Hefð hefur myndazt á mörkum pólitískrar spillingar í forstjóraráðningum ríkisvaldsins. Afdankaðir ráðherrar eru einkum taldir eiga rétt á embættum utanríkisþjónustunnar og bankakerfisins, svo og á nokkrum stofnunum á borð við Tryggingastofnun og Húsnæðisstofnun.
Tæknistofnanir hafa jafnan staðið utan við spillingarsviðið. Til skamms tíma hefur verið borin virðing fyrir verkfræði og tækni. Þannig hafa forstjórar Vegagerðarinnar, Orkustofnunar, Rafmagnsveitna ríkisins, símans og Flugmálastofnunar verið verkfræðingar.
Landsvirkjun er ein þeirra stofnana, sem jafnan hefur haft tæknimann á oddinum. Þótt pólitísk spilling hafi áratugum saman verið mikil á Íslandi og meiri en í nálægum löndum, hafa stjórnmálamenn hingað til ekki rennt gírugu auga til forstjórastóls Landsvirkjunar.
Nú hefur orðið á þessu breyting. Núverandi valdhafar í þjóðfélaginu eru að ráðgera að víkka spillingarrétt sinn, þannig að hann nái til tæknilegrar stofnunar á borð við Landsvirkjun. Þegar sá ís hefur verið brotinn, munu aðrar tæknistofnanir senn fylgja í kjölfarið.
Ástæðan er stundarhagur forsætisráðherra af því að losna við afdankaðan fjármálaráðherra, sem kemur ríkisstjórninni oft í vandræði, af því að hann kemur fram eins og eintrjáningur. Landsvirkjun er ætlað að verða fórnardýr þessara pólitísku hagsmuna.
Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að fjármálaráðherra hafi neitt til brunns að bera, sem hæfi forstjóra Landsvirkjunar. Hann er bara gamall jámaður, sem hefur haft pólitík að ævistarfi og gætt sín á að stíga ekki á tær manna í þingflokki sjálfstæðismanna.
Slíkir menn eldast illa sem ráðherrar og verða gjarna sendiherrar eða bankastjórar, sennilega af því að ekki hefur verið ætlazt til neinnar hæfni í þessi störf. Við sjáum það að minnsta kosti á bönkunum, að afdankaðir stjórnmálamenn eru skaðlegir í fjármálum.
Heppilegast væri að losna við fjármálaráðherra með því að gera hann að sendiherra. Það er innan ramma hefðbundinnar spillingar. En hann er því miður lögfræðingur, sem kann lítið í erlendum tungumálum og hefur ekki reynzt sérlega sleipur í mannasiðum.
Af einhverjum ástæðum er ekki talið koma til greina að gera núverandi fjármálaráðherra að bankastjóra. Hafa þó sumir mestu furðufuglar stjórnmálanna fengið að verða bankastjórar og leika lausum hala, með skelfilegum afleiðingum fyrir sparifjáreigendur.
Væntanlega verður haldið fram við ráðningu afdankaðs stjórnmálamanns í embætti forstjóra Landsvirkjunar, að pólitísk reynsla sé starfsreynsla og menn eigi ekki að gjalda þess að hafa verið stjórnmálamenn. Þetta er gamalt viðkvæði til varnar pólitískri spillingu.
Menn gjalda þess nánast aldrei á Íslandi að vera stjórnmálamenn, frændur eða vinir. Menn gjalda þess hins vegar nánast alltaf að vera ekki stjórnmálamenn, frændur eða vinir. Þess vegna munu verkfræðingar gjalda, þegar Landsvirkjun fær nýjan forstjóra.
Í nágrannalöndum okkar er sífellt verið að reyna að draga úr spillingu, meðal annars í embættaveitingum. Á sama tíma er forsætisráðherra Íslands átölulaust að reyna að gera afdankaðan stjórnmálamann að óhæfum forstjóra í einni helztu tæknistofnun landsins.
Hér á landi er verið að ráðgera að víkka spillinguna, leyfa henni að leika lausum hala á spánnýju sviði. Það mun því miður verða talið hafa fordæmisgildi.
Jónas Kristjánsson
DV