Pólitísk Evrópuskák

Greinar

Stuðningur við aðild að Evrópusambandinu er mikill hér á landi, þótt ekki nái hann meirihluta. Fyrr í þessum mánuði sýndi skoðanakönnun DV, að 55% voru andvíg inngöngu og 45% voru fylgjandi henni. Því er greinilegt, að aðildin er til umræðu, hvað sem hver segir.

Þar sem tveir af stóru stjórnmálaflokkunum hafa tekið eindregna afstöðu gegn aðild að sambandinu, er freistandi fyrir hina tvo stóru flokkana að hnykkja á þreifingum í átt til stuðnings við sambandið. Á kjósendamarkaði stuðningsmanna ætti að vera von á góðri veiði.

Reikningsdæmið er einfalt. Samtals höfðu róttæku flokkarnir til hægri og vinstri, andstæðingar aðildar, Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið, 64% fylgi kjósenda í skoðanakönnun DV í fyrradag, sem er mun meira en 55% andstaða kjósenda við inngöngu.

Miðjuflokkarnir tveir, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, sem hafa gælt við Evrópuaðild, höfðu hins vegar samtals ekki nema 32% fylgi kjósenda í þessari síðustu könnun, á sama tíma og stuðningurinn við inngöngu í Evrópusambandinu nemur 45% meðal kjósenda.

Samkvæmt þessu ættu Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin að geta aukið vinsældir sínar meðal kjósenda með því að taka upp eindreginn stuðning við aðild að Evrópusambandinu. Það væri stórsigur fyrir þessa flokka að geta aukið fylgið um ofangreint bil, úr 32% í 45%.

Hafa verður í huga, að umræðan um aðild að Evrópusambandinu fer fram í skugga eindregnari yfirlýsinga andstæðinga en stuðningsmanna í stjórnmálaflokkunum og beinna yfirlýsinga forsætisráðherra um, að málið eigi raunar alls ekki að vera til umræðu.

Ef Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin ákveða að stefna að þátttöku í Evrópusambandinu og fara að sækja málið af sama þunga og andstöðuflokkarnir gera á hina vogarskálina, ætti það að vekja fleiri kjósendur til umhugsunar um, að þátttaka kunni að vera vænleg.

Höfuðborgarsvæðið mun fá 33 þingmenn af 63 í næstu alþingiskosningum. Þar sem meirihluti kjósenda á þessu svæði, 52%, er fylgjandi aðild, er freistandi fyrir stjórnmálaflokka að taka af skarið í Evrópumálunum, ef þeir eru sérstaklega að slægjast eftir fylgi á þessu svæði.

Teikn eru á lofti um, að andstaða fólks á landsbyggðinni geti farið að linast. Umboðsmenn hagsmunaaðila byggðastefnu og landbúnaðar hafa verið á ferðum til Bruxelles til að kynna sér málið og hafa komið til baka fremur ánægðir með sjóði og styrki á þeim bæ.

Ef kjósendur, sem láta staðbundna hagsmuni ráða för, fara að átta sig á ríkidæmi og örlæti Evrópusambandsins, má búast við sveiflu á landsbyggðinni í afstöðu til sambandsins. Á skömmum tíma getur stuðningur við sambandið orðið að meirihlutaskoðun landsbyggðarfólks.

Landbúnaðarráðherra sagði nýlega í viðtali, að Evrópusambandið væri klúbbur hinna ríku, og dró þá ályktun, að Íslendingar ættu ekki erindi þangað. Svo getur farið, að kjósendur samsinni því, að sambandið sé klúbbur hinna ríku og vilji einmitt þess vegna vera með.

Við höfum fylgzt með, hvernig Evrópa hefur sífellt orðið ríkari síðustu áratugi og hvernig Evrópusambandið hefur hjálpað við að lyfta fátækum ríkjum upp í vestræna auðsæld. Við þurfum ekki annað en að fara til Írlands til að sjá, hvílík stakkaskipti hafa orðið á jaðarsvæði.

Kjósendur geta fyrirvaralítið áttað sig á, að þátttaka í Evrópusambandinu er trygging fyrir vaxandi auðsæld á Íslandi, hvernig sem árar hjá okkur að öðru leyti.

Jónas Kristjánsson

DV