Þrengjum launabilið

Punktar

Við þurfum að koma upp þéttara tekjukerfi í samfélaginu. Kerfi, sem dregur úr mismunun. Lágmarkstekjur verði 400.000 krónur á mánuði, fyrir utan skatt, úr því að leiguhúsnæði er komið upp fyrir 200.000 krónur. Þingmenn og aðrir yfirmenn í samfélaginu megi hafa tvöföld mánaðarlaun alls, 800.000 krónur, ráðherrar og aðrir forstjórar 1.200.000 eða þreföld mánaðarlaun. Breiðari munur gengur ekki, því að há laun valda víxlverkun Um leið þurfa gamlingjar, öryrkjar og sjúkir að fá 300.000 í borgaralaun á mánuði án vinnuframlags og fái lyf og sjúkrameðferð ókeypis. Að lokum þarf að leggja áherzlu á, að banksterar fari ekki yfir 800.000 krónur á mánuði.

Skætingur Brynjars

Punktar

Brynjar Níelsson er einn þeirra þingmanna, sem fullyrðir á færibandi, að farið sé að lögum, þegar vafi leikur á, að svo sé. Hefur tekið við hlutverki Vigdísar Hauksdóttur fyrrverandi þingmanns. „Þetta er ruglumræða“ segir hann um kröfuna um endurbætt lög um forsendu úrskurða Kjararáðs. Björn Leví Gunnarsson bendir á, að frá Kjararáði vanti útskýringar á, hvers vegna það kemst að einni útkomu um laun þingmanna, en ekki annarri. Ný lög þurfi að skerpa skilgreiningar á starfi Kjararáðs, svo úrskurðir þess fari ekki út af korti almennrar launaþróunar. Því svarar Brynjar með óútskýrðum skætingi um „galið“ „óþolandi“ „þetta rugl“.

Stjórnlaust Isavia

Punktar

Svo virðist sem frávísun brezka kennarans Juhel Miah úr Bandaríkjaflugi frá Leifsstöð sé að bandarísku frumkvæði. Juhel var ekki stöðvaður við brottför frá Bretlandi. Það bendir ekki til frumkvæðis eða milligöngu Bretlands. Íslenzkir starfsmenn Isavia önnuðust skítverkið að beinni ósk Bandaríkjanna. Þeir leituðu ekki samþykkis frá íslenzka utanríkisráðuneytinu eða innanríkisráðuneytinu. Enda hafa viðkomandi ráðherrar sagzt ekki hafa heyrt af málinu fyrr en í fréttum. Því hagaði Isavia sér eins og ríkisfyrirtækið sé bandarískt, en ekki íslenzkt. Brýnt fyrir réttarstöðu fullvalda ríkis er að kanna, hvernig Isavia datt þetta í hug.

Komið á kortið

Veitingar

Þótt Michelin sé fremur snobbaður mælikvarði á gæði matarhúsa, hefur hann mest gildi í augum þeirra, sem eiga húsin og matreiða þar. Ísland hefur, um leið og Færeyjar, fengið sinn fyrsta stað með einni Michelinstjörnu af þremur mögulegum. Það eru Dill í Reykjavík og Koks í Kirkjubæ í Færeyjum. Ekki er minna virði, að Matur & drykkur fær einn Michelin-karl, Bib Gourmand, fyrir hágæða mat á hóflegu verði. Fram að þessu hefur Íslands hvergi verið getið í bókum Michelin. Nú er kominn Michelin Nordic, þar sem Ísland er komið á blað með minnisstæðum hætti. Dregur ekki úr straumi ferðamanna, þótt flestir noti alþýðlegri leiðbeiningar.

Flissað við Mývatn

Punktar

Mývetningar hafa löngum verið taldir montnastir Íslendinga og jafnvel talið það sér til lofs. Engum blöðum er þó um að fletta, að þeir eru okkar mestu svarkar í umgengni við náttúruna. Þeim tókst að koma sér upp kísilveri, sem stórspillti Mývatni og gekk af kúluskítnum dauðum. Þeir hafa reist kofa í skipulagsleysi, sem bezt sést á Vogasvæðinu. Sveitarstjórn Mývetninga er með afbrigðum andvíg náttúrunni, sem sést bezt af fáránlegum skorti á góðu frárennsli. Hótel Laxá hefur í skjóli sveitarstjórnar árum saman hunzað fyrirmæli og gerir enn. Annað hótel er skipulagt langsum meðfram vatninu við Reykjahlíð til að spilla útsýni, einnig í skjóli sveitastjórnar. Og sveitarstjórinn flissar bara í fjölmiðlum.

Þolendur varaðir við

Punktar

Karlrembdum sjónarmið um, að þolendum ofbeldis sé sjálfum að kenna, hefur ekki verið flaggað upp á síðkastið. Femínistar hafa látið karlana heyra það. Síðast er Óttar Guðmundsson tekinn í karphúsið. Auðvitað eru fólskuverk ekki þeim að kenna, sem þola þurfa, heldur hinum, sem þau fremja. Til dæmis þeim, sem dreifa neyðarlegum klámmyndum af fyrrverandi vinkonum sínum. Hitt er svo annað mál, að nútíminn er orðinn anzi uppáþrengjandi. Fólk sést alls staðar í mynd á opinberum svæðum og snjallsímar eyða mörkum hins prívata og opinbera. Burtséð frá dólgunum er þolendum ráðlegt að víðvarpa ekki persónulegum málum. Aukin varúð er betri.

Aukið málfrelsi

Punktar

Fésbókin reynist að ýmsu leyti betur en hefðbundnir fjölmiðlar. Allir fá aðgang, án þess að sæta ákvörðunum hliðvarða. Málfrelsi er meira en áður var, en það er fullt af þvælu. Þú getur auðvitað tínt upp það, sem þú vilt, og látið annað eiga sig. Fésbókin magnar valið með því að ota því að þér, sem hún heldur þig vilja fá. Þetta er miklu magnaðri sérhæfing en framboð hefðbundinna fjölmiðla. Hvað úr þessu verður, veit nú enginn. Zuckerberg sér þar ódáinsakra í hillingum, enda verður hann ógeðslega ríkur af uppfinningu sinni. Aðrir ættu að stilla væntingum sínum í hóf. En fésbókin bætir upp sífellt fátækari hefðbundna fjölmiðla.

Úreltur einkaréttur

Punktar

Með fyrirvara um smáa letrið hrósaði ég um daginn Þorgerði Katrínu fyrir lausn kvótagreifadeilunnar. Hefur síða reynzt vera ótímabært hrós. Hún hótaði. Hótaði sjómönnum neyðarlögum á verkfallið. Hafa raunar flestar ríkisstjórnir gert, en Þorgerður lét svo sem þetta væri ekki hótun. Raunar hafa sjómenn ekki getað gert neina samninga í fjölda ára, því ríkisstjórnir draga ætíð taum greifanna. Þeir geta látið veiða, þegar þeim sýnist, og látið stöðva veiðar, þegar þeim sýnist. Þeir hafa nefnilega úreltan einkarétt á veiðunum. Geti þeir ekki nýtt einkarétt, ætti að leyfa öðrum að leysa þá af hólmi. Brjóta þarf kvótagreifana á bak aftur.

Fésbókin er gölluð

Punktar

Ég nota fésbókina. Ekki því hún sé svo góð, heldur því hún er svo stór. Stærsti fjölmiðill heimsins. Gerir mér kleift að birta skoðanir á ýmsum sérsvæðum, til dæmis pírata. Gerir fólki kleift að dreifa skoðunum mínum með því að tengja þær inn á sín svæði. En fésbókin er ekki mín eign. Má loka á mig, hvenær sem er. Má sóa tíma mínum við að komast aftur í samband. Fésbók sýnir mér það efni, sem hún telur mig vilja sjá. Magnar þannig hugsanlega fordóma mína. Bloggið er að mörgu leyti betra. En nafnlausir „virkir í athugasemdum“ ganga þar um á skítugum skóm. Svo ég loka á þá, hef opið á fésbókinni. Bloggið er líka mín eigin geymsla, mín fortíð. Þar er allt, sem ég hef skrifað um ævina. Og ég á það sjálfur.

Lífeyris-sjóðasukkið

Punktar

Trygg­inga­fræði­staða Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna versn­aði 2016 úr 8,7 pró­sent í 4,2%. Kaup sjóðsins á hlutabréfum í dapurlegum rekstri Icelandair lék þar stórt hlutverk. Þetta er stærsti lífeyrissjóður landsins og segir mikið um bransann í heild. Stjórnir þeirra eru illa skipaðar, jafnvel bröskurum, og hafa lítið vit á hlutabréfabraski. Lífeyrissjóðir eiga ekki að taka þátt í braski, heldur vera í traustum og hægum lánum, til dæmis ríkisskuldabréfum. Þau hæfa bezt traustri tryggingarfræðistöðu þeirra. Til langs tíma þarf að taka stjórn þeirra úr höndum spilltra milliliða. Og fela hana hlutlausum fræðimönnum og svo sjóðfélögunum.

Kvalaþrá kjósenda

Punktar

Hvað eftir annað sýna kannanir, að Íslendingar hafa mestar og auknar áhyggjur af stöðu heilbrigðismála. Síðan koma áhyggjur af spillingu í fjármálum og pólitík, af fá­tækt og fé­lags­leg­um ójöfnuði. Hálf þjóðin deilir þeim áhyggjum. Þetta eru stóru málin okkar, þótt fjölmiðlar birti meira um bús í búðum. Í kosningunum í nóvember lofuðu núverandi stjórnarflokkar öllu fögru og hafa svikið það allt. Kjósendur vissu þetta. En það nægir nægum fjölda, að bófaflokkur lofi himnaríki á jörð og fari svo umsvifalaust að vinna fyrir kvótagreifa. Kjósendur, sem vita betur, láta bófana sína taka sig ósmurt í rassinn, kosningar eftir kosningar.

Matur – þjónusta – umhverfi

Veitingar

Eftir áramótin eru tíu veitingahús á gæðalista mínum. Fyrst og fremst vegna eðalgóðrar matreiðslu, vingjarnlegrar þjónustu og notalegs umhverfis. Hóflegt verð í hádeginu (1900-2700 kr) skiptir líka máli, ég tími ekki að borga 9.000 kr að kvöldi. Þrír nýliðar eru á listanum, Matwerk, Matarkjallarinn og Essensia. Sjávargrillið trónir á toppnum eins og verið hefur undanfarin ár. Röðin á listanum skiptir þó minna máli en veran á listanum. Þetta eru allt frábær hús:

1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Fiskfélagið
4. Kopar
5. Matwerk
6. Matarkjallarinn
7. Holt
8. Essensia
9. Kaffivagninn
10.Ostabúðin
10.Grillmarkaðurinn

Þyrla upp ryki

Punktar

Þegar ráðherrum líður illa út af gagnrýni á gerðir þeirra eða iðjuleysi, þyrla þeir upp ryki. Láta koma fram getgátur um náttúrupassa, er reita fólk til reiði. Eða hugmyndir um bús í búðir, sem hafa sömu áhrif. Af  nógu er að taka, svo sem vegaskatt kringum Reykjavík. Halldór Laxness lýsir slíku vel í Atómstöðinni: Að grafa upp hugsanleg bein Jónasar Hallgrímssonar. Við þekkjum tillögur um breytta klukku. Allt fer á hvolf, því allir hafa vit á slíku. Fáir skilja alvörumál á borð við einn og sama vask á allt, allan fisk á markað, frjáls uppboð kvóta, gistináttagjald, nýja stjórnarskrá og einkavinavæðingu. En við vöðum bara reyk.

Gott hjá Þorgerði

Punktar

Gott er, að kvótagreifar og sjómenn sömdu án fjárhagslegrar þátttöku ríkisins. Ekki er heil brú í, að skattgreiðendur borgi hlut í kjörum sjómanna og nú hefur það verið aflagt. Að vísu gerðist það með því að ráðherra veifaði hótun um enn ein lögin á sjómenn. Og svo vitum við ekki enn um smáa letrið í samningunum. En á þessu stigi upplýsinga hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra haft sóma af festu sinni við að hafna aðild skattgreiðenda. Hefðbundnir kjarasamningar eru tilgangslausir, þegar annar aðilinn hefur einkarétt á veiðikvóta og getur flýtt eða frestað útgerð að vild. Miklu stærra mál er að afnema þessa úthlutun kvóta.

Misstu stuðning miðjunnar

Punktar

Þeir, sem hafa yfir milljón á mánuði, telja Ísland á réttri leið, kjósa Viðreisn eða Sjálfstæðisflokkinn. Hins vegar telur fólk með meðallaun, 400-600 krónur, Ísland á rangri leið. Meirihluti þjóðarinnar hefur þá skoðun. Vegna spillingar í fjármálum og stjórnmálum, félagslegs ójafnaðar og hnignunar velferðar, siðferðis og menntunar. Einkennishópur þessa miðstéttarfólks eru Píratar, sem höfðu að kjörorði: „Endurræsum Ísland“. Hins vegar var Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur yfirstéttarinnar, með slagorðið: „Á réttri leið“. Allur þorri kjósenda Bjartrar framtíðar telur Ísland á rangri leið. Samkvæmt könnun MMR og þjóðarpúlsi Gallup hefur stjórnin misst stuðning miðjunnar.