Pentagon og þorskurinn

Greinar

Samkvæmt leyniskýrslu í hermálaráðuneytinu í Pentagon verður Bandaríkjunum meira ógnað af völdum loftslagsbreytinga en hryðjuverkaárása á næstu fimmtán árum. Í skýrslunni er búizt við hærra yfirborði sjávar, ógnarkulda á veturna í sumum löndum, geigvænlegum þurrkum og styrjöldum um vatnsból.

Skýrslan hefur nú lekið út og kemur George W. Bush forseta í mikinn vanda, því að hann hefur hingað til ekki viljað viðurkenna neina hættu af loftslagsbreytingum. Er reiknað með, að pólitískir andstæðingar forsetans muni nota skýrsluna gegn forsetanum í komandi kosningabaráttu.

Golfstraumurinn er meðal annars í húfi. Talið er sennilegt að bráðnun Grænlandsjökuls og fleiri umhverfisbreytingar muni hafa slæm áhrif á hlýja strauminn, sem liggur upp að Íslandi, vermir strendur þess og býr til ákjósanleg skilyrði fyrir nytjafiska á mörkum kalda og hlýja sjávarins.

Í skýrslunni er fjallað um almennt stjórnleysi og ógnaröld, sem hefjist í heiminum, þegar ríki og hópar beiti öllum tiltækum ráðum, þar á meðal kjarnorkuvopnum, í baráttunni um brauð, vatn og olíu, þegar sjór flæðir inn í borgir og matvælaframleiðsla bregzt í kjölfar loftslagsbreytinga.

Hér er ekki verið að tala um fjarlæga framtíð, heldur næstu fimmtán ár. Í stærsta hermálaráðuneyti heims er í alvöru verið að færa vísindaleg rök fyrir því, að pólitísk ragnarök verði á næstu fimmtán árum af völdum þess, sem hingað til hefur verið kallaður heilaspuni úr náttúruverndarsinnum.

Bush hefur hingað til verið mjög hallur undir olíuforstjóra og aðra stórforstjóra, sem eru í senn hatrammir andstæðingar umhverfisstefnu og öflugustu styrktaraðilar forsetans í kosningum. Þess vegna var mikilvægt fyrir forsetann, að skýrslan úr hermálaráðuneytinu kæmi ekki fram í dagsljósið.

Skýrslan er samin að undirlagi Andrew Marshall, sem lengi hefur verið áhrifamikill hugmyndafræðingur í hermálum vestan hafs og hefur notið trausts Donald Rumsfeld hermálaráðherra. Höfundur skýrslunnar eru Peter Schwartz frá leyniþjónustunni CIA og Doug Randall frá Global Business Network.

Athyglisverðast við leyniskýrsluna er, að þar er gert ráð fyrir snöggum og óvæntum veðurbreytingum í stað hægfara breytinga, sem hingað til hafa verið áhyggjuefni. Það kæmi því ekki á óvart, að ríkisstjórn Bandaríkjanna reyndi að snúa við blaðinu í umhverfismálum fyrir næstu kosningar.

Skýrslan er talin vatn á myllu þeirra, sem harðast hafa varað við afleiðingum hamslausra árása hins vestræna nútímamanns á jafnvægið í náttúru jarðar.

Jónas Kristjánsson

DV