Kurteisir við bófa

Punktar

Engum þarf að koma á óvart, að Björt framtíð fer í ríkisstjórn með bófum. Hún hefur aldrei haft neina stefnu af hefðbundnu tagi. Allt frá tíma Guðmundar Steingrímssonar hefur flokkurinn mælt með, að menn hætti að rífast. Verði vinir eins og Dýrin í Hálsaskógi. Forustufólk flokksins hefur lagt áherzlu á að vera kurteist og forðast æsing. Það var alveg eins til í fimm flokka stjórn núverandi stjórnarandstöðu eins og þá hægri stjórn sem varð svo niðurstaðan. Eða í hvaða stjórn sem er. Ég hefði aldrei getað hugsað mér að kjósa svona flokk í því ástandi, sem hér hefur ríkt í aldarþriðjung. Bófar voru og verða við völd. Þeim þarf að sparka út í yztu myrkur. Björt framtíð gerir slíkt aldrei, núll og nix.

Aflendingurinn falsar

Punktar

Bjarni Benediktsson tafði útgáfu Panama-skýrslunnar í næstum fjóra mánuði, því að hún var mjög gagnrýnin á gerðir og aðgerðaleysi Sjálfstæðisflokksins. BB frestaði henni fram yfir kosningar. Og fram yfir viðræður um stjórnarmyndun, svo að hann gæti sjálfur orðið forsætis. Skýrslan gefur hér og þar innsýn í þann bófaflokk, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið síðan fyrir aldamót. Allt frá tíma Davíðs Oddssonar. Þar að auki reyndi Bjarni árangurslaust að falsa útgáfudag skýrslunnar og lét fikta við hana í ráðuneytinu til að fegra skattsvik aflendinga. Nú verður sjálfur aflendingurinn forsætis og brennimerkir þannig verðandi ríkisstjórn.

Um Panama-skýrsluna

Óþægileg kúvending

Punktar

Allir gátu sagt sér fyrirfram, að Viðreisn mundi fara í samstarf með Sjálfstæðis. Ekkert kom þar á óvart nema hvað útibúið var fljótt að hverfa frá aðalstefnumáli sínu, þjóðaratkvæði um viðræður við Evrópusambandið. Þetta er hvort tveggja sama yfirstéttin í þjóðfélaginu. Undarlegra er, hversu auðvelt Björt framtíð á með að kyngja hægri stefnu Sjálfstæðis. Að vísu hefur flokkurinn lítið gert af því að staðsetja sig í pólitík. Talað meira um ný vinnubrögð, rétt eins og píratar hafa gert. Kjósendur flokksins gátu vænzt samhljóms þar á milli. En rennsli Bjartrar framtíðar yfir á hægri kantinn kom mörgum þessara kjósenda óþægilega á óvart.

Skattsvik verðlaunuð

Punktar

Ef ríkisvaldið væri réttlátt, mundi það skattleggja þá tugmilljarða, sem árlega hverfa skattfrjálst úr umferð. Þegar það finnst í skattaskjólum, eru bófarnir hvattir til að koma skattfrjálst með það heim. Í verðlaun fá þeir 20% afslátt af gengi krónunnar. Þannig verða skattsvikarar að hrægömmum, sem kaupa fyrirtæki og íbúðir af hrægammabönkum fyrir slikk. Okra síðan á leiguverði til almennings. Það er með eindæmum, að þjóðin skuli hafa fallizt á þennan margfalda þjófnað. Með því að kjósa þrjá bófaflokka til valda, Sjálfstæðis, Viðreisn og Bjarta framtíð. Oft hefur þjóðin verið í ruglinu í kosningum, en aldrei eins og á þessum vetri.

Simmi fór og Bjarni kom

Punktar

Þegar Sigmundur Davíð varð uppvís að fé í skattaskjóli, mótmæltu tugþúsundir á Austurvelli. Hann varð að segja af sér forsætis. Nú er vitað meira um upphæðir, sem hafðar voru af ríkinu á þennan hátt. Og vitað er, að verðandi forsætis er uppvís að fé í skattaskjóli, svo og öll hans ætt. Við sjáum til, hvað verður um mótmæli og hvort bófinn verður hrakinn úr virðingarsessi. Íslendingar kunna að kvarta og kveina, en gefast jafnan upp í miðjum klíðum. Kom í ljós í kosningum þessa vetrar, þegar Engeyingar hlutu aukinn stuðning til að hafa fé af þjóðinni. Ef skattamál væru hér eins og á Norðurlöndum, hefðum við efni á þeirra velferð.

Rangt gefið í skattaspili

Punktar

Með því að fela 580 milljarða í skattaskjóli plús vexti, eru hafðir af ríkissjóði 115 milljarðar. Þess vegna eru ekki til peningar í velferð. Þess vegna er ekki hægt að hafa húsnæðisvexti sömu og annars staðar. Þess vegna er ekki hægt að koma Landspítalanum og heilsuverndarstöðvum í samt lag. Þess vegna er ekki hægt að greiða öldruðum og öryrkjum sömu hækkanir og öðrum. Undanskotið í skattaskjólum er nógu mikið til að hindra eðlilegt skattfé fyrir þarfir ríkisins. Enda segja vitfirringar nýfrjálshyggjunnar, að skattar séu ofbeldi og að græðgi sé góð. Á þennan hátt var rangt gefið í spilunum, sem lögð voru fram í kosningabaráttunni.

Bjarni Ben veldur fátækt

Punktar

Bjarni Benediktsson lá í fjármálaráðuneytinu í nokkra mánuði á skýrslu nefndar um íslenzkt skattaskjól á aflandseyjum. Eins og orðin tjá, er fé haft í skattaskjóli á aflandseyjum til að koma því undan skatti. Fjármálaráðherra lá á skýrslunni, því þar var fjallað um undandrátt hans sjálfs og hans Engeyinga. Lagðist á skýrsluna, því hann vildi hvorki, að fjallað yrði um falið fé í kosningabaráttu vetrarins né í stjórnarmyndunartilraunum. Skýrslan gefur upp miðgildi, sem segja, að óhreina féð í skattaskjólum nemi 580 milljörðum og að ríkið hafi misst af 115 milljörðum fyrir utan vexti á nokkrum árum. Af þessu stafar fátækt fátæklinga.

Staðreyndavaktir

Punktar

Erlendis hafa verið settar upp staðreyndavaktir til að fylgjast með og segja frá lygi í fréttum og fyrirtækjum á því sviði. Flókin tölvureiknirit eru notuð til að finna villur á sjálfvirkan hátt, án þess að mannshöndin komi nærri. Google og Facebook eru að þróa þessa tækni til að geta sagt notendum, hversu áreiðanlegar heimildir eru. Er þá líka miðað við umrædda frétt, svo og forsögu þess, sem fréttina skrifar og þess fjölmiðils, sem birtir hana. Vissulega má búast við, að upp rísi falskar staðreyndavaktir til að sveigja almenningsálitið að tilteknum hagsmunum. Í heild ætti þó að koma úr þessu betra fréttamat almennings.

115 milljarðar á lausu

Punktar

Óhreint fé Íslendinga í skattaskjólum á aflandseyjum nemur 580 milljörðum. Sú er útkoma nefndar hins opinbera um misnotkun á frjálsum fjármagnsflutningum. Þetta er einkum þrennt, hækkun í hafi, eignastýring erlendis og vanskráðir flutningar peninga. Skattatap ríkissjóðs af þessu braski hefur numið 4,6 milljörðum á ári eða 115 milljörðum alls fyrir utan vexti. Upphæðin er miklu hærri en sem nemur því fé, sem vantar í húsnæði fyrir ungt fólk, heilbrigðismál og í bætt lífskjör aldraðra og öryrkja. Ekki hefur frétzt af neinum tilraunum til að ná inn þessum útistandandi peningum. Varla verður það meðan skúrkarnir sitja í ráðherrastólum.

Ekki er sopið kálið

Punktar

Á fjölmiðlum er vart hægt að sjá nein tilþrif við að grafa upp sjónarmið í stöðu stjórnarmyndunar. Vitað er um ýmsa fýlu meðal þingmanna flokkanna, en fátt um viðhorf almennra flokksmanna. Sennilega finna þeir ekki orð til að lýsa þjáningum sínum á fésbók. Líklega tekst Benedikt Jóhannessyni og Óttarri Proppé að fela sig fyrir blaðamönnum. Slíkt hefur verið tízku í nokkur ár. Hvergi er viðtalið: „Ég kokgleypti allan pakkann“. Dauðaþögnin er einkennislýsing þess, að Viðreisn og Björt framtíð hafa fallið frá öllum helztu málum sínum. Kálið beizka er komið í ausuna og nú gildir að súpa á. Hver verða svo hóstaköstin, þegar kálið er sopið?

Bara stefna Sjálfstæðis

Punktar

Viðreisn og Björt framtíð hafa gefið eftir öll sín helztu stefnumál í viðræðum við Sjálfstæðis um nýja ríkisstjórn. Ekki verður minnzt á framhald viðræðna við Evrópusambandið á kjörtímabilinu. Ekki verður rætt um breytingar á kvótakerfinu, engin uppboð og engin hækkun á auðlindarentu. Benedikt hefur fallizt á óbreytta stefnu gömlu stjórnarinnar og Óttarr þá væntanlega líka. Hugsanlegt er þó, að einstakir flokksmenn þessara meintu breytingaflokka maldi í móinn, þegar til kastanna kemur. Nýja stjórnin hefur bara eins þingmanns meirihluta. En hætt er við, að óbreyttir þingmenn séu allir úr sama lina vaxinu og formenn flokkanna.

Hinsegin markaðssinnar

Punktar

Hvergi geta pólitíkusar rætt af skynsemi um augljós mál. Svonefndir markaðssinnar mega ekki heyra það nefnt, að veiðiheimildir verði leigðar út á frjálsum markaði. Eingöngu píratar heimta það. Aðrir flokkar vilja í mesta lagi tilraunir af því tagi á örfáum prósentum aflans. Svonefndir markaðssinnar geta ekki hugsað sér nein markaðslögmál, vilja eingöngu sjá pilsfald ríkisins. Þar liggja hagsmunir hinna allra ríkustu. Markaðssinnar almennt hata hvers konar frelsi. Klikkað fólk, sem vegsamar stöðugleika og hatar breytingar. Þingmenn Viðreisnar eru þar fremstir í flokki. Við lifum svo sannarlega í Undralandi klikkaðra kjósenda.

Íslenzkur lausagangur

Punktar

Svokölluð einkavæðing er á Íslandi í því formi, að þeim gráðugustu er hleypt inn undir pilsfald ríkisins. Og síðan passað upp á, að eftirlit sé í skötulíki undir forstjórn jólasveina. Þannig kemst Kumbaravogur árum saman upp með að framkvæma engar kröfur Landlæknis. Þannig kemst United Silicon hjá því að hindra útblástur eiturefna, því Umhverfisstofnun gerir ekkert. Allir vita, hvernig eftirlitsleysi hefur verið háttað hjá Matvælastofnun. Engin stofnun tekur að sér að hindra kvótagreifa í að hækka fiskinn í hafi og koma mismuninum fyrir í skattaskjólum. Þúsundir vinna á ýmsum stofnunum, sem hafa það verkefni að láta græðgina í friði.

Píp frá seðlabankastjóra

Punktar

Seðlabankastjóri spyr háðslega, hvaða aðhald eigi að koma í stað hávaxta, þegar þensla sé á eftirspurn eins og núna. Hann bítur sig fast í skólabækurnar, þótt komið hafi í ljós, að flestar tilgátur í hagfræði eru píp. Hvenær hefur tekizt að láta háa vexti tempra eftirspurn á Íslandi? Húsnæðisskortur hefur til dæmis ætíð verið öflugri efnahagsstærð en vextir. Fikt við gengi hefur heldur ekki verið nein efnahagsstærð, aðeins aðferð við að flytja fé frá launafólki til auðgreifa. Aðferð við að draga launahækkanir til baka. Og svo er spurning, hversu lengi er hægt að muldra úrelt píp um aðhald, þegar pólitíkusar hækka sín laun um 40%.

Stjórn fjórflokksins

Punktar

Allt í einu er hægri stjórn ACD flokkanna að detta úr sögunni áður en hún fæðist. Í staðinn er stjórn BDV gamlingjaflokkanna orðin mál dagsins. Í stað þess að díla við nýju hægri flokkana er Sjálfstæðis farinn að díla við gamla óvini í fjórflokki gamla tímans. Ekki er hægt að segja annað en, að snögglega skipti um vindátt í landsmálapólitíkinni. Þingmenn Sjálfstæðis eru misjafnlega ánægðir með samneyti við samkeppnisflokka á hægri væng. Kjósa heldur gamla andstæðinga sem þekktar stærðir um áratugi. Semsagt hægri-vinstri hjónaband. Gamli Davíð fyrirskipaði þetta. Líklega fylgir þó, að puttum Sigmundar Davíðs verði haldið víðs fjarri.