flutt inn á háu verði. Ekki aðeins skattsvik, heldur er féð tekið úr umferð hér og falið erlendis. Síðan er rifizt við Alþýðusambandið um Salek og aðrar launaheftingar án þess að taka földu peningana inn í myndina. Gylfi verkalýðsstjóri klórar sér bara í skegginu.

Þrælarnir lyppast niður

Punktar

Alþýðusambandið hefur enn staðfest, að það er undirlægja Samtaka atvinnulífsins. Hefur staðfest, að Salek haldi gildi sínu, þótt það hafi verið skotið í kaf af alþingi. Því munu lífskjör almennings versna á þessu ári. Ekki verður boðað til harðra aðgerða á vinnumarkaði. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, viðurkennir samt forsendubrest samninganna. Hálaunastéttir hafa fengið miklar kjarabætur, en alþýðan nánast engar. Þar við situr. Í hvert sinn sem þingmenn og slíkir fá miklar hækkanir, talar Alþýðusambandið um forsendubrest. Koðnar síðan jafnóðum niður. Alþýðusambandið er þræladeild Samtaka atvinnulífsins.

Verkföll með vorinu

Punktar

Andstæðingum búss í búðir fjölgar með hverju árinu og eru í miklum meirihluta. Alþingi og fésbók geta því hætt að uppfylla þrasþörf þjóðarinnar með þvaðri um bús í búðir. Geta snúið sér að mikilvægari málum, til dæmis óforskammaðri 50% launahækkun alþingismanna. Jón Þór Ólafsson, þingmaður pírata, hefur ítrekað krafizt lagabreytingar um lækkun þessara ofurlauna. En málið fæst ekki tekið á dagskrá alþingis. Stjórnarmeirihlutinn telur, að annað eigi að gilda um þá en aðra landsmenn. Hlaupastrákar Sjálfstæðisflokksins á fésbók reyna að níða Jón Þór niður fyrir framtak hans. Svo verða sjálfsagt stór verkföll með vorinu.

Séríslenzka myglan

Punktar

Mygla í útveggjum kostar þjóðfélagið tugi milljarða á hverju ári. Stafar að mestu leyti af innri einangrun steypu. Aðferðin er íslenzk sérgrein. Aðrir einangra steypu að utan. Þannig hefur mitt hús verið einangrað áratugum saman, raunar bæði að innan og utan, enda vantrúaður á íslenzkar sérgreinar. Steypa er gott innanhússefni, en sem ytri klæðning er hún afleit. Veðrast inn í einangrun. Á þessu tímabili var Rannsóknastofnun byggingariðnaðar lögð niður til að hindra opinber afskipti af húsbyggingum. Þá gerði alkalí út af við íslenzka steypu. Og enn eru menn í flötu þökunum, sem eru í kvosinni að leysa brött þök af hólmi.

Ró í ræðustólum

Punktar

Samkvæmt fréttum er þorri mála alþingis staðfestingar á fjölþjóðlegum samningum, einkum frá Evrópusambandinu. Okkur ber skylda til að innleiða lög sambandsins. Afgangurinn er að mestu leyti afgreiðslur frá stofnunum ríkisins. Aðeins sex mál alþingis eru pólitísk: Fjölgun ráðherra. Hert lög um brottvísanir útlendinga. Jafnlaunavottun. Tilfærslur í velferðarkerfinu og fæðingaorlofi. Innanlands flugþróunarsjóður. Framkvæmd búvörusamninga. Bús í búðir. Þess sjást ekki merki, að þjóðfélagið sé að fara á hvolf vegna árása stjórnvalda á kjarasamninga, á aldraða og öryrkja eða á húsnæðismál unga fólksins. Mál stjórnarandstöðunnar fást ekki rædd.

Allt í lausu lofti

Punktar

Til að þurfa ekki að ræða 50% launahækkun, tala þingmenn stjórnar og Framsóknar linnulaust um bús í búðir. Almenningur vill ekki heldur eða getur ekki rætt um launahækkunina og rífst linnulaust á fésbók um bús í búðir. Látið er nægja, að Brynjar Níelsson bulli um, að launalækkun þingmanna geti ekki verið afturvirk. Hér er ekki verið að fjalla um, hvort launalækkun sé afturvirk, heldur verið að tala um launalækkun. Basta. Alþingi réð sér Kjararáð til að hækka laun sín og þykist svo ekkert skilja. Niðurstaðan er eins og komið hefur fram, að samningar eru flestir lausir og engar líkur á, að fólk sætti sig við minna en Brynjar fær.

Jarðhitinn endist ekki

Punktar

Jarðhiti er ekki endurnýjanleg auðlind. Hann minnkar, þegar af honum er tekið. Hellisheiðarvirkjun átti upphaflega að vera 800 megawött, en síðan var dregið í land niður í 300 megawött. Afköstin minnka um 20 megawött á hverju ári. Bora þarf tvær nýjar holur á nýjum stöðum á hverju ári til að halda dampi á orkunni. Hellisheiði dugði ekki og nú er gengið á orkuna í Hverahlíðum, sem átti að nota til stóriðju. Öll plön um orkugróða af Reykjanesskaga hafa farið út um þúfur. Þetta mun fljótlega leiða til enn meiri hækkunar á hitaveitu íbúða almennings. Verkfræðingar eru verri spámenn en hag- og lögfræðingar og er þá mikið sagt.

Evrópu gengur vel

Punktar

Lesendum hatursmanna Evrópu kemur líklega á óvart, að fjárhagslega líður Evrópu og evrunni vel. Sameiginlega myntin hefur staðizt högg og reynzt sterkari en dollarinn og ég tala nú ekki um pundið. Í fyrra batnaði efnahagur allra 28 ríkja sambandsins, jafnvel Grikklands. Horfur eru á bata efnahags allra 28 ríkja þess á nýju ári og hinu næsta. Mestur hefur vöxtur efnahags verið í ríkjum, sem nota evru. Brexit er ekki talið munu hafa vond áhrif á vöxt meginlands Evrópu. Enda eru bankar og fjölþjóðafyrirtæki farin að flýja London til Frankfurt og Parísar. En auðvitað getur slæmt kvef í Bandaríkjunum og Kína haft áhrif á Evrópu.

Sjá:
YAHOO!

Fávitar elska fávita

Punktar

Alþingismenn neita að ræða og afgreiða frumvarp pírata um launalækkun þingmanna. Eru sáttir við að fá 50% meiri hækkun en aðrir. Aðeins Píratar, Vinstri grænir og Samfylkingin vildu hleypa þessu sjálfsagða máli á dagskrá. Í staðinn er að ráði stjórnarflokkanna rætt dag eftir dag um bús í búðir. Með stuðningi fólks, sem ræðir dögum saman á fésbók um bús í búðir. Þetta er pólitíkin á fávitahælinu Íslandi þessa dagana. Bús í búðir tekur líka tíma frá öðrum brýnum málum, svo sem húsnæðisvandræðum unga fólksins og sultarkjörum margra aldraðra og öryrkja. Svona gerist, þegar fávitar ráða sams konar fávita til að setja lög á alþingi.