Paradísarstefnan.

Greinar

Að ýmsu leyti er gott að vera fámenn þjóð í Atlantshafinu, miðja vega milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, – hafa gott samstarf í báðar áttir án þess að axla ýmsar byrðar, sem fylgja stórríkjum og efnahagsbandalögum.

Frægasta dæmið um þetta er flugævintýri Loftleiða, sem gátu hliðrað sér hjá alþjóðlegu flugfélagasamtökunum IATA og eigi að síður rekið flug yfir hafið upp á eigin býti. Um tíma var þetta meginþáttur í þjóðarbúskapnum.

Við höfum ágætt viðskiptasamstarf við Efnahagsbandalag Evrópu án þess að afsala hluta af fullveldi okkar. Þess vegna getum við sjálfir veitt í fiskveiðilögsögunni án þess að veita bandalaginu veiðileyfi eða íhlutunarrétt.

Mörg dæmi eru um, að smáríki komast upp með hluti, sem burðarásar heimsviðskiptanna gætu ekki. Sum gefa út frímerki í stríðum straumum. Önnur gefa fjölþjóðafyrirtækjum kost á lágum sköttum, ef þau taka sér þar heimilisfang.

Til eru smáríki, sem reka miklar fríhafnir eða eru sjálf ein allsherjar fríhöfn. Einnig smáríki, er soga til sín gjaldeyri, sem er að leita að öruggum hvíldarstað, í friði fyrir gráðugum greipum ríkisstjórna í fjarlægum löndum.

Engin utanaðkomandi atriði ættu að vera því til fyrirstöðu, að Íslendingar notfærðu sér einhverja af þessum möguleikum. Hvorki í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku mundu stjórnvöld telja rétt að reyna að setja okkur stólinn fyrir dyrnar.

Helzta skilyrðið er, að hér heima sé útbreitt og varanlegt samkomulag um stefnuna. Hinir erlendu aðilar mundu vilja geta treyst því, að skyndileg stefnubreyting spillti ekki þeirri stöðu, sem þeir voru að sækjast eftir.

Svisslendingum er treyst, af því að þeir eru íhaldssamir, hvort sem þeir eru til vinstri eða hægri. Þar koma ríkisstjórnir og fara, án þess að nokkur taki eftir breytingu. Þannig er ástandið líka í skattaparadísinni Lichtenstein.

Hér á landi er of mikill hávaði í stjórnmálum, þótt ríkisstjórnir séu hver annarri líkar. Hætt er við, að öfundsýki í garð erlendra fyrirtækja og erlends fjármagns sé að sinni meiri en svo, að við getum lært af Sviss og Lichtenstein.

Við gerumst ekki paradís fyrir peninga, heimilisföng fyrirtækja, vörubirgðir og fríhafnariðnað, nema við bægjum frá okkur öfundsýki og hugarfari eignaupptöku. Viðskiptavinir okkar verða að geta treyst því að paradísin sé varanleg.

Ef fyrr eða síðar kemur í ljós, að við séum undir það búin að feta sumar brautir annarra smáþjóða, er nauðsynlegt að vanda vel til verka. Meðal annars er nauðsynlegt að þiggja ráðgjöf frá löndum, sem hafa langa reynslu.

Seðlabankinn er kjörin stofnun til að stjórna skattlausum og vaxtalausum gjaldeyrisreikningum erlendra aðila. Þar á bæ er til þekking á alþjóðlegum fjármálum og alþjóðlegum bankarekstri, sem að öðru leyti er of lítill hér á landi.

Fjármálaráðuneytið mætti gjarna senda menn til Lichtenstein til að læra, hvernig lágir skattar eru notaðir til að ná í fyrirtæki, sem annars mundu greiða skatta í öðrum löndum. Og einnig senda menn til Hong Kong til að læra á fríhafnir.

Ef við vildum, gætum við sett upp fríhöfn við Keflavíkurflugvöll, Straumsvík, Grundartanga og við væntanlega stóriðju á Reyðarfirði. Á ýmsum sviðum getum við orðið paradís í Atlantshafi, af því að við erum nógu litlir og nógu fjarlægir til að ráða okkur sjálfir.

Jónas Kristjánsson.

DV