Pasta Basta hefur notað vinsældir sínar til að klifra upp verðlistann og er núna orðið eitt af dýru veitingahúsunum. Þríréttað með kaffi kostar tæpar 3.400 krónur. Þótt pasta verði fyrir valinu, fer verðið í 3.200 krónur. Framhjá háa verðinu má komast með því að taka tilboði dagsins á 2.380 krónur, en þá er ekkert val milli rétta. Hlaðborð í hádeginu er hins vegar ódýrt, þrjú pöstu, hrísgrjónaréttur, salat, súpa og brauð á 790 krónur.
Matreiðslan var yfirleitt góð og pastað búið til á staðnum. Nóg fékkst af volgum brauðkollum með smjöri og frjáls aðgangur var að klementínum í skál. Þjónusta var góð, sumpart ítölsk. Úrval ítalskra vína árgangamerktra er á seðlinum, aðallega Chianti og fleiri Toskaníuvín. Í sumum tilvikum er hægt að velja milli tveggja árganga af sama merki. Þrátt fyrir hátt verðlag eru munnþurrkur ekki úr líni.
Gamli kjallarinn framan við opið eldhúsið er notalegasti hluti staðarins. Nýtízkulegur og kuldalegur er glerskálinn uppi á palli fyrir innan. Lakast er að vera í tjaldi, sem er að baki glerskálans og notað um helgar. Í gamla kjallaranum er hvítmálað timburloft, minjagripakraðak á vegghillum ofan við litla glugga, smámyndir, magaorgel og ítölsk landakort á veggjum. Þetta er barnavænn staður, sem býður upp á liti og pappír.
Forréttirnir reyndust bezt. Góðir voru stórir og beikonvafðir sveppahattar á salati, fylltir hvítlaukssmjöri og meyrum sniglum. Kryddlegnar nautakjötsþynnur carpaccio voru góðar, með áberandi bragði af grana-osti, en litlu af boðuðu jarðsveppa-safabragði. Polenta-maísgrautur var góður, með miklu af fínum porcini-sveppum smjörsteiktum.
Lakari var hvítlauksristað sjávarmeti á brakandi hrásalati, hörpufiskur og humar góður, rækjur litlar og bragðdaufar og kræklingur í skelinni þurr og vondur, sumpart skemmdur. Minestrone súpa hússins var afar bragðsterk tómatsúpa með grjóthörðum brauðteningum.
Fiskréttir voru misjafnir, sósur þeirra sumpart yfirgnæfandi og meðlætið að mestu staðlað, kartöfluflögur undir bræddum osti, spínat og maísgrautur. Grilluð Klausturbleikja var hæfilega elduð og safarík, með góðri hvítlaukssósu, en ekki fann ég reyktan hvítlauk, sem boðaður var. Gufusoðinn sólkoli var einnig hæfilega eldaður, á kafi í grana-ostasósu og með blönduðu tómatmauki. Fiskifantasía fólst í ofeldaðri bleikju, smálúðu og skötusel í mikilli tómatsósu.
Í samræmi við heiti staðarins var pasta afar fjölbreytt og undantekningarlaust gott, enda mótað á staðnum. Sedani pastarör voru með miklu af kjúklingakjöti, sveppum og tómötum. Súkkulaðiterta hússins var þétt og góð. Tiramisu ostakaka var ekta feneysk og ekki lagskipt, hin bezta í bænum. Kaffið var að sjálfsögðu ítalskt og indælt.
Jónas Kristjánsson
DV