Palli er einn í heiminum

Greinar

Bandaríkin hafa siglt hraðbyri frá Evrópu á því hálfa ári, sem liðið er frá valdatöku George W. Bush forseta. Stjórn hans fer í vaxandi mæli fram eins og Palli, sem var einn í heiminum. Hún hefur þegar hafnað sex fjölþjóðasamningum, sem Evrópa styður eindregið.

Ráðamenn í Evrópu kvarta um, að samráð af hálfu Bandaríkjanna hafi lagzt niður við valdatöku Bush. Hann tilkynni einhliða, hvað hann hyggist gera og leyfi aðstoðarmönnum sínum að fara opinberlega háðulegum orðum um sjónarmið, sem fulltrúar Evrópu halda á lofti.

Bandaríkin vilja ekki stríðsglæpadómstól, af því að hann kynni að ákæra bandaríska ríkisborgara. Þau vilja ekki aðgerðir gegn loftmengun, af því að þær skerða svigrúm bandarískra olíufélaga. Þau vilja ekki bann við jarðsprengjum og eiturefnum vegna hagsmuna hersins.

Þetta er ekki gamla einangrunarstefnan, sem ríkti í Bandaríkjunum fram undir fyrri heimsstyrjöld og var síðan endurvakin eftir hana, er Bandaríkin vildu ekki taka þátt í Þjóðabandalaginu, sem þeirra eigin forseti hafði efnt til. Þetta er ný og einhliða heimsvaldastefna.

Bandarískir kjósendur hafa lítinn áhuga á kveinstöfum frá Evrópu. Hin nýja og einhliða heimsvaldastefna nýtur stuðnings heima fyrir, þótt menn skirrist enn við að taka orðið sér í munn. Bandaríkin telja sig einfaldlega vera himnaríki, sem sé hafið yfir fjölþjóðasamninga.

Hin nýja Bandaríkjastjórn styðst við gamlar upplýsingar um, að Evrópa sé lélegur bandamaður, af því að þar sé hver höndin upp á móti annarri, þegar til kastanna komi. Þetta er ekki lengur fyllilega rétt, því að Evrópa hefur fetað sig varlega í átt til aukinnar samræmingar.

Enn er Evrópa hernaðarlegur dvergur, sem getur ekki tekið til hendinni í eigin bakgarði á Balkanskaga án þess að hafa Bandaríkin með í spilinu. En það spillir líka metnaði og getu Bandaríkjanna sem heimsveldis að vilja alls ekki sjá blóð hermanna sinna í sjónvarpi.

Bandaríkin geta ekki stjórnað heiminum með ógnunum úr lofti. Þau verða að lokum að heyja styrjaldir sínar á jörðu niðri, þar sem blóð rennur óhjákvæmilega. Þau munu seint og um síðir átta sig á, að það kostar eigin mannslíf að reka heimsvaldastefnu forsetans.

Efnahagslega hafa Bandaríkin ekki forustu um þessar mundir, því að Evrópa er orðin stærri eining og vex örlitlu hraðar en Bandaríkin. Því væri skynsamlegt fyrir Bandaríkin að vera í góðu samstarfi við Evrópu og taka tillit til ýmissa sjónarmiða, sem þar ríkja.

Slíkt gerðu allir forsetar Bandaríkjanna á síðustu áratugum, þar á meðal faðir núverandi forseta. Nýja, einhliða heimsvaldastefnan í Bandaríkjunum er róttækt fráhvarf frá þeirri stefnu og virðist helzt hugsuð sem leið til að afla forsetanum vinsælda bandarískra sérstöðusinna.

Sennilegt er, að vikið verði frá þessari stefnu eftir fjögur ár, þegar nýr forseti tekur við. Ekki er víst, að samskipti Evrópu og Bandaríkjanna skaðist varanlega, þegar litið er til lengri tíma, til dæmis til áratugarins í heild. En skammtímaáhrifin eru óneitanlega óhagstæð.

Nýlegar skoðanakannanir um gervalla Evrópu sýna mikla og eindregna andstöðu evrópskra kjósenda við Bush Bandaríkjaforseta og mörg helztu stefnumið hans. Þær hvetja ráðamenn í Evrópu til að stinga við fótum og hindra framgang heimsvaldastefnunnar.

Meðan Palli er einn í heiminum á forsetastóli Bandaríkjanna verða erfið samskiptin yfir Atlantshafið, þar á meðal fyrir þjóðir, sem vanar eru að tvístíga.

Jónas Kristjánsson

DV