Götumatur Botnalanda
Pítur sá ég og borðaði í fyrsta sinn í Jerúsalem fyrir 20 árum. Ég var þar í fylgd leiðsögumanns, sem var yfirmaður í ísraelska hernum í nokkra mánuði á ári, en í ferðaþjónustu þess á milli. Hann benti mér á araba, sem var með eldavél úti á gangstétt og sagði: “Við skulum fá okkur pítu hjá þessum.” Eftir nokkurt þjark þeirra um hæfilegt verðlag fengum við píturnar og stýfðum þær úr hnefa. Ég minnist þess enn, hversu framandi og spennandi mér fannst þetta borðhald.
Pítur eru seldar úti á götum í arabalöndum á sama hátt og pylsur eru seldar hér á landi, pítsur og hamborgarar eða sniglar og ristaðar skeljar í sumum nágrannalöndum okkar. Götupítu er hægt að stýfa úr hnefa eins og götupylsu, af því að brauð er notað til að lykja um heitt innihald og hindra, að fólk verði kámugt af borðhaldinu.
Orðið píta er notað í Grikklandi, Ísrael og arabaríkjunum. Gríska pítan heitir raunar pitta og er sér á parti. Hún er gerð úr næfurþunnu deigi, sem ýmist er vafið utan um mat eða notað útflatt í lögum með ýmiss konar góðgæti milli laga, svo sem í mússaka.
Píta Botnalanda er hins vegar þykkt og seigt flatbrauð, sem er bakað á steinum, pönnu eða á hitaplötu í ofni og látið verða holt að innan. Síðan má skera í hlið þess til að hella hakki eða öðrum mat inn í heitt brauðið. Maturinn á að geta verið vel heitur. Því er pítan höfð þykk og seig, svo að hægt sé að halda á henni og hún soðni ekki í mauk af völdum hitans.
Pítur eru þannig verulega frábrugðnar stökku brauðkollunum, sem á Vesturlöndum eru skornar og notaðar til morgunverðar með einhverri fyllingu, svo sem smjöri og sultu eða osti.
Píta er nafn á brauðinu sjálfu, en ekki fyllingunni. Pítan er venjulega elduð án fyllingar. Sem gangstéttarfæða er hún stundum seld með fyllingu eins og sú, er ég minntist frá Jerúsalem. Fyllingin getur verið breytileg. Í Botnalöndum felst hún yfirleitt í hressilega krydduðu hakki.
Skyndifæða, ekki ruslfæða
Á síðustu árum hafa pítur haldið innreið sína í samkeppni vestrænna skyndibitastaða. Það er ánægjulegt, því að hamborgarar og pítsur hljóta að vera leiðinlegar til lengdar og hamborgarar og pylsur eru oft búnar til á vafasaman hátt. Grænmeti og hakk í pítubrauði á að geta verið tiltölulega hollur og heilbrigður skyndimatur. Í pítum á að vera hægt að bjóða ódýran mat, sem er ekki ruslfæði.
Á Reykjavíkursvæðinu hafa risið þrír staðir, sem kenna sig við pítur. Sams konar matur fæst einnig á sumum skyndibitastöðum, sem ekki sérhæfa sig í pítum. Ennfremur eru svokallaðar pítur fáanlegar víða úti á landi. Staðirnir þrír, sem kenna sig við pítur, eru Pítuhúsið Rex í Garðabæ, Pítan við Skipholt og Pítuhornið við Bergþórugötu. Þetta eru allt snyrtilegir og tiltölulega menningarlegir sjálfsafgreiðslustaðir, sem bjóða nokkrar tegundir svokallaðra píta, svo og hamborgara, samlokur og sitthvað fleira þess háttar.
PÍTUHÚSIÐ REX er í stórum, björtum og kuldalegum sal við Iðnholt í Garðabæ. Hátt er til lofts og vítt til veggja, svo og rúmt um 32 pílárastóla við stór, fjögurra manna hringborð úr dökku tré. Steinflísar eru á gólfi. Í einu horninu er forn skenkur og við einn vegginn er barnaaðstaða. Á borðum og í gluggum eru vel hirt pottablóm.
Á annars góðri afgreiðslu var sá galli, að viðskiptavinur þurfti að beita tveimur atrennum til að ná rétti sínum, þegar pítur höfðu ruglazt milli bakka með og án franskra kartaflna í eldhúsi.
Níu pítufyllingar fást á staðnum og er meðalverð þeirra 250 krónur að kaffi meðtöldu. Meðal fyllinganna er mexíkanskt taco, buff, fiskur, grænmeti, kótilettur og kjúklingabuff.
Önnur taco-pítan reyndist nokkurn veginn réttrar ættar, hugsanlega pönnusteikt. Í henni var efst steinselja, síðan eggjasósa í hóflegu magni og ísberg og loks hakk með tómati og papriku. Þetta var frambærileg píta, enda sæmilega heit. Hún var borin fram í álpappír í plastbakka til að auðvelda snyrtimennsku í borðhaldi. Hin taco-pítan var lítilfjörleg, enda hafði gleymzt að krydda kjöthakkið, svo að það var alls ekki neitt taco. Hún var og afgreidd í brauði, sem virtist vera úr eins konar pítuframleiðsluvél, er framkallar grillrendur í brauðið.
PÍTUHORNIÐ er afar lítil veitingastofa, stílhrein og snyrtileg. Hún er sannkallað blómahaf. Einföldum stólum er raðað um lítil hringlaga borð með marmaraplötu á járnfæti. Gólfið er flísalagt. Afgreiðslufólk reyndist óvenju þægilegt og raunar til fyrirmyndar á skyndibitastað.
Rúnnstykki í pítu stað
Níu fyllingar eru á boðstólum, en brauðið er ekki raunveruleg píta, heldur risastórt rúnnstykki eða brauðhnúður, sem fer illa utan um heitan mat. Enda reyndist rækjufyllingin köld, en ágæt sem slík, blönduð papriku og undir hvítkálssalati og léttri eggjasósu. Þetta var raunar bezta pítufyllingin, sem ég hef fengið hér á landi, enda var mikið af rækjum. Velja mátti milli rúnnstykkis úr fínu og grófu hveiti. Brauðhnúðurinn stóri var borinn fram í bréfi og tágakörfu.
Miðjuverð á hinum svokölluðu pítum var 275 krónur, að kaffi inniföldu. Hægt er að fá súpu á undan á 130 krónur. Það reyndist vera þykk hveitisúpa með miklu af dósaspergli, hefðbundin magafylling. Með súpunni gátu gestir skorið sér sjálfir af fjórum mismunandi tegundum af ágætu brauði. Hamborgarar og samlokur eru einnig á boðstólum.
Mest hefur verið lagt í nýtízkulegar innréttingar í PÍTUNNI í Skipholti. Þar er rúm fyrir um 50 manns á gráum stólum við grá borð hringlaga. Skemmtilega er gengið frá loftræstingu í lofti. Á gólfi er bæði teppi og marmaraflísar og marmari er einnig í afgreiðsluborði. Í stórum gluggum er mikið blómahaf. Og loks er sjónvarpstæki í stóru barnahorni. Bezt var á staðnum, að pappírsþurrkurnar drukku í sig vökva, en hrintu honum ekki frá sér eins og tíðkast yfirleitt, þar sem þurrkur eru hafðar í stauk á borðum.
Pítan minnti á alvörupítu, borin fram í pappír á plastbakka. Innvolsið í pítunni var meira en á hinum stöðunum og meira en pítan þoldi, svo að borðhaldið var að jafnvægisæfingum við hreinlætistilburði. Efst var óhæfilega mikil eggjasósa og undir henni mikið af hrásalati. Neðst var djúpsteiktur fiskur, hæfilega eldaður, vel heitur og ágætur á bragðið.
Í Pítunni fengust tólf mismunandi fyllingar og var miðjuverðið 272 krónur, að kaffi inniföldu. Einnig fengust hamborgarar á 170 krónur. Í upprunalöndunum er píta borðuð standandi úti á gangstétt. Þar gerir því ekki mikið til, þótt eitthvað sullist niður. Hér er veðurfar hins vegar þannig, að píturnar þarf að borða innanhúss. Bezt væri að gera það standandi, því að seta við borð hlýtur að auka mjög viðskipti hjá fatahreinsunarstofum. Stofurnar þrjár eru ekki hannaðar með tilliti til þessa sjónarmiðs.
Loftslagið hér á landi býr svo til húsaleigukostnað, sem ekki er á gangstéttum úti í heimi. Þess vegna eru svokallaðar pítur dýrari hér en í sumum öðrum löndum og virðist lítið við því að gera. Og raunar eru píturnar ekki dýrari en annar skyndibitamatur, ef allt er talið, sem við þarf að éta.
Fábreytt innihald
Verðlag íslenzku pítustaðanna er nokkurn veginn hið sama. Tegundir innihalds eru líka mjög svipaðar og bera ekki vitni um neina hugkvæmni. Lítið sem ekkert er um austurlenzka hakkrétti, en mikil áherzla lögð á kótilettur og hrásalat, svo og kjúklingabita og djúpsteiktan fisk. Kótiletturnar eru yfirleitt bornar fram til hliðar, en ekki ofan í pítunni.
Pítustaðirnir þrír hafa hver sína kosti og sína galla. Pítuhornið er minnst og alúðlegast, en þar er brauðið langsamlega ólíkast eðlilegum pítum. Maturinn er breytilegastur í Pítuhúsinu Rex, stundum beztur og stundum verstur. Matarmagnið er mest í Pítunni, raunar svo að út úr flóir. Um leið er fatahreinsunarhættan mest þar. Pítuhúsið Rex er eini staðurinn, sem býður kryddað hakk í pítu, að vísu ekki austrænt, heldur vestrænt, en það felur þó í sér viðleitni, sem svo er ekki staðið við, þegar kryddið vantar.
Sameiginlegur galli allra þessara staða er, að þeir hafa tæpast raunverulegar pítur á boðstólum. Þrátt fyrir hann má þó segja, að þessir þrír skyndibitastaðir bjóði áhugaverðari mat en flestir aðrir veitingastaðir af slíku tagi.
Jónas Kristjánsson
DV