Enn einu sinni er það Alþýðubandalagið, sem stendur í vegi íslenzkra efnahagsframfara. Nú er það Hjörleifur Guttormsson orkuráðherra, sem þvælist fyrir aukinni orkunýtingu og auknum orkufrekum iðnaði, – að gömlum sið Alþýðubandalagsins.
Ekki virðist vera hægt að virkja neitt að gagni á næstu árum, af því að Hjörleifur hefur látið undir höfuð leggjast að finna kaupendur að orkunni. Hornsteinn orkubúskaparins hefur setið á hakanum í valdatíð hans, – enda er stóriðja bannorð.
Stóriðjukosturinn, sem tæki stytztan tíma og gæti brúað bil næstu ára, er tvöföldun álversins eða málmblendiversins. Ekki er kunnugt, að Hjörleifur hafi efnt til samninga um slíkt, – heldur kastað skít í álverið.
Ef skynsamlegir samningar næðust við annan hvorn aðilann, væri hægt að hefja framkvæmdir við Blöndu, Fljótsdal eða Sultartanga með það fyrir augum að ljúka fyrsta orkuverinu á þremur árum, – frá því að ákvörðun verður tekin.
Aðrir kostir tækju lengri tíma, að minnsta kosti fimm ár. Þeir felast helzt í meiru af svipuðu, það er að segja nýju álveri og kísilmálmveri, til dæmis á Reyðarfirði. Ekki er hægt að sjá, að Hjörleifur hafi gert neitt til þess.
Ef gengið væri af fullum krafti í að finna aðila til samstarfs um stóriðju á Reyðarfirði, væri hægt að gera ráð fyrir, að önnur hinna fyrirhuguðu stórvirkjana yrði komin í gagnið eftir sex ár, – þremur árum á eftir hinni fyrstu.
Með eðlilegri stefnu væri síðan hægt að feta áfram, halda stöðugri atvinnu við smíði orkuvera og opna nýja stórvirkjun á þriggja ára fresti. Það þýddi heldur minni fjárfestingu á ári en verið hefur að undanförnu, – og getur ekki talizt mikið.
Við þurfum ekki aðeins aukinn orkufrekan iðnað til að auka fjölbreytni atvinnulífsins og fjölga hálaunagreinum. Við þurfum líka innlenda eldsneytisframleiðslu til að draga úr kaupum á ört hækkandi erlendu eldsneyti, – og það kostar mikla orku.
Ekkert ætti að vera neinu þessu til fyrirstöðu. Íslenzk orka er samkeppnishæf. Við eigum að geta fundið aðila til samstarfs, jafnvel þótt við viljum sjálf eiga meirihluta í stóriðjunni og raunveruleg yfirráð hennar.
Ekki er upplýst, að neitt hafi verið gert til að ná markaðs-, fjármagns- og tæknisamstarfi við erlenda aðila. Ekki hefur einu sinni verið svarað tilboði Ísals um íslenzka eignaraðild, heldur dylgjað óstaðfest um þjófnað af þess hálfu.
Hjörleifur er sennilega sannfærður um, að útlendir menn séu stórhættulegir glæpamenn, sérstaklega, ef þeir reka svokölluð fjölþjóðleg fyrirtæki. En það þýðir lítið að gaspra um virkjanir, – nema menn þori að semja.
Sem betur fer er ólíklegt, að Hjörleifur geti setið lengi á eldfjallinu. Senn líður að því, að fimm stórvirkjanir verða tilbúnar á teikniborðinu, tvær til viðbótar við þær þrjár, er hafa komið til greina sem fyrsti kostur.
Heimamenn á Austfjörðum heimta stórvirkjun og stóriðju. Hjörleifur getur ekki endalaust linað þær óskir með pappírsframleiðslu. Einhvern tíma kemur að því, að hann verður að lyfta höfðinu úr sandinum og horfa framan í útlendinga.
Vonandi þurfum við ekki að bíða eftir nýjum orkuráðherra, sem skilur, að orkustefna felst ekki aðeins í orkuverum á pappír, heldur í öflun markaða, tækni og annarra skilyrða þess, að pappírsdraumar verði að veruleika úr steypu og stáli.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið