Sterkir menn þjófræðis

Punktar

Sterkir menn Evrópu milli styrjalda og í síðari heimsstyrjöld, voru kommúnistinn Stalín, nazistinn Hitler, fasistinn Mussolini og falangistinn Franco. Þeir voru andstaðan við lýðræðið, en hver með sína stefnu hins sterka manns. Þeir eru löngu dauðir. Eftir stríð var langt tímabil í sósíaldemokratískum anda, 1945-1980. Svo hófst nýfrjálshyggja með vaxandi eignamun á vesturlöndum. Risið hafa nýir sterkir menn, einkum Pútín í Rússlandi, Trump í Bandaríkjunum og Erdoğan í Tyrklandi. Þeir flokkast allir sem þjófræðismenn. Erdoğan er í klúbbi bófaflokka stjórnvalda, með Bjarna Ben, Pútín og Trump. Pólitík þeirra felst í að ræna þjóð sína.

Umskurður verði bannaður

Punktar

Almennt endar réttur eins þar sem réttur annars byrjar. Því höfum við samfélag, er oftast virkar. Taka ber rétt ómálga barna fram yfir rétt foreldra, til dæmis til að halda uppi fornum siðum úr eyðimörkinni. Börn geta ákveðið, þegar þau eru hætt að vera táningar, hvort þau vilji láta umskera sig. Umskurður er líkamleg árás á einstakling, sem ekki getur lagt neitt til málanna. Hér er engin hefð fyrir slíkri árás. Þess vegna er réttmætt að banna umskurð allra barna hér á landi að viðlögðum sektum og fangelsi. Við þurfum ekki að hafa afskipti af hefðum í miðaldaríkjum múslima og gyðinga, en við eigum ekki að hleypa inn glæpahefðum.

Dýrt og vont á Kaffivagninum

Veitingar

Kaffivagninn á Granda var lengi einn af beztu veitingastöðum borgarinnar. Eftir eigendaskiptin í vetur var maturinn fyrst svipaður, enda fyrri eigandi í eldhúsi. Núna í marz hafa orðið mikil umskipti. Fiskur dagsins er ítrekað undarlega eldaður og minnir á bandaríska skyndibitastaði. Forsoðnar kartöflur voru nærri svartar og hrufóttar af grimmri steikingu. Lax og smálúða minntu á djúpsteikta freðfiskbita án eigin fiskbragðs, en þeim mun hastarlegra bragðs af meðfylgjandi sósum. Þar á ofan er Kaffivagninn orðinn dýr, 3000 krónur fiskur dagsins, meðan fiskur dagsins á sumum beztu húsum borgarinnar er ekki enn kominn í 2000 krónur.

Óhæfur montráðherra

Punktar

Utanríkisráðherra getur ekki hagað sér eins og tyrkneski herinn hafi drepið hund á flækingi. Haukur Hilmarsson er íslenzkur ríkisborgari, sem starfaði með grískum og kúrdískum herflokkum í Sýrlandi, þegar her Tyrkja réðst inn í landið. En Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra er önnum kafinn við að reka erindi Brexit-arms brezka Íhaldsflokksins og má ekki vera að sinna íslenzkum hagsmunum í Sýrlandi. Neitaði að hitta aðstandendur Hauks fyrr en eftir nokkurra daga þrýsting. Kom þá í ljós, að ráðuneytið hefur ekkert samband haft við yfirvöld í Tyrklandi til að leita upplýsinga um framvindu málsins og fá líkið afhent. Óhæfur montráðherra.

Ögmundur á villigötum

Punktar

Stríðið í Sýrlandi er flókið. Fjöldamorðinginn Assad er af hópi alawíta, sem eru grein af shia-íslam, er hefur þungamiðju í Íran. Isis er morðhópur róttækra wahabista, sem hafa þungamiðju í Sádi-Arabíu. Ríkiskerfið þar stendur fjárhagslega undir skólum og geðbilun múslima um allan heim. Kúrdar eru þjóð utan bræðravíga múslima, en stefnir að eigin landi á landamærum Sýrlands og Íraks. Þeir eru í andstöðu við geðbilaðan Erdoğan í Tyrklandi. Rússland styður Assad og Bandríkin styðja suma andstæðinga hans. Ísrael hefur þar áhrif. Þarna er fullt af tröllum, en verstur er þó Assad, er varpar eitri á fólk. Ögmundur fer villur vegar í því.

Tæpast rasismi

Punktar

Íslamófóbía er varla rasismi. Andúð á pólitísku íslam fer ekki saman við andúð á öðrum trúarbrögðum eða á öðrum þjóðum. Fólk er almennt andvígt róttækri íslamstrú, því það sér hana valda vanda á Vesturlöndum og ekki aðlagast trúlausu samfélagi vestrænu. Óttinn við íslam er afar sérhæfð útgáfa, sé hún talinn rasismi. Flokkar ramba út úr hefðbundnum kassa á ýmsa vegu. National Front í Frakklandi skiptir um nafn og verður húsum hæfari. Sama er að segja um Aktion í Þýzkalandi. Á Ítalíu ramba margir flokkar. Forza Italia hjá Berlusconi er orðinn svipaður flokkur bófa og Sjálfstæðisflokkurinn, en með enn minna fylgi. Gröf um stöðu flokka eru orðin úrelt og íslamófóbía er ekki lengur marktæk breyta X.

Katrín er hægri græn

Punktar

Almennt skilur fólk ekki Vinstri græn. Enn eru að birtast saknaðarbréf á fésbók. „Ég, sem hélt, að Katrín væri svo góð og klár, að hún mundi redda þessu,“ segir fólk. Greinilegt er, að Vinstri græn voru söfnuður kringum heilaga Katrínu og að þar fer ört fækkandi. Hún er forsætisráðherra bófastjórnar, sem vílar ekki fyrir sér að svíkja kosningaloforð og stjórnarsáttmála kruss og þvers. Í skjóli hennar er tvídæmdur dómsmálaráðherra og sérfræðingur í fjárdrætti. Aðalvinur Katrínar er fjárglæframaðurinn í embætti fjármálaráðherra. En fólk er að átta sig á, að heilög Katrín er hægri græn, svipuð Framsókn og því kjörin til að vera foringi mafíósa.

Ríkisstjórnin nennir ekki

Punktar

Flestir Íslendingar eru í góðum málum. Þeir eru ekki krónískt veikir, eru ekki öryrkjar, ekki gamalmenni og standa ekki andspænis íbúðakaupum, sem þeir ráða ekki við. Þetta fólk er sátt við stöðuna og 35% sætta sig við ríkisstjórn bófaflokks. Gizka má á, að bara 10% séu fátæk, ráði ekki við peningamálin. Þetta eru svo fáir kjósendur, að ríkisstjórnir nenna ekki að sinna þeim. Katrín Jakobsdóttir sagði, að þetta fólk hafi ekki tíma til að bíða. En hún lætur það samt bíða, endalaust. Hún hefur ekki tilfinningu fyrir því, að þetta fólk þjáist. Hér vantar pólitíska sátt um lágmarkslaun, bætur og/eða borgaralaun upp á 400.000 krónur á mánuði.

Kreistum bófana

Punktar

Nú er vissulega kominn tími í góðærinu til að bæta kjör þeirra, sem minnst mega sín. Lágmarksframfærsla er ekki lengur 250.000-300.000 krónur á mánuði, heldur 400.000. Þið eigið bara að viðurkenna það, helvítis aumingjar í ríkisstjórn og stéttasamtökum. Í stað stagbóta á bætur ofan á að greiða öryrkjum og gamlingjum og láglaunafólki 400.000 krónur á mánuði. Vísitölutryggt, punktur og basta. Hvort sem fólk kallar þetta lágmarkskaup eða bætur eða borgaralaun. Alla peningana, sem skortir í þetta, er hægt að herja út úr skattsvikurum, hækkunum í hafi, handhöfum þýfis í skattaskjóli, fjármálaráðherra og öðrum mafíósum í bófaflokkum landsins.

Mörkin hafa verið færð

Punktar

Kosningaúrslitin á Ítalíu sýna, að endurskoða verður flokkun stjórnmálahreyfinga í pópulista og meginstraum. Svipað hafði áður komið í ljós í Þýzkalandi. Ekki er lengur unnt að líta á ítölsku Lega og þýzku Aktion sem óstjórntæka. Óttinn við múslima og íslam er orðinn hluti af meginstraumnum með 20-36% heildarfylgis. Enn síður er hægt að flokka ítalska 5 stjörnu samtökin sem öfgasamtök. Í andrúmslofti Evrópu er orðið frambærilegt að vilja losna við sem flest af hinu nýju flóttafólki frá miðöldum heims íslams. Slæm reynsla er af þessum þjóðflutningum. Aðkomufólkið lagast alls ekki að vestrænu samfélagi, til dæmis hvorki í Danmörku né í Svíþjóð.

Hyggst éta skít í 4 ár

Punktar

Saga ríkisstjórnarinnar er jafnóðum orðin harmsaga Vinstri grænna. Hvert málið rekur annað, sem er andstætt kosningaáróðri þeirra. Katrín Jakobsdóttir forsætis hefur ekki brosað frá áramótum. Í stað víðs og hlýlegs tanngarðs er komið beint strik. Og hrukkur milli augna. Vikulega eru verðhækkanir á þjónustu heilsugæzlu, lyfjum eða öðrum liðum heilbrigðismála. Og svo eru það skandalarnir, nú síðast lögbrot dómsmálaráðherra. Þá segir Katrín, að ekki sé hefð á Íslandi, að ráðherra segi af sér. Hún vill ekki rjúfa illar hefðir, þá vitum við það. Katrín stimplar flokk sinn sem síðbúið íhald, áhugalaust um almenning. VG hyggst éta skít í 4 ár.

Bylting hjá launafólki

Punktar

Alþýðuhreyfingin hefur rofið SALEK-svefn verkalýðsfélaganna. Tvö langstærstu félögin, VR og Efling, hafa komizt í bólgnar hendur starfsfólks. Nú verður farið í að moka skítinn úr stéttarfélögum láglaunafólks. Gylfi Arnbjörnsson verður kvaddur með skömm og skít, eins og hann á skilið, umboðsmaður atvinnurekenda. Listi greifanna fékk bara 519 atkvæði, en listi Sólveigar Önnur Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði og alla fulltrúana kjörna. Þetta eru tímamót hjá launafólki, í fyrsta sinn í sögu Eflingar. Geta mætt brauðmolafræðingum Alþýðusambandsins með fullri reisn. Tíma vaxandi stéttaskiptingar er að ljúka og tími lyftingar láglauna að  hefjast.

Ferðablaðran í jafnvægi

Punktar

Íslenzka ferðablaðran þenst ekki lengur út. Hún er ekki að springa, en er að ná jafnvægi. Tími rosalegrar aukningar er liðinn og stöðnun er framundan. Undan litlu er að kvarta, verðgildi ferðaþjónustu er orðið tvöfalt hærra en verðgildi áls og fiskjar samanlagt. Ekki lítið afrek á örfáum árum. Enn er verið að byggja hótel og kría lán út á framkvæmdir. Sumir munu springa á limminu í stöðnuninni og verða gjaldþrota. Hótel eru þegar komin í sölu á byggingartíma. Breikka þarf bransann og leggja meiri áherzlu á dýra ferðamennsku, svo sem ráðstefnur, hellaskoðun, lyftur í gömlum gígum, skíðamennsku í þyrlum, hveraböð, fiskveiði, útsýnisflug og heilsu.

Hörð vinstri beygja Merkel

Punktar

Stjórnarsáttmáli kristilegra og jafnaðarmanna í Þýzkalandi fjallar að mestu um aukna velferð í landinu, en einnig að leggja háan skatt á peningatilfærslur og á skattaflótta auðhringa. Frankfurt tekur senn við af London sem aðsetur banka eftir Brexit, en ríkisstjórnin verður samt höll undir almenning frekar en auðhringi. Hún er alger andstæða ríkisstjórnar Íslands, sem sleikir rassinn á auðgreifum. Þar sem Þýzkaland er efnahagslegur hornsteinn Evrópu, gerir það sjónarmið velferðar miðlægar í allri Vestur-Evrópu. Þýzkaland er og verður öflugt mótvægi við ruglið úr Trump í Bandaríkjunum. Fer framúr Norðurlöndum í framförum í þágu almennings.

sjá REUTER

Firrt væl í bófum

Punktar

Bófavælið er orðið svo firrt, að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir flokksritari finnur að því í Mogganum, að formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, hafi minnst á, að Bjarni Benediktsson stakk tveimur skýrslum undir stól framyfir kosningar 2016. Í hennar augum er foringi bófanna svo heilagur maður, að bara má lofsyngja hann. Tveir framámenn bófanna hafa einnig kvartað undan hlutdrægni íslenzkra fjölmiðla við eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í aðdraganda kosninganna í lok október á síðasta ári. Ekki tók stofnunin neitt mark á bófavælinu, enda auðséð, að bófaflokkurinn hefur yfirburði í fjölmiðlun og nafnlausum hatursáróðri.