Úthlutið lóðum strax

Punktar

Árið 2013 voru íbúðir í landinu næstum jafn margar og heimili. Skorturinn, sem nú ríkir, er því að mestu nýr. Yfir 6.000 íbúðir skortir nú þegar, og alls 17.000 á næstu tveimur árum. Nokkur hluti íbúða hefur horfið af íbúðamarkaði yfir í leigu til ferðafólks. Nýjar smáíbúðir í Reykjavík eru svo dýrar, að ungt fólk ræður ekki við kaup. Þær hafa líka horfið í túrismann. Vandanum hefur sumpart verið frestað með því að ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum. Hvorki ríkisvaldið né bæjarfélög hafa brugðizt við þessu. Draga þarf úr lóðakostnaði og reglum um íbúðastærðir, framleiða eða flytja inn meira af stöðluðum íbúðum og húsum, úthluta lóðum strax til samtaka fólks, ekki til verktaka.

Katrín lofar og lofar

Punktar

Katrín Jakobsdóttir forsætis hefur lofað Alþýðusambandinu hækkun atvinnuleysisbóta um 50.000 krónur á mánuði. Ennfremur hefur hún lofað að skipa nefndir til að bæta lítinn kost öryrkja og gamlingja. Loforð Katrínar eru einskis virði, einkum þau, sem snúast um nefndir. Loforðunum er ætlað að hjálpa Alþýðusambandinu að halda niðri lífskjörum almennings með Salek-sátt, meðan hinir betur settu fá um og yfir 100.000 krónur á mánuði, þingmenn raunar langt yfir því. Tókst að því leyti, að meirihluti aðildarfélaga ASÍ hljópst undan merkjum fátæklinga. Takist umboðsmönnum auðfélaga að halda völdum í Eflingu, hefur Katrín fullan sigur í stríði sínu við fátæka.

Stórbraskarinn Arnalds

Punktar

Undirlægjuháttur borgarstjóra og formanns skipulagsráðs gagnvart lóðasöfnurum og gróðaverktökum hefur verið til vanza. Ýmis skipulagsslys stórhýsa á þröngum lóðum gamla miðbæjarins eru dæmi um óstjórnina. Litlar íbúðir fyrir lítil efni urðu að rándýrum gistiíbúðum fyrir ferðafólk. Kjósendur geta hins vegar ekki hindrað þetta með því að kjósa Eyþór Arnalds sem borgarstjóra. Hann á lóðir á Granda, Er þar að auki tengdur öflugustu gróðaverktökum borgarinnar, Þingvangi. Eyþór mun að venju bófaflokksins græða milljarða á að verða borgarstjóri hans. Þótt Dagur sé ekki fullkominn. er hann samt Jesús Kristur í samanburði við stórbraskarann Arnalds.

Landspítalinn reddar því

Punktar

Lausagangur og stjórnleysi hafa einkennt samskipti Sjúkratrygginga við einkareknar læknastofur. Þar hefur sumpart verið um að ræða sjálftekt einkarekinna stofa í samkeppni við Landspítalann. Illa framkvæmdar aðgerðir á Klínikinni hafa ennfremur leitt til þungra björgunaraðgerða á Landspítalanum. Landlæknir og Ríkisendurskoðun hafa gagnrýnt þessa sjálftekt, sem felur í sér aukinn heilsukostnað. Forstjóri Sjúkratrygginga hefur þyrlað upp ryki til að dylja eigið frumkvæði að einkavæðingu heilsuleysis. Lög hafa verð túlkuð svo, að einkaskurðstofur þurfi ekki sérleyfi og geti leyft sér að skilja eftir hálfkaraða vinnu og látið Landspítalann redda því.

Ævintýraland í myrkri

Punktar

Lá um helgina í TripAdvisor til að kynnast skoðunum ferðafólks á Íslandi. Samkvæmt því er Wow Air næsti bær við helvíti. Engin þjónusta og engin viðbrögð. Icelandair er hins vegar sómasamlegt flugfélag. Gestum líður almennt vel í landinu, vetur jafnt sem sumar. Fólk elskar myrkur og norðurljós, íshella og lyftu í eldfjalli. Fólk elskar rok og helzt að sjá ekki út úr augum. Ísland er einfaldlega öðruvísi. Fólk fer í dagsferðir um tökustaði Game of Thrones framhaldsþátta ævintýraheims. Fólk elskar að klæðast víkingafötum, þótt hér hafi aldrei verið víkingar. Bezt af öllu eru þó veitingahúsin og eldamennskan. Ætla mætti að hér séu bara listakokkar. Straumur ferðafólks er því ekki að láta undan síga.

Sósíalistar og Píratar

Punktar

Píratar og Sósíalistar gera hvorir tveggja tilkall að atlögu fátæka fólksins að sendipiltum auðgreifa í stéttarfélögum. Sósíalistar eru með atganghörku sinni líklegri til byltingar í samskiptum við auðgreifa. Þeir eru alvöru sósíalistar. Píratar eru hins vegar miðjuflokkur, sem heldur ráðstefnur og þing til að finna og knýja fram gegnsærri opinberri þjónustu og fjármálastofnunum, svo og nýja stjórnarskrá. Þegar Hörður Torfason ákveður að komin sé tími á búsáhaldabyltingu kemst loksins olía á eld uppgjörsins í stéttarfélögunum. Til þess þarf ný andlit í verkföllum og á samningafundum og einlægan stuðning af hálfu Sósíalista og Pírata.

Galin einkavæðing

Punktar

Pósturinn var einkavæddur 2007 til að reisa nýjan Landspítala, sem aldrei var svo reistur. Síðan þá hefur póstþjónustu hrakað mjög og verð hennar hækkað langt umfram verðbólgu. Nú er aðeins borinn út póstur annan hvern dag og verðlagið orðið tvöfalt hærra en verðbólga tímabilsins. Póst- og fjarskiptastofnun hefur lýst áhyggjum vegna þessa og segir að stöðva verði þetta ferli. Íslandspóstur geti ekki áfram hækkað verð á lakari þjónustu villt og galið. En þetta er bara nákvæmlega sama sagan og hjá annarri einkavæðingu grunnkerfisins. Skólar, sjúkrastofnanir og flugvellir hafa orðið fórnardýr einkavæðingar með stórauknum kostnaði almennings.

Andlega veikir táningar

Punktar

Rúmlega 750 unglingar heltust úr námi í framhaldsskóla í haust, þar af 141 vegna andlegra veikinda. Þetta endurspeglar, að erfitt er að lifa á Íslandi. Baráttan fyrir lífinu er hörð. Sumir fara ótímabært að vinna láglaunastörf til að auka lágar heimilistekjur Aðrir verða beinlínis andlega lasnir af tilverunni. Velferðin í landinu er stórlega löskuð eftir harðvítugar auðgreifastjórnir, nú síðast með stuðningi Vinstri grænna. Unglingar geta ekki meira, sál þeirra gefst upp. Þetta er auðvitað þeim fjórðungi að kenna, er enn kýs bófaflokkinn, sem stelur öllu steini léttara. Sú heimska er að verða okkur dýrari en fólk gerir sér grein fyrir.

Landsréttur bófaflokksins

Punktar

Í vestrænum löndum tíðkast ekki, að dómsmálaráðherra hafi afskipti af ráðningu dómara. Í Austur-Evrópu hins vegar reyna fasistastjórnir að sveigja dómstóla undir sinn gráðuga vilja. Hér á landi hafa ráðherrar sett þumalputta sína í ágreining þennan. Svo sem þegar Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson voru skipaðir hæstaréttardómarar og Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari. Af þeim gefnu tilefnum var lögum breytt 2010 til að hindra pólitíska íhlutun af því tagi. Þau lög braut Sigríður Andersen, þegar hún skipaði jólasveina bófaflokksins í nýjan Landsrétt. Einnig telja 72% kjósenda, að fasistanum beri að segja af sér.

Bófar leika lausum hala

Punktar

Viðbjóðurinn vellur daglega um sali alþingis. Steingrímur J. Sigfússon og forsætisnefnd hafa ákveðið að grafa þjófnað Ásmundar Friðrikssonar og Vilhjálms Árnasonar í svartholinu mikla. Nýjar reglur um endurgreiðslu bílakostnaðar taka ekki gildi fyrr en um áramótin síðustu. þær ná því ekki til milljóna reikninga þeirra félaga úr hinu fræga Suðurkjördæmi Árna Johnsen. Í dag kom líka fram, að Bjarni Benediktsson hrópar bravó fyrir sukki ríkisstjórnarinnar með Kaupþings-söluna. „Allt er það eins, liðið hans Sveins“, segir máltækið. Ríkið er undir stjórn gamals bófaflokks, er lítur á trogin sem sjálftöku sín og annarra bófa.

Í skjóli Guðlaugs Þórs

Punktar

Eyþór Arnalds er borgarstjóraefni bófaflokksins í skjóli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis, sem hefur öflugt tengslanet í borginni og lítur á sig sem réttmætan arftaka Bjarna Benediktssonar. Framboðslistinn er laus við fólk, sem ég þekki af verkum þess. Ekki heldur minnist ég neinna afreka Eyþórs á Selfossi, þegar hann var þar oddviti bæjarstjórnar, nema ágreinings við símastaur og mikinn kúk, sem flaut úr holræsum bæjarins og var daglegt sjónvarpsefni á þeim tíma. En hæfileikar skipta litlu hjá bófaflokknum, svo sem sést af andlitum listans í Reykjavík, þetta eru nóboddís af tagi flokks, sem hefur fjórðung þjóðarfylgis út á heimsku kjósenda.

Sátt um bílastokkinn

Punktar

Meirihluti borgarstjórnar er kominn á þá skoðun, að setja þurfi Miklubraut í stokk frá Snorrabraut austur fyrir Kringlumýrarbraut. Er þannig kominn á þá skoðun, að greiða þurfi fyrir umferð bíla eins og annarrar umferðar. Þar með er komin sátt í skipulagsmálum um að leggja niður öfga gegn einkabílum. Nú þarf bara að endurskoða fækkun bílastæða til að umferðarmálin komist í eðlilegan farveg. Ég á þá auðvitað ekki við skipulagsmál almennt. Hverfa þarf einnig frá undirlægjuhætti í samskiptum við ofurfreka verktaka og arkitekta án fegurðarskyns. Hafnartorgið svonefnda verði endastöð í smekkleysu. Þarf ekki að sekta arkitekta fyrir að teikna slík skrímsli?

Trúarofsóknir á börnum

Punktar

Ríkisvaldið hefur tekið að sér að vernda börn fyrir umhverfi sínu, þar á meðal foreldrum með ofstæki í trúarbrögðum. Hvers konar árásir á líkama barna þarf að hindra, sömuleiðis árásir á sál og huga. Þessi verndun þarf að ná til 18 ára aldurs, þegar ungir borgarar eiga að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir, til dæmis um fermingu eða um götun fyrir skartgripi. Nú þegar er bannaður umskurður kynfæra stúlkna. Sama ætti að gilda um umskurð á kynfærum drengja, hann þarf að banna. Réttur barna er æðri trúarofsa foreldra. Aðeins læknar megi skera börn og þá af heilsuástæðum, en ekki trúarlegum. Mannréttindi eru æðri en eldforn trúarbrögð.

Flestir eru þeir siðblindir

Punktar

Flestir þingmenn bófaflokksins eru siðblindir. Verði marglygin Sigríður Andersen svæld út úr spillingarembætti sínu, verður Ási þjófur kannski gerður að dómsmála. Verði hann dæmdur, koma næst til greina Vilhjálmur Árnason með silfurverðlaun fyrir akstur dag og nótt. Eða Páll Magnússon, sem boðað hefur gríðarakstur sinn á þessu kjörtímabili. Þeir eru allir siðblindir eins og fjármálaráðherra, sem fékk afskrifaðar 130 milljarða af Engeyingum eftir hrunið. Venjulegt fólk var þá gert gjaldþrota, en félagar bófaflokksins fengu afskriftir. Meðan 25% kjósenda velja sér slíka rummunga sem þingmenn bófaflokksins, verður þjóðin áfram kúguð í drep.

Öldruð steikingarlykt

Veitingar

Þegar ég gekk inn í Hlemm Mathús, mætti mér öldruð steikarlykt, sem oft fylgir hamborgarastöðum. Þéttur hringur veitingastaða undir þaki á miðri strætóstöð. Klósettið var fínt. Þarna komu borgarbúar til að hittast, hver úr sínum strætó, mest ungt fólk. Þannig séð uppfyllir staðurinn væntingar borgarinnar. Fjárskortur hrjáði ekki gesti, þeir borga hér meira en á fínistöðum borgarinnar. Hamborgari á 2.450 krónur, fiskur vikunnar á 2.600 krónur. Ég rölti hringinn, framhjá útibúi Jómfrúarinnar, þar sem gærdagsálegg var á dönsku smørrebrød, ekki freistandi. Stanzaði á Kröst, þar sem réttur vikunnar, la-la keila og firnagóður humarhali sigldu í fáfengilegri sjávarréttasúpu, 2.600 krónur. Flestir keyptu hamborgara.