Pakkað í Hæstarétt

Greinar

Enn er verið að pakka í Hæstarétt. Um daginn var frændi Hertogans valinn fram yfir aðra umsækjendur, sem allir voru hæfari en frændinn. Nú á að ráða spilavin Hertogans fram yfir aðra umsækjendur, sem Hæstiréttur telur flesta hæfara en spilavininn. Frændi Hertogans skilaði auðvitað séráliti.

Í langvinnri tíð þessarar ríkisstjórnar hafa pólitískar skipanir færzt í vöxt. Eindregnar er pakkað í Hæstarétt, Ríkisútvarpið, Símann og aðrar stofnanir ríkisins en áður þótti sæma. Hæfileikar skipta minna máli, enda gerast nú opinber klögumál annarra umsækjenda tíðari en áður var.

Sem dæmi um aukna spillingu ríkisstjórnarinnar má nefna, að nú nægir ráðherrum ekki að hafa sérstaklega ráðna pólitíska aðstoðarmenn sér á hægri hönd í ráðuneytunum, heldur þykjast þeir líka vilja velja sér pólitíska ráðuneytisstjóra. Þeir draga þannig úr gildi embættismannakerfisins sem kjölfestu.

Með hverju árinu sem líður eykst þessi tegund spillingar núverandi ríkisstjórnar. Forsendan er auðvitað, að oddamenn hennar telja sig hafa reynslu fyrir, að kjósendur láti sig hana litlu varða eða hafi gleymt henni, þegar kemur að næstu kosningum. Landsfeður okkar telja spillinguna vera ókeypis.

Björn Bjarnason er dæmigerður flokksjálkur, sem lét sér ekki bregða við að skipa óhæfan frænda Hertogans í Hæstarétt. Geir Haarde hefur ekki enn fengið eins eindreginn stimpil flokksjálks, en flestir veðja þó á, að hann taki spilafélaga Hertogans fram yfir þá, sem fagmenn hafa talið vera hæfari.

Spilafélaginn er umdeildur sérvitringur í þjóðfélaginu, sem þekktastur er fyrir skemmtilegar greinar, sem hann skrifar til stuðnings Hertoganum, hvenær sem einhver andmælir stjórnsýslu hans og gerðum. Þá hefur hann skrifað mikið af hlutlausum lögfræðiálitum, sem þjóna alveg sama tilgangi.

Flestir telja við hæfi, að spilafélaginn haldi áfram að skrifa í Morgunblaðið og skila hlutlausum lögfræðiálitum, hvenær sem Hertoginn þarf á því að halda. Komið hefur í ljós, að umdeildara er, hvort skynsamlegt sé, að hæfni hans í þrætubókarlist eigi beint erindi í dóma Hæstaréttar.

Flest bendir til, að kjósendur sætti sig við, að núverandi stjórnarsamstarf verði langvinnt, kosningar eftir kosningar. Jafnframt sætti þeir sig við, að smám saman dofni tilfinning ríkisstjórnarinnar fyrir leikreglum, sem gilda umhverfis hið sérstæða Íslands. Við verðum smám saman suðuramerískt ríki.

Við erum komin áleiðis. Síminn kaupir sjónvarpsstöð fyrir Hertogann, Hannes Hólmsteinn selur sjónvarpinu raðir af lélegum syrpum. Hæstiréttur verður einlitur á næsta kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV