Vaka koltapaði

Punktar

Undanfarin ár hefur Vaka, hægri stúdentafélag Háskóla Íslands, sigrað í hverjum kosningunum til Stúdentaráðs á fætur öðrum. Ég hef átt erfitt með að skilja, að afturhaldið skuli hafa náð slíkum kverkatökum á ungu fólki. Í ljósi andstöðu Sjálfstæðisflokksins við húsnæði og aðra hagsmuni ungs fólks. En að þessu sinni snerist dæmið við. Röskva, vinstra stúdentafélagið, hafði stórsigur, 18 sæti gegn 9. Kannski er að síast inn hjá ungu fólki, að framtíð þess er síður en svo borgið hjá bófaflokki, sem lengi hefur skipulega arðrænt samfélagið. Vonandi eru nýju úrslitin í Háskólanum merki þess, að tímamóta sé að vænta í pólitíkinni.

Undarlegar tölur

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnun Gallup í janúar hafa Vinstri græn mokað til sín fylgi frá Viðreisn. Vinstri græn hafa hækkað frá kosningunum um 7 prósentustig og Viðreisn glatað 5 prósentustigum á móti. Þetta er eina marktæka fylgisbreytingin á þessum tíma. Ég hef enga skýringu á, hvers vegna fylgi rambar frá Viðreisn til Vinstri grænna. Þar getur verið um þrepahlaup að ræða. Enn síður get ég skýrt, hvernig Sjálfstæðisflokkur, sem er siðferðilega með buxurnar á hælunum, heldur kjörfylgi sínu nokkurn veginn. 28% kjósenda eru beinlínis sátt við bófa, sem sat á tveimur skýrslum fram yfir kosningar. Og sátt við flokk, sem hefur haft þúsund milljarða af þjóðinni.

Hækkun í hafi

Punktar

Áratugum saman hefur hækkun í hafi verið undirstaða fjársöfnunar í skattaskjólum á aflandseyjum. Innflutningsverzlunin tók sér umboðslaun, sem ekki komu hér fram. Síðan komu álfyrirtækin, sem fengu báxít fyrir slikk í Ástralíu og seldu íslenzku álverunum á uppsprengdu verði. Mismunurinn hvarf í skattaskjól og kom ekki fram í hagkerfinu. Þriðja bylgjan kom svo með ofsagróða kvótagreifa. Seldu sjálfum sér fiskinn fyrir slikk og seldu síðan á markaðsverði til skattaskjóls-fyrirtækja sinna. Samhliða tóku banka- og glæframenn að sér að þvo rússneskt þýfi og setja í skattaskjól. Meira en þúsund milljarðar hafa horfið úr landi framhjá sköttum og Salek-samningum um kjaramál. Kannski tvö-þrjú þúsund milljarða. Í boði Flokksins.

100 milljarða velferð

Punktar

Til að endurreisa hér norræna velferð og norræna skattþyngd mætti afla 100 milljarða á ári. Ferðaþjónusta fari í 20% vask, gefur 10 milljarða. Uppboð verði á öllum fiskikvóta, gefur 20 milljarða. Fjármagnstekjuskattur verði hinn sami og vinnutekjuskattur, gefur 20 milljarða. Tekjuskattur fyrirtækja verði hinn sami og á Norðurlöndum, gefur 20 milljarða. Orkuskattur á stóriðju, gefur 10 milljarða. Settur hátekjuskattur á milljónatekjur, gefur 10 milljarða. Svo þarf auðvitað að koma lögum og sektum yfir skattsvikara í erlendum skattaskjólum. Alls gefur þetta 100 milljarða á ári. Líklega sú upphæð, sem bófarnir hafa árlega stungið undan.

Óvinurinn er heima

Punktar

Fólk um víða veröld hefur áhyggjur af, að öryggi Kalda stríðsins sé lokið og að ógnartímar séu framundan. Slunginn skákmaður sé kominn til valda í Rússlandi og geðsjúklingur kominn í Hvíta húsið. Öfgaflokkar séu komnir í stjórn í mörgum ríkjum og jafnvel tekið völdin í Tyrklandi og Ungverjalandi. Norður-Kórea sé með langdræg kjarnorkuvopn. Alls staðar er fólki sagt, að útlandið sé hættulegt og ógni öryggi. Það er nefnilega í þágu þeirra fáu, sem eiga nánast allt, að fólk haldi, að óvinurinn sé í útlandinu. Ekki þurfi að endurræsa samfélagið, heldur auka stöðugleika og samstöðu stéttanna. Ferlið mun leiða til klofnings samfélaga.

Einmana píratar

Punktar

Píratar kvarta stundum yfir að hafa lakari aðgang að fjölmiðlum en hefðbundnir stjórnmálaflokkar. Þurfa raunar sjálfir að skoða betur sinn gang. Stundum virðist svo sem lítil almannatengsl séu þar í gangi eða að fólk haldi þau gerast af sjálfu sér. Svo er ekki. Hafi flokkar eða aðrir hópar eitthvað að segja, þurfa þeir að vekja athygli fjölmiðla og vefmiðla á málefni sínu. Fjölmiðlar og ekki síður vefmiðlar eru opnir fyrir pírötum eins og öðrum. Fjölmiðlun á vegum pírata er í skötulíki. Fuglabjargið er nánast ónotað og Pírataspjallið hefur dofnað. Nú eru þingmenn pírata orðnir tíu og þeir eiga að vera sýnilega eitthvað að gera.

Víða trumpast fólk

Punktar

Þegar við dissum Trump fyrir að fangelsa flugfarþega, skulum við muna, að hann er að stæla Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmála. Sá fangelsaði ólöglega hóp af friðarsinnum, svonefnda Falun Gong og rak úr landi. Enn er Trump ekki verri en Björn, hvað sem síðar verður. Þegar við dissum Útvarp Sögu og Pétur Gunnlaugsson fyrir óvirðulegt hjal í útvarpi, skulum við muna, að leyft er að hafa róttækar eða óvinsælar skoðanir hér á landi. Samt veit ríkissaksóknari það ekki og höfðaði mál gegn Pétri fyrir „hatursorðræðu“ [sic]. Skemmst er frá því að segja, að dómarinn vissi betur og kastaði vitleysunni úr rétttrúnaðar-liðinu út í tunnu.

Hvað „lækar“ þú

Punktar

Kosningafyrirtæki eru farin að nota fésbókina og aðra vefmiðlun til að kortleggja persónuleika fólks. Mikið er byggt á „lækum“ og viðbrögðum við auglýsingum, en einnig á textameðferð fólks. Þannig er til dæmis hægt að finna þá, sem hafa áhuga á bandarískum bílum og senda þeim, og bara þeim, loforð Trump um skatta á útlenda bíla. Líka er hægt að finna þá, sem eru frekar heimskir og finnst Bjarni Ben hafa flotta hárgreiðslu. Þetta er talið hafa haft töluverð áhrif á framvindu baráttu forsetaefnanna í Bandaríkjunum. Allir Bandaríkjamenn voru flokkaðir í fáa tugi persónuleika og hver fékk sérhannað erindi. Kjósendur þurfa að fara að passa sig.

Ljúft við Laugaveg

Veitingar

Matwerk er faglega hannaður veitingastaður á þremur gólfum innst á Laugavegi, þar sem einu sinni var Stjörnubíó. Grunsemdir um enn eina túristagildruna hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar maturinn kom á borð. Frábærlega mátulega steikt bleikja  með maukaðri og ljúfri blöndu af kartöflum, grænkáli og jógúrt, borin fram í pönnu, 2.250 krónur í hádeginu. Sama hagstæða verðið og á öðrum góðmetisstöðum miðbæjarins. Raunar líka hagstætt fyrir túristana á kvöldin, 2.950 krónur. Ísland er ekki dýrt. Yfirkokkurinn kemur frá öndvegisstaðnum Fiskfélaginu, Stefán Hlynur Karlsson. Matwerk fer beint á listann minn yfir tíu beztu matarhús borgarinnar.

Víða leitað vina

Punktar

Theresa May á bágt í Bretlandi. Hún er fyrir hönd Íhaldsflokksins að reyna að framkvæma Brexit, brottför ríkisins úr Evrópusambandinu. Smám saman er að koma í ljós, að gallarnir eru fleiri en kostirnir. London og Skotland höfnuðu Brexit og eru fjarska ósátt. London mun missa miðstöð bankaviðskipta yfir til Frankfurt. Evrópa er stærri biti en brezka samveldið og virðist lítið ætla að gefa eftir. May leitar í örvæntingu að vináttu úr öðrum áttum. Fyrst fór hún vestur um haf, þar sem geðsjúklingur er kominn til valda. Síðan fór hún til Tyrklands, þar sem Erdogan hamast. Hver verður næstur, Bjarni Ben eða Kim Jong Un í Norður-Kóreu?

Lítil orð um Bjarna

Punktar

Stundum segja menn of stór orð notuð á fésbók. Því miður er íslenzkur veruleiki svo ljótur, að erfitt er að ýkja. Til dæmis er Bjarni Benediktsson bæði lyginn og ómerkilegur formaður bófaflokks og er þá hvergi ofsagt. Fyrst faldi hann skýrslu um skattaskjólin fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Fiktaði þar að auki við hana og varð tvísaga. Þegar sá hvellur var búinn, kom líka í ljós, að hann hafði á sama hátt og jafnlengi falið skýrslu um leiðréttingu húsnæðislána. Hún sýndi, að almenningur borgaði leiðréttingu fyrir ríka. Þannig smeygði hann sér fyrst inn á þing og síðan í embætti forsætisráðherra. Bjarni Ben er því hreinn óþverri.

Friðsælt stríð

Punktar

Benedikt Jóhannesson fjármála segist hafa sagt skattaskjólum Íslendinga stríð á hendur. Þau urðu fræg í vor, þegar þáverandi forsætis og núverandi forsætis voru vísir að földu fé í skattaskjólum. Enda er stríð Benedikts ekki bara kalt, heldur beinlínis friðsælt. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á skattaskjólin, fjármagnsflutninga til aflandseyja eða skattaundanskot. Enn sem komið er birtist stríð Benedikts við skattaskjólin eingöngu í digurbarkalegum mannalátum. Að mestu er málaskráin þýðing á tilskipunum frá Evrópusambandinu. Þið munið þetta ógnarsamband, sem sagt er troða eitruðum mat í íslenzka kjósendur.

Einn mesti glæfrakarlinn

Punktar

Afskriftir fyrirtækja, sem Bjarni Benediktsson stýrði fram í hrun, eru komnar upp í 82 milljarða króna. Mest urðu þessar skuldir til á stjórnartíma Bjarna. Þetta eru einkum fyrirtæki í BNT og N1 samstæðunni. Þá er ennþá eftir að afskrifa 50 milljarða skuld í því, sem áður hét Vafningur. Ekki meðtaldar afskriftir upp á 48 milljarða í Földungi, sem Glitnir yfirtók. Bjarni er einn helzti fjárglæframaður landsins. Því var vel við hæfi, að hann tæki yfir ríkissjóð fyrir tæplega fjórum árum. Og nú er hann orðinn eini forsætisráðherra heimsins, sem hefur fólgið fé  sitt í skattaskjóli á aflandseyju. Íslenzkir kjósendur eru engum öðrum líkir.

Hvíta húsið á hvolfi

Punktar

Þegar Trump jós kosningaloforðum yfir mannskapinn, sögðu menn: „Þetta eru bara loforð.“ Svo varð hann forseti og byrjaði samdægurs að tísta fyrirskipanir á Twitter. Fólk er farið að róa fram í gráðið og segja: „Þetta verður stoppað.“ En Trump heldur áfram að taka starfsfólk Hvíta hússins á taugum. „Þú ert rekinn“ segir hann. Starfsmannastjórinn fékk taugaáfall og kallað var í varaforsetann, sem hélt bænastund. Mexikó-forseti segir: „Éttu hann sjálfur“. Enginn tekur mark á Trump, nema Theresa May, sem er með Bretland í öngviti út af Brexit. Hún leitar sálufélaga, hvar sem er. Senn hringir hún líka í Bjarna Ben, prinsinn af Panama.

Allir banksterar eins

Punktar

Frægð Lilju Bjarkar Einarsdóttur var mest, er hún markaðssetti illræmda IceSave reikninga Landsbankans í Bretlandi 2006-2008. Nú orðin bankastjóri Landsbankans, leysir Steinþór Pálsson af hólmi. Hann var líka frægur að endemum. Þetta eru sýnishorn af mistökum stjórnvalda eftir hrun. Ráðherrum vinstri og hægri stjórna hefur mistekizt að endurreisa bankana. Þeir eru undir stjórn nákvæmlega eins fjárglæfrasnillinga og fyrir hrun þeirra. Þeir hafa ekki orðið bankar fyrir fólk. Hafa aldrei áður níðst eins mikið á almenningi og þeir hafa gert síðustu árin. Meðan þeir hjálpa glæframönnum Mammons að skipta um kennitölur eins og sokka.