Pasta Basta

Veitingar

Meyr smokkfiskbelgur fylltur mildri krabbakjötsblöndu og síðan sneiddur, borinn fram á undurljúfum risotto-hrísgrjónagraut, var dæmi um góð tilþrif í eldhúsi Pasta Basta við Klapparstíg. Annað dæmi var einfalt og ljúft risotto með gráðostssnerpu í bragði, borið fram með fallegri salatskreytingu.

Hrísgrjón mynda samt ekki einkennisrétti staðarins, heldur óteljandi tilbrigði af góðum pöstum sem lagaðar eru á staðnum. Sedani-pastarör voru skemmtilega hóflega soðin upp á ítölsku, með bragðsterkum kryddpylsubitum, papriku, sveppum og vorlauk í óhóflega mikilli ólífuolíu.

Pastahrósið nær ekki til 890 króna hlaðborðsins í hádeginu, sem byggist á ferns konar köldum pöstum með blönduðum sjávarréttum, með túnfiski, tómati og rauðlauk, með kjúklingum og sveppum og með kryddlegnu hrásalati. Betra var að halla sér að fersku og skrautlegu blaðsalati með balsam-olíusósu og hlutlausu fiski-risotto með parmiggiano-osti. Hlaðborðinu fylgdi líka tær tómatsúpa, sérkennilega og skemmtilega skarpt krydduð með blóðbergi, basilikum og estragon.

Þríréttað tilboð dagsins kostar 2.380 krónur. Það fól í sér áðurnefnt gráðosts-risotto á undan og þrenns konar ís í stökkri pönnuköku með berjasósu á eftir. Aðalréttur þess var hunangsgljáð kjúklingabringa, of mikið elduð og ekki nógu meyr, borin fram ofan á ómerkilegum bauna- og grænmetisgraut, fljótandi á miklu magni af brúnni sósu og með skúffusteiktum kartöfluþynnum og einföldu hrásalati á hliðardiski.

Snöggsteikt hörpuskel var meyr, borin fram á afar ljúfu sítrónu- og hunangs-risotto. Kryddlegið nautafillet á salati, með furuhnetum og hindberja-ediksolíu, var tæpast nógu mikið legið, borið fram með fallegri salatskreytingu. Feneysk ostakaka skúffulöguð var góð að venju, en borin fram með miklu magni af óþarfri súkkulaðisósu volgri. Franskar vatnsdeigsbollur profiteroles með vanillukremi og sömu volgu súkkulaðisósunni voru þær beztu, sem ég hef fengið í bænum.

Fyrir mat er boðið ágætt og volgt brauð, bakað á staðnum. Snöggtum lakara var harðristað hvítlauksbrauð. Réttir af fastaseðli eru yfirleitt dýrir, pöstu á 1520 krónur og þríréttað með kaffi á 3.610 krónur. Þrátt fyrir verðlagið eru notaðir afgangar af mislitum og and-ítölskum pappírsþurrkum úr barnaboðum. Lítt skólað þjónustufólk er sumt hvert of uppáþrengjandi, truflar samræður gesta með sífelldri spurningu um hvernig maturinn sé.

Umgerð staðarins hefur lítið breytzt. Fremst er þröngur, groddalegur og notalegur kjallari framan við opið eldhús, með messingi milli bása, landakortum í stað veggfóðurs, ýmsu rusli til skrauts á veggjum og nýlegum örljósum í lofti. Inn af er glerskáli sem orðinn er notalegur síðan gróðurhafið náði sér upp. Innst er svo tjaldskáli sem tekur við reykingafólki, sjálfhverfum leiklistarspírum og öðru yfirfalli staðarins.

Jónas Kristjánsson

DV