Ég mætti ekki bíl á þjóðleiðinni milli Kópaskers og Raufarhafnar. Ég var einn í heiminum. Á stangli sá ég yfirgefin bæjarhús og engar kindur. Ég fór fram og aftur um Raufarhöfn áður en ég fann vel falda benzínstöð, sjálfsafgreiðslu. Búðin var líka vandfundin, en var þó opin á sunnudegi og bauð tveggja daga gamalt Fréttablað. Eina konu sá ég á gangi. Að öðru leyti minnti þetta á dauðan gullgrafarabæ. Eina blokk sá ég, að mestu leyti auða. Að hætti norðursýslunnar eru húshorn í sérlit. Í Öxarfirði eru þau dökk, en á Melrakkasléttu eru þau ljós. Hér fannst ekki lengur nein peningalykt.