Píratar og sósíalistar

Punktar

Af þeim flokkum, sem boða framboð í kosningunum, lízt mér bezt á Pírata. Þeir grunda málin frá grunni, en byggja ekki á pólitískum trúarsetningum til vinstri eða hægri. Ég gæti líka hugsað mér að kjósa Sósíalistaflokkinn. Hann er á réttu róli með vandamálin, en er of bundinn sósíalískum trúarsetningum, þegar kemur að lausnum. Um aðra flokka en þessa tvo hef ég bara þetta að segja: Ekkert er að marka stefnu þeirra. Í raun gera þeir allt annað og helzt þveröfugt. Blautasti draumur þeirra er að hoppa upp í sæng íhaldsins. Þeir hafa allir sýnt fram á það. Einungis Píratar og Sósíalistar eru fríir af þeirri skömm. Píratar eru mitt val.

Uppskrift að helvíti

Punktar

Hafi einhver skapað lífið á jörðinni, er sá hinn sami verulega illgjarn sadisti. Stórir fiskar éta litla fiska, plöntur og dýr hafa sinn stað í fæðukeðjunni. Alls staðar er þjáning. Efst á stalli trónir maðurinn, sem er að sálga jörðinni í græðgi sinni og ofsa. Ekkert af þessu er dýrum eða mönnum að kenna. Þau fæddust inn í þetta helvíti. Þjáningin í heiminum er þá skapara lífsins að kenna. Hann hefur verið illgjarn sadisti eða bara klaufi. Engin ástæða var til að skapa líf á jörðinni með þessum ógeðshætti eins og í tilraunastofu klikkaðs fræðimanns. Miklu ljúfara er að geta sér til, að sköpunin hafi þróazt út um þúfur af sjálfri sér.

Fann Mathús Garðabæjar

Punktar

Fór upp í sveit og fann Mathús Garðabæjar falið að húsabaki með pínulitlu letri á útihurðinni. Nokkuð stór hverfismatstaður, notalegur, ekki ofskreyttur. Fiskur dagsins var þorskur á lágmarksverði í hádeginu, 1.990 krónur, hæfilega eldaður, aðeins of saltur. Nokkuð gott var líka andalæri, mikið steikt. Espresso var hins vegar óþægilega vont. Þarna voru afar og ömmur með barnabörn og slæðingur af verktökum með brilljantín í hárinu. Hingað koma auðvitað engir túristar. Snusaði aðeins og fann enga lykt af Flokknum. Mathúsið er helzt þekkt fyrir bröns um helgar, beikon, pönnukökur og bakkelsi. Steikarhlaðborð á sunnudagskvöldum.

Evran rís og rís

Punktar

Andstæðingar Evrópusambandsins skrifuðu ítrekað á síðustu misserum um fallvalta stöðu evru og vangetu hennar sem gjaldmiðils heillar álfu. Öll misserin hlustaði evran ekki á þessa óskhyggju. Hún hefur raunar hækkað gagnvart sterlingspundi og enn frekar gagnvart dollar. Hið rétta er, að hún er öflugasti gjaldmiðill heims og sá, sem alltaf rís. Þess vegna eru óvinir Evrópu farnir að tala um gengisris sem mikinn harm, er beri að forðast. Segja Íslendinga græða á sigi krónunnar. Samt töpum við öll á sigi krónunnar, allir nema kvótagreifar. Seðlabankinn hefur brennt 700 milljörðum í misheppnuðum tilraunum til að halda krónugenginu niðri. Galið.

Ríkisútvarpið er bezt

Punktar

Blómatími dagblaða á Íslandi var á tveimur áratugum síðustu aldar, þegar tvö dagblöð höfðu dágóðan hagnað. Vetur sótti svo að þeim í byrjun þessarar aldar, þegar internetið þandist út og byrjaði að skafa til sín auglýsingar. Á sama tíma komu hingað gapuxar úr amerískum háskólum og hugðust nútímavæða bisnissinn upp í 20% gróða. Komið var upp eitruðu samstarfi ritstjórna og auglýsingadeilda, sálin hvarf úr dagblöðunum. Þeim fækkaði, sum lögðu niður útgáfudaga og urðu jafnvel vikublöð eða hurfu. Ný blöð supu dauðann úr skel og veraldargengi blaðamanna fór versnandi. Á slíkum ólgutíma er Ríkisútvarpið kjölfesta góðrar blaðamennsku.

Bara Píratar eru öruggir

Punktar

Kosningabaráttan er komin í gang, þótt drjúgt sé til kosninga. Bófaflokkurinn þráir að stjórna borginni eins og landinu. Stælir alþingiskosningar með því að bjóða fram andlit fjárglæframanns. Bjarni Ben stjórnar landinu með aðstoð þægru flokka og Eyþór Arnalds vill stjórna borginni með aðstoð þægra flokka. Hann vill fá að byggja risavaxið á lóðum sínum. Atkvæði greidd framsóknarflokkum á borð við Framsókn og Miðflokk eru í þágu þess. Áratugir sanna það. Komið hefur í ljós, að Viðreisn og Vinstri græn eru líka þægir flokkar. Samfylkingin hefur stundum komið við sögu þægðar á landsvísu. Öruggasta vörnin gegn bófunum er að kjósa Pírata.

Smáflokkar í neti bófa

Punktar

Bófaflokkurinn gæti ekki einn stjórnað landinu með 25% fylgi í þágu 1% greifanna. Hann þarf auðsveipan förunaut, hvenær sem kosið er. Það er vegna förunautanna, að við búum við þjófræði bófaflokksins, eins konar vistarband eða þrælahald á 21. öld. Framsókn og skyldir flokkar, opnir í alla enda, hafa löngum gengt hlutverki förunautsins. Stundum hafa forverar Samfylkingarinnar og hún raunar sjálf hlaupið í skarðið. Nú vantaði þriðja hjólið og Vinstri græn unnu það kapphlaup og una sér vel i faðmi bófa. Áður var þar Viðreisn. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins bíða síns tíma. Píratar eru óháðir sefjandi neti einkavæðingar. Geta sparkað bófunum.

Vaknið þið kjósendur

Punktar

Nú fara að verða síðustu forvöð að ráðast gegn völdum bófaflokksins. Sigríður Andersen fokkar alþingi með að setja ýmsar reglugerðir framhjá lögum og rétti. Fyrsta skrefið í átt að tilskipana-ræði að hætti arfakónga fyrri alda. Hér og þar er reynt að spilla ríkisrekstri með að hlutafélaga hann fyrst og einkavæða síðan. Sjáið spil Isavia í Leifsstöð. Rætt er um að gefa reksturinn í hendur einkavina. Sjáið hegðun Póstsins, ber aðeins út póst annan hvern dag og hækkar burðargjöld. Berið saman ríkisreknar lestir í Frakklandi og einkavæddar lestir í Bretlandi. Þjófræði auðgreifa er óseðjandi og setur okkur öll í klafa. Vaknið þið kjósendur.

Hvenær ertu fullorðinn

Punktar

Er alþingi ákveður að lækka kosningaaldur úr 18 árum í 16 er mér vandi á höndum: Varla getur það versnað, lengi getur vont versnað, Það er vont, en það venst. Við lifum í ógn Sjálfstæðisflokksins og alþingi getur ekki lagað kjör aldraðra og öryrkja og húsnæðislausra. Rokið er í meinlaust mál, sem hefur lítið gildi, og afgreitt á mettíma. Er ekki rétt að hugsa aldurstakmörkin í heild. Áfengisaldur, bílprófsaldur, hjónabandsaldur, skattaldur, sjálfræðisaldur, kosningaaldur. Setja fast, hvenær unglingur verður fullorðinn. Nú veit maður það aldrei. Kannski er það ekki hægt. Mér sýnist þó, að bezt sé að miða mörkin við hjónabandsaldur.

Hér ríkir þjóf-ræði

Punktar

Margir eru hræddir við pírata. Að ástæðulausu. Aðalmál þeirra eru þau, sem lúta að opnun leyndar, opnum fundum, opnu ferli, opnum skjölum. Raunar þau atriði, sem breyta spillingu og þjófræði í lýðræði. Píratar eru ekki hægri eða vinstri að öðru leyti en því, að nú er brýnt að bæta stöðu hinna verst settu. Að því leyti eiga píratar samleið með sósíalistum, þegar samtök launþega hafa rækilega svikið þá fátækustu. Í sumum öðrum málum geta píratar átt samleið með Viðreisn, en þau eru bara ekki eins brýn og afnám stéttaskiptingar. Almenningur þarf að átta sig á, að hér virkar lýðræði ekki. Gömlu flokkarnir halda traustan vörð um þjófræðið.

Hér deyr fólk úr sulti

Punktar

Rúmliggjandi aldraður einstæðingur án ættingja er bara með maltdós og lýsisflösku í ísskápnum. Allt úrtak aldraðra í doktorsrannsókn Berglindar Soffíu Blöndal í næringarfræði reyndist búa við næringarskort. Aldrað fólk tapar tilfinningu fyrir matarþörf og svengd og deyr að lokum úr sulti. Sýnishorn af tillitsleysi bófanna og fjórflokksins í garð gamla fólksins. Það getur étið það, sem úti frýs. Og sofið þar líka. Elliheimili vantar og betri pössun vantar á elliheimilum. Ekki vantar loforðin, þegar líður að kosningum. Þau gleymast síðan hjá þeim við stjórnarmyndun, hvort sem bófaflokkarnir heita Vinstri grænir eða eitthvað annað.

Rústa velferð og innviðum

Punktar

Eftir landsfund bófaflokksins er ljóst, að hann viðurkennir þá einbeittu stefnu að rústa heilsu, húsnæði, vegum og skólum landsins. Í komandi neyðarástandi verði svo óhjákvæmilegt að einkavæða í þessum geirum. Í því skyni vill flokkurinn lækka ríkisútgjöld úr tæplega 50% landsútgjalda í 35%. Einkavæðing hefur víða verið prófuð í nágrannalöndum, alls staðar með skelfilegum kostnaði og lakari þjónustu. Til dæmis lestirnar í Bretlandi. Á leiðarenda blasir við rof á samfélaginu, þar sem hinir ríku borga sig fram fyrir í biðröðum um þjónustu. Til þessa glæps nýtur bófaflokkur þjófræðisins stuðning Framsóknar og svonefndra Vinstri grænna.

Hættulegur fáviti

Punktar

Donald Trump forseti rak Rex Tillerson utanríkisráðherra með tísti á Twitter. Dyr Hvíta hússins eru orðnar hringsnúningsdyr, þar sem skammlífir embættismenn fara út og inn. Trump notar Twitter til að gefa út róttækar tilskipanir meðan menn hans snúast í hringi. Tillerson vildi fylgja fyrri utanríkisstefnu með áherzlu á Nató, sem Trump metur lítils. Honum er líka illa við vestræna ráðamenn, einkum Angelu Merkel, sem hefur lesið honum pistilinn eins og þýzkar mömmur gera. Hins vegar er Trump afar hrifinn af Pútín í Rússíá, sem studdi hann í kosningaslagnum og gerir vestrænum tölvukerfum skráveifu. Trump er fáviti, hættulegur heimsfriði.

Hafður fyrir rangri sök

Punktar

Mér sýnist Pútín í Rússlandi vera hinn versti dólgur, greindur og undirförull með afbrigðum. Efast samt um, að hann sé viðriðinn morðið á úreltum fyrrverandi njósnara í Englandi. Það væri eitthvað svo tilgangslítið. Áður búinn að ná honum í Rússlandi og svo búinn að skila honum í njósnaraskiptum. Meiri trú hef ég á, að brezka uppistandið sé tilbúningur til að friða Íhaldsflokkinn, sem er klofinn í Brexit. Þar er þó tilgangur að baki og Bretar geta vel látið sér detta í hug uppistand af þessu tagi. Engar sannanir hef ég séð um rússneska putta. Pútín hefur mikilvægari hnöppum að hneppa við að tryggja falsaðar kosningar í Rússíá.

Hundrað hveitibrauðsdagar

Punktar

Fátt hefur gerzt á fyrstu hundrað dögum ríkisstjórnarinnar. Hún hefur hvorki birt frumvörp um loforð í stjórnarsáttmála né önnur frumvörp. Umræðan á alþingi hefur verið vandræðaleg, einkum um lögbrot dómsmálaráðherra. Ríkisstjórnin hefur hlaðið skjaldborg um Sigríði Andersen, hækkað laun þingmanna út fyrir alla ramma og varið fjárdrátt Ásmundar Friðrikssonar. Ríkisstjórnin hefur í hundrað daga búið í bönker eins og Hitler. Ræður ekki við gagnrýni, þrátt fyrir stuðning fjölmiðla. Almenningur valtaði yfir hana kruss og þvers á fésbók og bloggi. Velferð er í vaxandi skralli og Katrín er trausti rúin. Kúkurinn hlýtur að springa í loft upp.