Parísarframleitt skrímsli

Greinar

Hörmungar Rúandamanna ætla engan enda að taka. Fyrst voru fjöldamorð í landinu sjálfu fyrr í sumar; síðan flóttamannastraumur til nágrannalandanna og stjórn glæpamanna á flóttamannabúðunum þar; og loks er komið í veg fyrir, að fólk snúi aftur til síns heima.

Þeir, sem bera ábyrgð á morðum á 500.000 manns í Rúanda, stjórna nú milljón manns í flóttamannabúðum nágrannaríkjanna. Þeir stjórna matargjöfum og annarri hjálp. Þeir nota aðstöðuna til að halda völdum í búðunum og til að koma í veg fyrir að fólkið snúi við.

Fólk féll áður fyrir sveðjum og bareflum, en nú fyrir hungri og sjúkdómum. Hjálparstofnanir ná ekki tökum á stöðunni, af því að skipuleggjendur og framkvæmdastjórar hryllingsins koma í veg fyrir það. Morðingjar njóta hjálparstarfsins, en almenningur mætir afgangi.

Fjölmiðlamenn fyrri ríkisstjórnar Rúanda stjórnuðu fjöldamorðunum með sífelldum hvatningum í útvarpi. Þeir stjórna nú ótta flóttamanna á sama hátt, með útvarpi. Þeir hvetja Hútumenn til að flýja land og hvetja þá til að fara ekki til baka úr flóttamannabúðunum.

Það var Mitterrand Frakklandsforseti og franskir embættismenn, sem framleiddu þetta skrímsli í Afríku. Þeir hindruðu fyrir nokkrum árum valdatöku siðaðra manna í Rúanda og bjuggu til ríkisstjórn og lífvarðasveitir, sem nú hafa staðið fyrir blóðbaðinu í landinu.

Frönsk stjórnvöld höfðust ekki að, meðan ríkisstjórnin og lífvörðurinn létu drepa hálfa milljón manns. Það var ekki fyrr en uppreisnarmenn voru farnir að hrekja lífvörð og stjórnarher á flótta, að Frakkar komu á vettvang til að hindra, að ósigur skrímslisins yrði alger.

Frakkar komu upp verndarsvæði í suðvesturhorni landsins, þar sem umbjóðendur þeirra fengu griðland. Þaðan hafa þeir getað útvarpað hvatningum til fólks að flýja land og snúa ekki til baka úr flóttamannabúðunum. Allur er þessi ljóti leikur á franskri ábyrgð.

Frakkar hafa haft forustu um að haga málum á þann veg, að vestrænt hjálparstarf er ekki rekið frá höfuðborg Rúanda, þar sem ný og fremur siðuð stjórn hefur tekið við völdum, heldur á vegum fjöldamorðingjanna, sem ráða ríkjum í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum.

Gott væri, ef Sameinuðu þjóðirnar mönnuðu sig upp í að taka málin úr höndum Mitterrands og franskra embættismanna. Styðja þarf við bakið á nýju stjórninni í Rúanda og einnig senda eftirlitsmenn til að sjá um, að hún efni loforð um að hefna ekki fyrir fjöldamorðin.

Sameinuðu þjóðunum ber að sjá um, að hjálparstarf sé rekið framhjá valdsviði fjöldamorðingjanna í flóttamannabúðunum og á verndarsvæðinu. Ennfremur ber þeim að styðja nýju stjórnina við að koma upp dómstóli, sem komi lögum yfir morðingja og stjórnendur þeirra.

Aðstoð Sameinuðu þjóðanna við stríðsglæparéttarhöld mun stuðla eindregið að heilbrigðu uppgjöri Rúandabúa við fjöldamorðingjana innan ramma laga og réttar og draga úr líkum á, að þeir, sem hafa um sárt að binda, taki í staðinn lögin í eigin hendur og hefni sín grimmilega.

Athyglisvert er, að nýja stjórnin í Rúanda og hermenn hennar hafa í stórum dráttum forðazt hefndaraðgerðir og annað atferli, sem geti dregið úr trausti flóttamanna á eðlilegum móttökum í heimahögum. Nýja stjórnin á að njóta þess, að hún hegðar sér fremur siðlega.

Athylgisverðast er þó, að endastöð ábyrgðarinnar á hörmungunum í Rúanda er í hjarta Evrópu, í París, hjá forseta Frakklands og frönskum embættismönnum.

Jónas Kristjánsson

DV