Óttarr er hataður

Punktar

Óttarr Proppé segir nú, að kosningastefnuskrá Bjartrar framtíðar hafi ekki verið kosningaloforð, heldur kosningaáherzlur. Dæmigerður útúrsnúningur. Einnig segir hann óvíst, að flokkurinn styðji þessi mál, þegar þau koma fram. Loks nuddar hann salti í sárin: „Fátt gleður mig meira en að velta fyrir mér siðferðilegum og heimspekilegum spurningum.“ Vissulega varaði ég við því, að loforð skiptu Óttarr engu. Björt framtíð væri ekki flokkur málefna, heldur flokkur um ráðherrastóla. Meirihluti kjósenda flokksins trúði samt kosningaloforðunum og fer ófögrum orðum um jókerinn, mest hataða pólitíkus mánaðarins. Björt framtíð er vissulega svört.

Trump ólmast bara

Punktar

Trump mun halda áfram að abbast upp á Mexíkó út af múrnum fræga. Vilji hann múr, borgar hann múr, en sendir ekki reikninginn annað. Trump mun skera Obamacare á spítölum og fá rauðhálsana til að klóra sér í skallanum. Trump mun nefnilega, nákvæmlega eins og Bjarni Ben, eingöngu hugsa um hag hinna allra ríkustu. Enda hefur Trump eingöngu valið slíka í ríkisstjórn sína. Hagsmunir smælingjanna, sem kusu hann út á rembing hans, verða að víkja. „The white trailer trash“ mun verða fyrir gífurlegum vonbrigðum. Allt þetta mun smám saman grafa undan Trump. Einnig grafa undan flokknum, sem tók hann í sátt, Repúblikönum. Þar er framtíðin svört.

Píratar þagna

Punktar

Rödd pírata hefur dofnað, þótt þingmönnum þeirra hafi fjölgað. Þeir hafa að mestu yfirgefið Pírataspjallið á vefnum. Áður var þar mikið fjör og þar vildu jafnvel andstæðingar pírata tala. Nú er sama innleggið eftir Jón Þór Ólafsson búið að hanga á toppnum í þrjár vikur samfleytt. Auðvitað á þar að vera nýtt efni nokkrum sinnum á dag. En það er eins og allur vindur hafi fokið burt í kosningunum, sem ollu mörgum vonbrigðum. Eftir miklar væntingar í baráttunni náðu gömlu flokkarnir og afkvæmi þeirra vopnum sínum. Fimmtán prósent er samt góð tala. Nógu góð til að halda dampi áfram. Róm var ekki sigruð á einum degi. Þolinmæði þarf og úthald.

Brexit og Trump mistök

Punktar

Bandaríska Nieman stofnunin hefur gefið út skýrslu um vaxandi erfiðleika Breta í kjölfar úrsagnar úr Evrópusambandinu. Alls konar della var á oddinum hjá óvinum aðildar, einkum stjórnmálamönnum, sem réðu ferðinni. Til dæmis trúði fólk, að brottfall á greiðslum til sambandsins gæti staðið undir heilbrigðiskerfi Breta. Í skýrslunni er sagt, að stofnanir, sem vaka yfir „fake news“ (hjáreynd) og vara við þeim, geti hindrað mistök á borð við sigur Brexit í Bretlandi og Trump í Bandaríkjunum. Nieman vill efla slíkar staðreyndavaktir og þrýsta á fjölmiðla til að segja frá rannsóknum þeirra í stað þess að leyfa firrtum pólitíkusum að láta gamminn geisa átölulaust.

NIEMAN

Demókratar eiga Kaliforníu

Punktar

Demókratar unnu öll alríkisþingsæti Kaliforníu í kosningunum. Hafa afgerandi 67% meirihluta þings Kaliforníu til stjórnarskrárbreytinga í ríkasta ríki USA. Þetta er partur af upphafi á viðnámi gegn sápukúlu Brexit, Trump, le Pen, Bjarna Ben og allra heimsins bankstera. Við tekur samfélag unga fólksins. Þeirra, sem munu fara inn í veröld róbota og stjórna þeim. Fólk með nýja hugsun og nýja heilbrigði eins og píratar á Íslandi. Fólks sem skilur hugtök eins og borgaralaun og hjáreynd og lætur fjölmiðla valdsins ekki ljúga að sér. Ef Trump tekst ekki að sprengja upp jörðina, springur bóla hans eins og bóla kommúnisma sprakk og gufaði upp á viku.

SACRAMENTO BEE

Staðreyndir og hjáreyndir

Punktar

Trump er verri en svartsýnastir spáðu. Hefur safnað að sér fólki, sem býr í eigin loftbólu, My Truth – your truth. Hans hjáreynd eða mín staðreynd. Ef talningavél sér eina milljón manns við innsetningu forsetans, sér blaðafulltrúi Trump sex milljónir. Segir svo við blaðamennina: „My Truth“. Hjáreynd er tekin fram yfir staðreynd. Trump boðar, að stríð séu gagnslaus, nema hægt sé að ræna olíu. Ljóst er, að stórglæpamenn hafa náð völdum í Bandaríkjunum og veröldin verður erfið næstu fjögur ár. En á sama tíma munu fleiri sjá staðreyndirnar að baki hjáreynda og taka völdin á næstu fimm-tíu árum. Repúblikanar munu hverfa hér eins og í Kaliforníu.

Heimska vor vex

Punktar

Síðustu 75 ár hefur heimska Íslendinga aukizt örlítið í hverri kynslóð, samkvæmt mælingum Íslenzkrar erfðagreiningar. Fjallað er um það í grein í tímaritinu Proceedings of The National Academy of Sciences of The USA. Vafalaust er þetta hluti af langri breytingasögu um aldir, þegar selspik, frekar en grúsk í fræðum, hélt hita á þjóðinni. Nú er ástandið svo slæmt, að þjóðin kýs hvað eftir annað yfir sig bófa, sem ræna hana árlega tugum milljarða með hækkun í hafi. Þriðjungur þjóðarinnar hefur um langt skeið kosið flokkinn, sem er í þungamiðju arðránsins. Að þessu sinni urðu slíkir flokkar fleiri, kosnir af nærri hálfri þjóðinni. Fífl.

Fiktað í skýrslunni

Punktar

Gunnar Thorberg markaðsráðgjafi bendir á, að fiktað hafi verið við skýrsluna um skattaskjólin. Frá því, að Bjarni Benediktsson fékk hana í hendur 14. september og þangað til henni var síðast breytt 6. janúar í fjármálaráðuneytinu. Bendir hann á, að hægt sé að sjá alla breytingasögu skýrslunnar. Spyr, hvort eðlilegt sé, að ráðuneytið fikti við skýrslur, sem það fær. Ekkert hefur komið fram um, að unnið sé að skattheimtu í samræmi við hana. Flest ríki Vestur-Evrópu eru á kafi í samstarfi um að grafa upp skattsvik góðborgara og fyrirtækja. Hér ypptir Bjarni Ben bara öxlum, enda er hann nefndur í skýrslunni. Hann er með öllu siðblindur.

Vægari þjóðremba hér

Punktar

Þjóðrembdir flokkar hafa náð yfir 20% fylgi víða í Vestur-Evrópu. Voru lengi ekki taldir húsum hæfir, en eru nú komnir í ríkisstjórnir, til dæmis í Danmörku og Noregi. Slíkum nýjum flokkum hefur ekki vegnað vel hér á landi. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur telur það stafa af, að heldur vægari tegund af þjóðrembu sé byggð inn í íslenzka flokkakerfið. Meðan evrópskir pólitíkusar forðuðust þjóðrembu eftir síðari heimsstyrjöldina, belgdu íslenzkir pólitíkusar sig út af þjóðrembu í ræðum sínum. Aðeins Alþýðuflokkurinn var fjölþjóðlega sinnaður. Meira að segja kommar blésu sig út í þjóðrembu. Yngri kynslóðir láta sig þjóðrembu litlu skipta.

Leiðrétt til ríkra

Punktar

Komin er í ljós niðurstaða gamals kosningaloforðs Framsóknar og Sjálfstæðis um 300 milljarða LEIÐRÉTTINGU. Tilfærslu fjármagns frá erlendum hrægammasjóðum til íslenzkra húsnæðisskuldara. Tilfærslan nam þó bara 72 milljörðum og var ekki frá hrægömmum, heldur íslenzkum fátæklingum. Samanlögð skerðing barna- og vaxtabóta nemur um 57,7 milljörðum króna á núvirði. Leiðréttingin rann ekki til almennings, heldur 86% til hærri tekjuhópa. Niðurfærsla verðtryggðra fasteignalána var að mestu millifærsla frá tekjulágum til tekjuhárra, studd af helmingi kjósenda. Leiðrétting til ríkra kallast jafnrétti á máli tjúllaðra nýfrjálshyggjugaura.

Pólitískir bófaflokkar

Punktar

Kaupmáttur er undarleg vísitala, sem nær ekki yfir húsnæðiskostnað, og segir því lítið um lífskjör. Af öðrum vísitölum sjáum við, að þjóðartekjur á mann eru þær sömu hér og á Norðurlöndum. Lífskjör hér eru hins vegar miklu lakari en þar. Það stafar af langvinnum völdum pólitískra bófaflokka. Þeir hafa lækkað skatta á háum tekjum og fyrirtækjum. Þeir hafa skipulagt eftirlitsleysi eftirlitsstofnana. Þeir hafa á hverju ári falið tugmilljarða í skattaskjólum. Þeir hafa afskrifað skuldir skjólstæðinga bófa og hundelt fátæka íbúðarkaupendur. Þeir hafa gert ítrekað kennitöluflakk að hefðbundnum þætti í rekstri. Þeir hafa blóðmjólkað samfélagið.

Bylting gistiverðs

Punktar

Þessa daga gerist bylting í ferðamálum Reykjavíkur. Í fyrra var sama verð hér á gistingu og í öðrum höfuðborgum Norðurlanda. Á þessu ári verður hótelverðið hér næstum tvöfalt hærra en í hinum borgunum. Frá því segir í Aftenposten og í Lonely Planet. Nýja frægðin er hættuleg. Tölurnar eru ekki bara hrikalegar, heldur valda því, að ferðatímarit draga úr frásögnum af Íslandi. Skyndigróði er hverfull, eins og við höfum áður kynnzt í loðdýrum og fiskeldi. Græðgisfíknina íslenzku skortir gangráð. Snýst bara hraðar og villtar unz allt fer á hausinn. Við þurfum opinbert regluverk og eftirlit með gistiverði, betri opinbera innviði, fyrir okkur sjálf.

AFTENPOSTEN

Neitar að mæta

Punktar

Panamisti Engeyinga neitar að koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til svara um földu skýrsluna um skattaskjól á aflandseyjum. Ber því við, að hann sé ekki lengur fjármála, heldur forsætis, eins og það skipti máli. Skýrslan um málið kom fram í haust, en var falin niðri í leyniskúffu hjá Bjarna Ben fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Nú vilja píratar og vinstri græn ræða ferlið, en Bjarni segir pass. Er þó sjálfsögð krafa, að ráðherra sinni lögbundnu hlutverki sínu fyrir þingmönnum og að þeir sinni eftirlitsskyldu sinni. En það mun lenda á frændanum í fjármálaráðuneytinu að svara fyrir hrokafullan formann bófaflokksins.

Hættulegi maðurinn

Punktar

Morgunblaðið bullar, að Egill Helgason sé vinstri sinnaður álitsgjafi. Hann hefur alltaf verið borgaralegur miðjumaður eins og margir voru í Sjálfstæðisflokknum fyrir þremur áratugum. Ætíð andvígur Sovétríkjunum sálugu og núna einnig andvígur nýfrjálshyggju. Ekkert er athugavert við, að álitsgjafi sé andvígur þekktum öfgum í nútímasögunni. Svo vel vill til, að Egill er áhrifamesti og kunnasti álitsgjafi landsins og langsamlega bezti sjónvarpsmaðurinn. Nú er hann blessunarlega að koma aftur með Silfur Egils í ríkissjónvarpið. Fulltrúum nýfrjálshyggjunnar þykir þó tryggara að hafa hægri sinnaða Fanneyju Birnu Jónsdóttur honum til mótvægis.

Jafnvægi og heilindi

Punktar

Píratar sækjast eftir jafnvægi í samfélaginu. Sé því stjórnað óhæfilega öfgakennt til hægri, vilja Píratar færa jafnvægið inn á miðjuna. Sé því stjórnað óhæfilega öfgakennt til vinstri, vilja Píratar færa jafnvægið inn á miðjuna. Píratar eru alltaf í miðjunni. Í núverandi umhverfi hægri öfga virðast þeir vera til vinstri. Í umhverfi vinstri öfga mundu þeir virðast vera til hægri. Öfgar eru til ýmissa átta, en Píratar eru alltaf inni á miðjunni, fylgjandi jafnvægi og heilindum í samfélaginu. Út á það hafa þeir fengið 15% atkvæða. Þurfa að fara upp í 30% til að hafa marktæk áhrif. Því þurfa ungir að kjósa og gamlir að segja upp gömlum flokkum sínum.