Pétursklaustur

Veitingar

Pétursklaustur er mikið sótt af ungu fólki, sem getur setið þar og snætt pizzur í fjölmennari hópum en það getur á Ítalíu eða í Písa. Að vísu eru pizzurnar ekki eins góðar í Pétursklaustri, en staðurinn er notalegur og pizzurnar eru ekki dýrari en gengur og gerist á hversdagslegri stöðum.

Járnstjakar
Í kastalastíl

Hönnun Pétursklausturs hefur tekizt vel. Stórir steinbogar og grófir veggir minna á klausturkjallara. Járnstjakar í kastalastíl bera stór kerti, sem lýsa nógu vel til að rýna í matseðil. Salurinn er víður og stúkaður niður af skenk undir steinboga, sem nær milli veggja. Gólfið er úr óreglulegum steinflísum. Á veggjum hanga austurlenzk teppi og trémyndir. Allt myndar þetta notalega heild, alls ekki of ýkta.

Megineldhús staðarins er betra en pizzueldhúsið. Þaðan kom hver rétturinn á fætur öðrum, sem var ýmist góður eða mjög góður. Samt er Pétursklaustur ekki dýr staður á reykvískan mælikvarða. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 2.680 krónur, sem er heldur neðan við þær 2.900-3.100 krónur, er tíðkast á mörgum vínveitingastöðum borgarinnar.

Fyrsta flokks
smokkfiskur

Athyglisvert er, að heitir sjávarréttir reyndust beztir í Pétursklaustri. Það bendir til, að eldhúsið sé í lagi, því að slíkir réttir reyna meira en kaldir réttir, kjötréttir og eftirréttir á hæfileika eldunarmeistara.

Sniglar í hvítlaukssósu voru ágætir, bornir fram með ristuðu brauði og smjöri. Fylltir sveppir voru hins vegar of sterkir, með yfirgnæfandi bragði af parmiggiano-osti, enda hétu þeir “að hætti abbadísarinnar”. Stælar í nafngiftum eru sjaldan góðs viti.

Bezti prófaði forrétturinn var smokkfiskur og rækjur í súrsætri sósu. Sjávarfangið var meyrt og gott og sósan hæfði þeim vel. Þetta var fyrsta flokks matur, sem gerist ekki betri hér á landi, enda smokkfiskur oft erfiður í matreiðslu.

Pizzur staðarins hafa stundum verið of stífar, þurrar og þéttar, að minnsta kosti í samanburði við þær, sem beztar eru í bænum. Aðrir aðalréttir Pétursklausturs taka þeim fram, nema villigæs, sem reyndist fremur mikið elduð, borin fram með púrtvínssósu og waldorfsalati. Hún var frambærileg, en ekki fyrsta flokks.

Pipar hæfir
folaldakjöti

Betra var kryddlegið lamb “oriental”, þótt það væri heldur lengi eldað. Folalda-piparsteik var hins vegar hæfilega elduð, meyr og góð. Folaldakjöt er bragðlítið og hentar vel í piparsteik, þar sem kraftur bragðsins kemur úr piparnum.

Bezti aðalrétturinn var hæfilega elduð tindabikkja með góðri vínsósu. Þessi ágæti fiskur er kominn í tízku í veitingahúsum borgarinnar, svo sem hann á skilið. Í þessari miklu samkeppni reyndist tindabikkjan í Pétursklaustri í bezta gæðaflokki.

Heit karamellu- og hnetubaka með ávöxtum og ís var mjög góð og hið sama var að segja um heita eplaböku með ís og rjóma. Hún var full af eplum og borin fram mjög heit.

Kaffi var gott svo sem skylda er á hálf-ítölskum stað. Espresso var hrífandi. Nokkur vín sæmileg eru á stuttum lista, svo sem Cléray og Gewurztraminer í hvítu og Fontareche og Barolo í rauðu.

Skyrið var
róttækt

Á enska matseðlinum stóð, að skyrrönd með heitri möndlusósu væri “traditional” íslenzkur réttur. Raunar held ég, að fátt sé hefðbundið við þann rétt annað en sjálft skyrið, sem auðvitað stendur fyrir sínu. Möndlusósan er skemmtilegt viðhengi, en í þessu samhengi mætti heldur kalla hana róttæka en hefðbundna.

Jónas Kristjánsson

DV