Persónusigur

Greinar

Í skoðanakönnuninni, sem næst fór úrslitum forsetakosninganna, könnun DV, var einnig spurt um fylgi við D- og R-lista í Reykjavík. Könnunin sýndi í senn yfirburðafylgi Ólafs Ragnars sem forseta og endurheimt meirihlutafylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þetta sýnir, að alls ekki er unnt að tala um vinstri sveiflu í forsetakosningunum, þótt tveir frambjóðendur, sem hafa verið í félagshyggjupólitík, hafi samtals fengið rúmlega tvo þriðju atkvæða í forsetakosningum. Það vantar alveg önnur merki um slíka sveiflu.

Ef einhverjir kjósendur telja sig vera að senda aðvörun til yfirstéttarinnar í landinu með ráðstöfun atkvæðis síns í forsetakosningum, þá hlýtur sú aðvörun að lenda á daufum eyrum. Skoðanakannanir sýna yfirstéttinni nefnilega, að fylgi flokkanna er í föstum skorðum.

Miklu fremur sýna úrslitin, að sterkir einstaklingar geta náð langt, þrátt fyrir pólitíkina. Fylgi Ólafs Ragnars náði langt út fyrir núverandi fylgi Alþýðubandalagsins og fylgið, sem bandalagið gæti hugsanlega haft vonir um í framtíðinni. Fylgi Ólafs var persónufylgi.

Raunar er líklegt, að brottför hans veiki Alþýðubandalagið. Árum saman stjórnaði hann því með harðri hendi, en síðan hafa innanflokkserjur verið að magnast þar að nýju. Þegar ekki vofir lengur yfir, að hann snúi aftur til valda, mun enn magnast ófriður milli smákónganna.

Ef frambjóðendur ná frambærilegri niðurstöðu í forsetakosningum án þess að ná kjöri, er hugsanlegt, að þeir geti nýtt sér stundarfrægðina til að safna um sig liði, sem nýtist til stjórnmálaþátttöku. Slíkra hugleiðinga hefur gætt í stuðningsliði Guðrúnar Agnarsdóttur.

Jafnvel er talað um, að Guðrún Pétursdóttir, sem hætti við framboð í miðjum klíðum, muni eiga fremur greiða leið til þingsetu, sennilega á vegum Sjálfstæðisflokksins. Áherzlan er hér á orðinu “sennilega”, af því að það er aukaatriði, hvaða flokkur yrði valinn.

Kaldhæðnislegast í þessu er, að sigurvegari forsetakosninganna er eini frambjóðandinn, sem sjálfkrafa dettur út úr stjórnmálum. Hann neyðist til að stunda fínimannsleik á Bessastöðum, meðan keppinautar hans í stjórnmálum ráðskast með fjöregg þjóðarinnar.

Í ljósi þessa er fyndinn smásálarskapurinn, sem felst í augljósum sárindum örfárra pólitískra andstæðinga nýkjörins forseta. Umhugsunin um virðingu hans veldur einum þeirra merkjanlegri þjáningu og hefur knúið hann til að bola forsetaskrifstofunni í skyndi úr húsi.

En nýkjörni forsetinn kann fagið betur en forsætisráðherrann og segist vera hinn ánægðasti með flutning skrifstofunnar út á Sóleyjargötu. Þar verði gott að hafa skrifstofu, en sjálfur muni hann einkum starfa að Bessastöðum. Þannig hefur hann strax skorað fyrsta markið.

Inn á við verður Ólafur Ragnar hefðbundinn forseti, sem mun halda sig skýrt innan marka vanans. Ef forsætisráðherra finnst óbærilegt að fara vikulega út á Bessastaði til að gefa skýrslu, mun forsetinn yppta öxlum, enda væri stílrofið þá ráðherranum að kenna.

Nýkjörinn forseti mun annars ekki eyða miklu púðri á þá, sem á sínum tíma fundust berin súr. Hugur hans mun stefna út fyrir landsteinana, þar sem hann mun reyna að prjóna vefi úr þráðum, sem hann var áður byrjaður að spinna. Þar getur hann haslað sér völl.

Embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er torsótt. En hvað um framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins? Væri það ekki skemmtilegt þrep?

Jónas Kristjánsson

DV