Píramíðaþjóðin

Greinar

Ef byggð væri í Dritvík á Snæfellsnesi á okkar tímum, væri mikið lagt í sölurnar til að hindra brottflutning og búseturöskun. Ríkishöfn hefði verið gerð þar fyrir ærið fé og frystihúsið væri inni á gafli hjá atvinnutryggingarsjóði hinnar nýju Stefaníu landsins.

En Dritvík lagðist í eyði fyrir okkar tíma eins og Aðalvík og margar aðrar verstöðvar, sem þekktar eru í þjóðarsögunni. Það er tiltölulega nýtt fyrirbæri, aðeins fárra áratuga gamalt, að almannavilji reyni að frysta búsetu og atvinnu og hamla gegn hvers konar röskun.

Efnahagslegar framfarir byggjast á röskun. Menn kasta fyrir róða gamalli búsetu, gömlum fyrirtækjum og gamalli hefð. Forsenda hagþróunar þessarar aldar á Íslandi var, að þjóðin flúði úr sveit út á mölina og einkum til Reykjavíkur. Ríkidæmið dafnaði í þéttbýlinu.

Xerox heitir frægt fyrirtæki í útlöndum. Upp úr engu reisti það 50.000 milljarða veltu á sjöunda áratug þessarar aldar. Það hafði forystu í framleiðslu ljósritunarvéla og náði 95% af heimsmarkaðinum. Erlendis varð nafn fyrirtækisins víða samnefnari allra ljósritunarvéla.

Hluta af hagnaðinum notaði Xerox til að hanna borðtölvur, sem þá voru ekki til. Þegar aðeins var eftir að leggja hálfan milljarð í dæmið til að ljúka því og hefja borðtölvubyltingu, fengu ráðamenn fyrirtækisins hland fyrir hjartað. Þeir óttuðust óvissu, forðuðust röskun.

Afleiðingin var, að fyrirtæki á borð við IBM og Apple tóku upp merkið og eignuðust markað, sem var hundrað sinnum stærri en markaðurinn fyrir ljósritunarvélar hafði verið. Þannig missti Xerox af lestinni á níunda áratugnum eftir gífurlega velgengni á hinum sjöunda.

Þetta útlenda dæmi sýnir, að heimur velgengninnar stendur ekki í stað. Lestirnar eru stöðugt að renna hjá brautarstöðinni. Ef menn hoppa ekki upp í þær, þegar andartakið er komið, missa menn af þeim og sitja eftir með sárt ennið, hver í sinni Dritvík eða Aðalvík.

Xerox réði sjálft örlögum sínum, því að það er rekið í opnu þjóðfélagi. Við erum ekki svo heppnir hér í hálflokuðu Íslandi. Árum saman þorðu menn til dæmis ekki að hella sér út í fiskirækt af ótta við ofsóknir af hálfu hins opinbera embættis veiðimálastjóra.

Saga Skúla í Laxalóni er mörgum kunn af blaðafréttum fyrri áratuga, en er nú komin út í bókarformi. Hún er öðrum þræði þungur áfellisdómur yfir þjóð, er reisir yfir sig lokað miðstýringarkerfi, sem berst með oddi og egg gegn sumum þeim, er leita á mið óvissunnar.

Nú er fiskirækt loksins orðin viðurkennd atvinnugrein. En þá erum við líka orðin að minnsta kosti áratug á eftir Norðmönnum. Þeir hafa byggt upp sína fiskirækt á tímum hagstæðs verðlags og greitt niður stöðvarnar að hluta. Okkar ævintýri er hins vegar allt í skuld.

Við látum ríkisvaldið sóa fjármunum okkar í vaxandi mæli í að vernda fortíðina gegn framtíðinni. Við viljum, að fólkið búi, þar sem það er. Við viljum, að fyrirtækin séu hin sömu og áður, þótt dauðvona séu, og höldum í þeim lífi. Við viljum, að togarar séu ekki fluttir.

Þjóð, sem er orðin svona upptekin af frystingu núverandi ástands, getur ekki mætt breytingum framtíðarinnar. Hún staðnar og verður sífellt fátækari, af því að umheimurinn stendur ekki í stað. Hún leggur á sig sífellt þyngri byrðar við að tryggja eilífð fortíðarinnar.

Hér er píramíðaþjóð nútímans. Við stritumst við að hlaða undir kýr og kindur og vernda jafnvægi í byggð landsins. Við skattleggjum ófædd börn okkar í því skyni.

Jónas Kristjánsson

DV