Písa

Veitingar

Ég átti ekki von á góðum mat í þessu skúmaskoti og kom því aftur og aftur til að komast að málinu fullreyndu. Það var ekki fyrr en í síðasta skiptið, að ég áttaði mig, þegar ég sá Skúla Hansen læðast inn í eldhúsið. Þar var fengin skýringin á, hvers vegna þessi Ítalíustaður hefur yfirleitt góðan mat á boðstólum. Eru þá undanskildar pizzurnar, sem eru raunar einmitt það, sem flestir gestir fá sér.

Þröngt mega
sáttir sitja

Písa leynist í gömlu skúmaskoti í Austurstræti milli kaffihúsanna Hressó og Berlínar. Það er í eins konar víngarðsstíl með pergólu-stælingu í innréttingu. Smíðajárnsgrindur í rómönskum bogum og plast-vafningsplöntur mynda pergólur, sem eiga að minna á ítalska eða öllu heldur portúgalska vínakra, því að pergólur hafa að mestu lagzt niður á Ítalíu.

Því miður er mjög þröngt um pergólurnar, svo að hinar ljúfu hugrenningar ná ekki fram að ganga. Því valda sumpart hinar þungu furuinnréttingar, sem minna á skíðaskála. Þetta er eins og vínakur innan í skíðaskála. Þegar vínakurinn slæst við skíðaskálann um yfirráð í stemmningu, kemur út skemmtileg della, kannski suðurtýrólsk.

Básarnir eru ágætir fyrir tvo gesti við borð. Unnt er að troða í þá fjórum sáttfúsum. Gestir sitja á þægilega bólstruðum bekkjum við naglföst borð og virða fyrir sér ofhleðsluna í innréttingum.Til viðbótar við pergólur úr plasti og járni og skíðaskála úr timbri hefur út um allt verið hlaðið pottaplöntum og ýmsu skemmtilegu dóti, svo sem fuglabúri og smáútgáfum barnaleikfanga og barnavagna.

Hugulsamt
nasl á borði

Eins og víðar hér í bæ var þjónusta mjög tvískipt í Pisa. Sumpart kunni hún til verka. Fleiri voru þó, sem ekki höfðu lært neitt í faginu, gleymdu pöntuðu ísvatni, gleymdu hnífapörum, fylgdust ekki með borðhaldi, tóku ekki eftir neinu, gleymdu þjónustu yfirleitt, jafnvel þótt lítið væri að gera.

Muninn á skólaðri og óskólaðri þjónustu má stundum sjá af því, hvort unnt er að ná auga þjónsins, og hér er slíkt mjög erfitt. Það er líka erfitt að standa upp og æpa, því að básarnir eru svo þröngir.

Sumt var gott um ytri umbúnað máltíðar í Písa. Tannstönglar voru á borðum. Meðan pantað var, gátu gestir smakkað á hugulsömum gulrótar- og gúrkulengjum með ferskri eggjadýfu af majones-ætt. Brauð var sæmilegt og nóg af því. Smjör var ekki í álpappír í hádeginu, þótt slíkt virðist vera til siðs í mörgum veitingahúsum bæjarins. Hins vegar voru þá þurrkur úr pappír, en úr taui á kvöldin.

Samt er verðlagið ekkert lægra í hádeginu. Eini munurinn er, að þá er miklu minna úrval rétta, sennilega þeir réttir kvöldseðilsins, sem aðstoðarkokkurinn hefur lært af aðalkokkinum.

Rísottur betri en
pöstur og pizzur

Pöstur, pizzur og rísottur hafa af eðlilegum ástæðum mesta fyrirferð á matseðlinum. Pizzutegundirnar eru tólf og kosta að meðaltali 925 krónur. Pizzurnar voru fremur góðar, en fást þó betri annars staðar í bænum. Þær voru þunnar og vel heitar, en nokkuð harðar í kantinn. Þær voru matreiddar af sérstökum pizzumanni.

Pösturnar voru heldur betri. Þær eru ellefu talsins, tagliatelle, canneloni, tortellini, spaghetti, farfalle og svo framvegis, á meðalverðinu 940 krónur. Osthúðað lasagne með kjötsósu var fremur gott, en osturinn var yfirgnæfandi í máltíðinni.

Af ítölsku sérréttunum reyndust rísotturnar þrjá beztar, að meðaltali á 890 krónur. Djöfla-risotto var frísklegt og fjölbreytilegt, með grænmeti og pepperoni. Rísottur eru einkennisréttur Norður-Ítalíu á sama hátt og pösturnar eru einkennisréttur Suður-Ítalíu.

Matreiðslan í Pisa kemst þó fyrst í gang, þegar sleppir þessum hefðbundnu réttum, enda verða réttirnir þá mun dýrari. Þriggja rétta máltíð með góðu, ítölsku kaffi, nemur í verði að meðaltali 2.645 krónum með ítölskum aðalrétti, en annars 3.125 krónum. Flestir láta sér nægja pizzuna eina.

Súpurnar
voru beztar

Mér er minnisstætt mjög gott carpaccio, en það er hrár nautavöðvi með olífum og mikilli olífuolíu, sem réðu bragði, og dálitlu af parmiggiano-osti, sem varð að víkja í bragði. Góð var einnig meyr kjúklingalifur í of sterkri vínsósu, kenndri við marsala, þótt ég efist um, að nokkurt marsala hafi verið í henni.

Sniglaragú var mjög gott og bragðmikið, borið fram með mildri grænmetissósu. Bezt forréttanna var svo Cesar-salat með hamarbitum, eggjum, parmiggiano-osti og miklu af fersku grænmeti.

Súpurnar voru mjög góðar. Tómatsúpa var afar þykk og góð. Tómatarnir voru ekki alveg sundurkramdir. Súpan var brauðblönduð og borin fram með þeyttum rjóma. Þetta var eftirminnileg súpa í brauðsúpustíl.

Aðeins lakari, en eigi að síður góð, var þykk og matarmikil fiskisúpa, heil máltíð út af fyrir sig á 590 krónur. Hún hafði ekki að geyma neinn hefðbundinn fisk, heldur góðar og meyrar rækjur og sveppi, nokkuð seigan smokkfisk, sæmilegan hörpufisk og margvíslegt grænmeti.

Lundabringur
frá Skúla

Djúpsteikur smokkfiskur var ekki sérlega góður. Steikarhjúpurinn var mikill og fiskurinn ekki meyr. En undir honum var mjög góð tómata-rísotta með frísklegum lauk. Smálúða var fín og bragðmild, borin fram á pastaræmum.

Svartfuglsbringur matseðilsins reyndust vera lundabringur, fjórar bringur, hæfilega lítið steiktar og mjög góðar, greinilega komnar frá Skúla Hansen, bornar fram með gráðostasósu og eplasalati. Nautapiparsteik í koníaksrjóma var mjög meyr og góð, en borin fram minna hrásteikt en beðið hafði verið um.

Með báðum þessum aðlréttum var osthúðað kartöflusalat. Pasta hefði verið betur við hæfi í stað, sem heitir Písa, því að ég efast um, að Ítalir séu mikið fyrir kartöflur. Í þessu kemur fram annar tvískinnungur á borð við vínakur í skíðaskála. Hann felst í að pöstu- og pizzustaður er

Ostakaka með Amaretto-líkjör, þeyttum rjóma og ávöxtum var sæmileg, en jafnaðist ekki á við slíkar kökur í búð. Skemmtileg tilbreytni var í eplapizzu með kanil, þeyttum rjóma og vanilluís.

Sérkennilegt er á Pisa, að pizzur, sem velt er yfir miðju til innbökunar og líta út eins og hálfmánar, eru kallaðar “fullt tungl” á matseðlinum. Það er sennilega í stíl við delluna í innréttingunni.

Jónas Kristjánsson

DV