Pílagrímar í Bagdað

Greinar

Pílagrímar streyma til Bagdað í vaxandi mæli. Við sjáum á skjánum ýmsa fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem þeim er fagnað af Saddam Hussein. Erindi þeirra er að fá lausa nokkra gísla, en Saddam Hussein tekur bara nýja í staðinn, þegar þeir eru farnir.

Saddam Hussein notar pílagrímsferðir vestrænna stjórnmálamanna til að sýna Írökum, að hann sé orðinn aðalnúmerið í heiminum. Hann notar þær líka til að telja sjálfum sér trú um, að andstyggileg vinnubrögð hans séu þau, sem nái árangri gagnvart Vesturlöndum.

Kurt Waldheim, forseti Austurríkis, var fyrstur á vettvang. Þá sögðu menn, að þar hæfði skel kjafti, er margsaga lygalaupur úr síðari heimsstyrjöldinni brosti framan í stríðsglæpamann ársins. Fortíð Waldheims hefði átt að fæla aðra frá fótsporum hans í Bagdað.

Jesse Jackson, fyrrum forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, kom næstur. Ekki var heldur ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af pílagrímsferð hans, því að hann er mikill lýðskrumari og var greinilega að búa til það, sem hann hélt að væri auglýsing fyrir sig.

Vandinn jókst hins vegar, þegar nokkrir fyrrverandi forsætisráðherrar sigldu hver á eftir öðrum, Edward Heath frá Bretlandi, Jasuhiro Nakasone frá Japan og Willy Brandt frá Þýzkalandi. Nakasone var í Bagdað á sunnudaginn og Brandt á að vera þar í dag.

Ekki er hægt að saka þessa menn um að vera að útvega sér ódýran uppslátt í fjölmiðlum, þótt það fáist í kaupbæti. Og erfitt er fyrir ríkisstjórnir landa þeirra að amast opinberlega við pílagrímsferðum þeirra, því að þeir teljast vera prívatmenn í einkaerindum.

Hins vegar eru pílagrímsferðir af þessu tagi óneitanlega orðnar að vandamáli. Þær draga úr líkum á, að Saddam Hussein komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegra fyrir sig sé að láta herinn hverfa frá Kúvæt. Þær sannfæra hann um, að hann sé á réttri leið.

Pílagrímsferðir geta líka magnað efa í heimalöndum pílagrímanna. Þegar menn sjá Edward Heath, Jasuhiro Nakasone og Willy Brandt taka í höndina á Saddam Hussein, fara sumir að efast um, að hann sé eins afleitur og af er látið. Þeir halda, að hann sé enginn Hitler.

Þar á ofan gætu pílagrímarnir orðið fyrir slysi. Annað hvort verða bandamenn að fresta gagnsókn, meðan pílagrímar eru í Bagdað eða taka áhættuna af, að þeir gætu lent í loftárás. Þannig flækja pílagrímarnir nauðsynlegar hernaðaráætlanir bandamanna við Persaflóa.

Liðnir eru rúmir þrír mánuðir síðan her Saddams Husseins tók Kúvæt herskildi. Hafnbann og efnahagsþvinganir hafa ekki haft mikil áhrif og munu seint hafa úrslitaáhrif. Á meðan hefur hver dagur í för með sér hættu á, að eining bandamanna fari að minnka.

Enn eru fastir fyrir hinir arabísku hornsteinar bandalagsins gegn Saddam Hussein, Egyptaland, Tyrkland og Saúdi-Arabía. Langvinnt þrátefli getur hins vegar grafið undan ríkisstjórnum þessara landa, því að almenningur getur sveiflazt til stuðnings við Saddam Hussein.

Ráðamenn þessara ríkja skilja eins og Bush Bandaríkjaforseti, að Saddam Hussein er ekki manngerð, sem er fær um að taka þátt í því, er kallast “diplómatísk” lausn. Þeir skilja líka, að hann er harðlæstur inni í fílabeinsturni, sem pílagrímarnir geta ekki opnað.

Fyrr eða síðar verður að láta til skarar skríða við Persaflóa. Pílagrímsgöngur vestrænna stjórnmálamanna til Bagdað spilla á meðan stöðu bandamanna.

Jónas Kristjánsson

DV