Markmið Persónuverndar er að minnka gegnsæi í þjóðfélaginu með því að víkka hugtak einkamála yfir á ýmis opinber svið. Þar sem gegnsæi er hornsteinn lýðræðis er Persónuvernd með þessu að veikja lýðræðið, auka lagskiptingu þjóðfélagsins og draga úr getu fólks til að skilja gangverk þjóðfélagsins.
Menn verða að átta sig á, að gegnsæi er meiri hornsteinn lýðræðis en frjálsar kosningar. Mubarak stjórnar Egyptum, þótt þar séu frjálsar kosningar. Hann stjórnar í krafti þess, að gegnsæi er nánast ekkert í landinu. Þannig stjórna einræðisherrar með kosningum án gegnsæis, án lýðræðis.
Hluti af gegnsæi þjóðfélagsins er, að fólk hafi aðgang að upplýsingum, til dæmis um ættatengsl, um tjónaferil bíla, um framkomu fólks á opinberum vettvangi, um skatta fólks, um hlutafjáreign og svo framvegis. Persónuvernd og forveri hennar hafa barizt gegn þessum og öðrum aðgangi almennings.
Dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor er sérfræðingur í alþjóða- og fjölmiðlarétti. Nýlega setti hún í grein í Morgunblaðinu ofan í við Persónuvernd fyrir óeðlileg afskipti hennar af fjölmiðlun. Taldi Herdís, að stofnunun væri komin út fyrir verksvið sitt samkvæmt landslögum.
Persónuvernd er hrifin af hálfs árs gömlum Karólínudómi hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, þar sem úrskurðað var, að ekki mætti ljósmynda gleðipinnann Karólínu af Mónakó á kaffihúsum og í reiðtúrum á opinberum stöðum. Þessi dómur stingur í stúf við dómvenju í Evrópu og þykir vægast einkennilegur.
Ekkert bendir til þess, að dómur mannréttindadómstólsins hafi áhrif á dómvenju í löndum Evrópu, beinlínis af því að dómarar í Evrópu telja þar vera rugl á ferðinni. Hins vegar er Persónuvernd mjög hrifin, enda fellur dómurinn að dálæti hennar á sem víðtækastri túlkun á sviði einkalífs.
Herdís segir Karólínudóminn umdeildan og vekur athygli á áhrifum hans á gerðir Persónuverndar. Hún gagnrýnir Persónuvernd fyrir að vera á gráu svæði í afskiptum af fjölmiðlun og fyrir að misskilja hugtök á borð við vinnsluhætti, efnistök og framsetningu blaðamanna.
Grein Herdísar er þörf ábending um, að kominn er tími til að kanna störf Persónuverndar og hvernig þau miða þráfaldlega að því að draga úr gegnsæi í þjóðfélaginu og skerða lýðræði.
DV