Gegnrotið greifagengi

Punktar

Sjáið ráðherrasveit Sjálfstæðisflokksins og þefið, hún stinkar. Aðalráðherrann var afskrifaður í hruninu af 130 milljarða sukki Engeyinga. Meðan skríllinn fær fangelsisdóm fyrir að stela 1200 króna nærum, einu stykki. Utanríkisráðherrann er í London til að peppa upp brezka íhaldið í Brexit. Má ekki vera að því að sinna íslenzkri konu, sem fær legusár af að vera á röngu sjúkrahúsi á Spáni vikum saman. Tveir ráðherrar eru sendisveinar kvótagreifa Samherja og Kaupfélags Skagfirðinga. Litli ráðherrann raðar síðustu atvinnulausu íhalds-lögfræðingum á ríkisjötuna. Þar fyrir utan er þingmaður Suðurlands daga og nætur í akstri að hala sér inn aura.

Hamingja Út í bláinn

Veitingar

Perlan hefur sem veitingahús gengið í endurnýjun lífdaganna. Hefur verið innréttuð upp á nýtt. Kaffihús öðrumegin og veitingahús hinumegin. Matseðillinn er allur nýr og til fyrirmyndar í gæðum og verðlagi. Hádegisverð á þorski er svipað og á öðrum gæðastöðum borgarinnar, 2.500 krónur. Þorskurinn var fyrsta flokks, nákvæmlega rétt eldaður og ljúffengur. Sama er að segja um fiskisúpuna, lax, þorsk, rækjur og hörpuskel á 2.400 krónur. Árum saman hefur Perlan leitað að grunnhugmynd og hún er núna fundin. Þjónustan er gallalaus og útsýnið flestum kunnugt. Efsta hæðin heitir núna Út í bláinn og er eitt af fimm beztu veitingahúsum borgarinnar.

Græðgi Ásmundar

Punktar

Að mati Félags íslenzkra bifreiðaeigenda kostar tvær milljónir að eiga og reka Kia Sportage jeppa á þeim vegalengdum, sem Ásmundur Friðriksson rukkaði alþingi fyrir. Græðgi hans var svo mikil, að hann smurði 2,6 milljónum ofan á kostnað sinn. Allur útlagður kostnaður þingmanna er greiddur af alþingi án þess að spyrja neins. Hinn gráðugi þingmaður hefði getað lagt fram kröfu um tíu stykki af gleraugum. Engir þingmenn kvörtuðu nema Píratar, sem vilja leggja niður þessa sjálftöku siðblindra. Ekkert eftirlit er með þessu, ekkert aðhald. Þingmenn taka bara það fé, sem þá langar í. Þetta er gamla fullveldið, lýðræði Katrínar Jakobs og Bjarna Benedikts.

Hringlað með klukkuna

Punktar

Rök fyrir færslu klukkunnar um einn tíma, kl.8 á morgnana verði kl.7, snúast um, að það sé réttari klukka og þægilegri fyrir skólafólk. Síðara atriðið má leysa með því að láta skólana byrja kl.9 eða kl.10, í stað kl.8. Fyrra atriðið veldur vanda í samskiptum við Vestur-Evrópu, betra er að vera sem næst henni í tíma. Ég tel, að þetta geti komið í stað þess að hringla með klukkuna. Nái umræða um styttingu vinnutíma árangri, má hefja vinnu klukkutíma síðar en nú. Án þess að hringla með klukkuna hjálpar það til að lina þjáningar sums fólks, sem er nánast lamað að morgni dags. Klukkumálið hefur oft verið á dagskrá og jafnan verið ýtt til hliðar.

Biedermann og brennuvargar

Punktar

Lykillinn að komandi ríkidæmi Íslendinga felst í að losna við pólitíska bófaflokkinn, sem áratugum saman hefur stolið öllu steini léttara í landinu. Framsókn, Vinstri græn, Samfylkingin, Viðreisn og Björt framtíð hafa sýnt vilja til að viðhalda dragúldnu stjórnarkerfi drullusokkanna, nú síðast VG. Píratar eru eini flokkurinn, sem vill opna kerfið, svo að kjósendur finni ýldulyktina og hægt sé að stofna nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá. Svo tröllheimskir eru kjósendur, að bara 10% þeirra gefa Pírötum atkvæði sitt. Meðan svo er, verður staðan áfram eins vonlaus og hún er. Brennuvargar eru og verða við stjórnvölinn og Biedermann klórar sér í skallanum.

Bláeygir, hörundljósir, rauðhærðir

Punktar

Þegar ísöldin hopaði fyrir 11.500 árum, flutti bláeygt fólk frá Spáni og Portúgal norður með vesturströnd Evrópu til Norðurlanda. Þúsund árum síðar kom hörundljóst fólk frá Úkraínu um sléttur Rússlands og Finnland til Norðurlanda. Þessir tveir hópar frumbyggja blönduðust. Síðan komu fleiri hópar frá Mið-Evrópu. Loks fyrir þúsund árum fór hluti blöndunnar frá Noregi, blandaðist rauðhærðu fólki frá Bretlandi og Írlandi, og hafnaði á Íslandi. 34 kynslóðir þessa hrærigrautar hafa búið hér síðan. Meðal þess, sem kom frá Úkraínu var hinn hvíti guð Óðinn og Ásatrúarguðir. Bláeygir Vanir voru áður komnir, líklega frá Spáni og Portúgal. Rauðhærð Kristni kom frá Írlandi.

Takk fyrir fésbókina

Punktar

Öfugt við marga notendur fésbókar er reynsla mín góð og batnandi. Almenn málefni eru yfirgnæfandi, kisumyndum hefur snarfækkað. Ef ég hef áhuga á einum málaflokki,  gerist ég áskrifandi. Almenna fréttalínan, sem ég fæ, er þó bezti parturinn. Að vísu tekur meiri tíma að rúlla yfir þetta, kannski klukkutíma á dag. Fólk hefur vanizt að skrifa stuttan texta, það hjálpar. Kári Stefáns er þó enn of langorður fyrir fésbók, Gunnar Smári hefur lært að takmarka sig. Bróðir hans, Sigurjón M. Egilsson, er þrælvanur úr fréttunum. Þeir eru meðal höfunda, sem mest áhrif hafa haft á mig sem blogghöfund og fésbókartröll. Hér er nóg til af góðum og vel sögðum staðreyndum.

Ofstækið er að linast

Punktar

Tryggð ofstækismanna í stjórn Reykjavíkur við óþolandi skipulagshugmyndir eru að byrja að linast. Nú er hætt að tala um brautarteina eða loftlínur rafmagns og einfaldlega talað um hraðferðir strætisvagna. Þá eru oddvitarnir komnir niður á jörðina. Auðvelt er að efla strætó, hjólreiðar og göngur án þess að „tefja fyrir“ bílaumferð eins og áður var lagt til í einu af plöggum ofstækismanna. Ástæðulaust er að kljúfa kjósendur í tvo hópa með því að ráðast gegn einkabílisma. Betra er að efla allar samgöngur og leggja Miklubraut í stokk eða göng á 3 km kafla. Svo þarf líka að ráðast gegn ofstæki í þéttingu byggðar í elztu hverfum borgarinnar.

Byltingartilraun er hafin

Þjóðleiðir

Lægstu taxtar lélegustu stéttarfélaga, t.d. Eflingar, færa launþegum minna en 300 þúsund krónur á mánuði. Sama er að segja um öryrkja og gamlingja. SALEK er bara rugl úr Gylfa Arnbjörnssyni, sendisveini atvinnurekenda. Kominn er tími á byltingu láglaunafólks. Hún er hafin í VR og er að byrja í Eflingu. Vonandi verður gömlu fábjánunum þar kastað út á hafsauga og Sólveig Anna Jónsdóttir og félagar kosin í staðinn. Eðlilegt að bylting byrji hjá þeim mest arðrændu. Sú bylting getur svo færzt yfir á stjórnmálin og eflt fylgi Pírata og Sósíalistaflokksins. Fátækt fólk getur, ef það vill, losað sig við gömlu pólitísku bófaflokkana og brennuvargana.

Grátkórinn hafinn á ný

Punktar

Grátkór kvótagreifa er að nýju hafinn að hætti Kristjáns Ragnarssonar. Forstjóri Samherja er orðinn forsöngvari, Þorsteinn Már Baldvinsson. Í fyrra fengu greifar afslátt hægri stjórnar af auðlindarentu fyrir 882 fyrirtæki. Nú er undirbúinn enn frekari afsláttur á vegum hægri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna hefur forustu um breytinguna. Gervallur Sjálfstæðisflokkurinn styður breytinguna, enda stríðir hún gegn markaðslögmálum. Sjávarútvegurinn hefur um áratugi verið rekinn undir pilsfaldi ríkisins og verður svo enn um sinn. Auðvitað eiga uppboð veiðileyfa að ráða auðlindarentu greifanna.

Katrín er afstæð

Punktar

Katrín Jakobsdóttir treystir sér ekki til að bæta pólitíkina. Hún hefur afstæðar skoðanir, er ekki staðföst. Lítur ekki á, að sitt hlutverk sé að breyta menningu stjórnmálanna. Sættir sig við, að fjárglæframaður, sem fékk 130 milljarða afskrifaða, sé fjármálaráðherra. Sættir sig við, að dómsmálaráðherra, tvídæmd í Hæstarétti, segi eitt í dag og annað á morgun. Hún frestar nýrri stjórnarskrá. Sættir sig við, að tveir ráðherrar séu beinlínis þjónar tveggja kvótagreifa. Hún varðveitir gamla og spillta Ísland, fetar ekki eitt skref í átt til nýja Íslands. Hún er forsætisráðherra ríkisstjórnar, sem þjónar þessu 1%, sem á næstum allar eignir.

Stokkur eða göng

Punktar

Hef í rúman áratug mælt með Miklubraut í stokk, allt frá Landspítala um Lönguhlíð, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut og Grensásveg. Ofan á stokknum má hafa brautir fyrir gangandi fólk og hjólandi, auk gífurlega víðáttumikils svæðis, sem má annað hvort hafa grænt eða til bygginga. Hugsanlega er skynsamlegra að bora en grafa og fara þá dýpra með brautina. Við höfum mikla reynslu af jarðgöngum. Göng trufla heldur ekki umferð ofanjarðar á framkvæmdatímanum. Reisa má bílastæðahús við Landspítalann og Umferðarmiðstöðina. Loks má bora áfram undir Þingholtin og tengja saman Miklubraut og Sæbraut. Þetta er þveröfugt við núverandi skipulagsstefnu.

Tvíverknaður á Miklubraut

Punktar

Árum saman hefur oft verið bent á þægilega lausn á umferðarteppu Miklubrautar við Klambratún og slit á tengingu hennar við Lönguhlíð. Setja Miklubraut í stokk og stækka túnið í þágu gangandi og hjólandi fólks. Í staðinn var brautin lækkuð um einn metra með dýrum grjótveggjum. Nú er þeirri skrítnu framkvæmd lokið. Þá loks segir samgöngustjóri borgarinnar, að eftir nokkrar vikur komi skýrsla um að setja Miklu­braut í stokk milli Kringlu­mýr­ar­braut­ar og Snorra­braut­ar. Af hverju var þá sett stórfé í lækkun brautarinnar á þessum kafla? Það er tvíverknaður, sem léttir umferðina ekki neitt. Í samgöngum höfuðborgarinnar virðist skorta verksvit.

Sigríður óðamála

Punktar

Til hvers boðaði Sigríður Andersen til blaðamannafundar í ráðuneytinu á föstudag? Ekki sagði hún þar af sér eins og vænzt var. Í staðinn talaði hún út og suður um stofnanir á vegum ráðuneytisins, einkum lögreglunnar. Slíkt hefur ekki verið vaninn hér á landi, en er út af fyrir sig gott, ef það verður vaninn. Hún fjallaði um vanda lögreglunnar og sagði hana vera að rannsaka sín mál. Ekki fjallaði hún um tengsl kynferðisbrotamanna við Sjálfstæðisflokkinn og aðgerðir flokkseigenda til að náða þá verstu. Að lokum kom svo að niðurlaginu, að hún mundi játa syndir sínar og segja af sér. En þá þakkaði hún bara áheyrnina og skundaði til stólsins mjúka.

Skiptir ótt og títt um sverð

Punktar

Sigríður Andersen gefst ekki upp á vígvelli sínum fyrir framhaldi á ráðherradómi. Beitir nýjum sverðum í stað þeirra, sem bognað hafa eða brotnað. Nú er það orðið karlremba karlaveldis að krefjast afsagnar. Fyrir utan það séu afglöp hennar sjálfu alþingi um að kenna. Hún segist vera sérfræðingur í málinu og geta sjálf veitt sér sína sérfræðiaðstoð. Þarf ekki á neinum hæstarétti að halda til að efast um hæfni sína til að veita sér sjálfri sérfræðiaðstoð. Hún segist þjást af einelti af hálfu andmælenda á alþingi. Vörn hennar verður því hetjulegri sem hún finnur fleira nýjabrum til að halda stöðunni sem hornsteinn þrískiptingar ríkisvaldsins.