Pólitísk og sálræn kreppa

Greinar

Þótt bjartsýni og framtak hafi oft gengið út í öfgar á Íslandi, er hvort tveggja nauðsynlegt til að halda uppi nútímaþjóðfélagi, sem er sambærilegt við Vesturlönd. Þjóðin er í rauninni of fámenn til að halda uppi nærri öllum þáttum nútímaþjóðfélags, en hún gerir það samt.

Margt hefur farið í súginn vegna óhóflegrar bjartsýni og framtaks. Minnisvarðarnir standa úti um allt, frá tættum loðdýrahúsum, um þurr fiskiræktarker yfir í orkuverið við Blöndu, sem malar í tilgangsleysi. Oft og víða hefði verið betra að tempra bjartsýnina og framtakið.

Vandinn er að finna meðalhófið milli bjartsýni og framtaks annars vegar og raunsæis og varfærni hins vegar. Verðmæti fara líka í súginn af völdum óhófs í raunsæi og varfærni. Ýkt viðhorf í þá áttina leiða til stöðnunar og úrræðaleysis. Tækifærin eru ekki gripin.

Summan af viðhorfum einstaklinganna er öflug, þegar þessi viðhorf falla saman í ríkum mæli. Þannig hefur óráðsían oft samanlagt orðið hrikaleg, þegar við höfum talið okkur flesta vegi færa. Og þannig getur kvíðinn á hinn veginn lamað okkur, þegar okkur sýnist illa ára.

Örlög okkar ráðast af fleiri þáttum en þessum tveimur. Ytri aðstæður valda miklu um gengi okkar. Þær búa stundum til jarðveg fyrir bjartsýni og framtak og stundum jarðveg fyrir raunsæi og varfærni. Tvær heimsstyrjaldir áttu til dæmis mikinn þátt í framabraut okkar.

Undanfarin ár hafa ytri aðstæður verið erfiðari en oft áður. Aflabrögð hafa farið minnkandi með ári hverju, í krónum talið. Þjóðin hefur ekki kunnað að haga seglum eftir vindi. Undir forustu þjóðarleiðtoganna hefur óráðsían numið tugum milljóna á hverju ári.

Landsbankastjóri og fyrrum ráðherra sagði um daginn, að óráðsían í opinberum fjármálum hefði ein sér numið hundruðum milljóna og nefndi sem dæmi stuðninginn við sauðfjárrækt. Hann vildi kenna um kunningsskap, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum pólitíkusa.

Núna erum við í þeirri sérkennilegu stöðu, sem byrjaði í fyrra, að hlutar þjóðfélagsins einkennast af óráðsíðu og aðrir af kvíða. Þannig byrjuðu fyrirtæki að draga saman seglin í fyrra til að búa sig undir aðvífandi kreppu. Á sama tíma héldu stjórnvöld áfram lítt heftri óráðsíu.

Kreppan er raunar tæpast komin enn. Hingað til hefur hún mest verið í hugum fólks. Varfærni í mannahaldi hefur leitt til stóraukins atvinnuleysis og skertrar kaupgetu hjá hluta þjóðarinnar, sem aftur á móti hefur leitt í vítahring til minni veltu og aukinna kreppueinkenna.

Meðal ráðamanna í fyrirtækjum og almennings er orðin ríkjandi sú hugsun, að ekki sé svigrúm til að taka áhættu, heldur verði að halda fast utan um það, sem menn þekkja og fara sér hægar en áður. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur snarminnkað á skömmum tíma.

Á sama tíma halda stjórnmálamenn sér við hina hliðina, ekki til þess að vega upp á móti kvíðanum úti í þjóðfélaginu, heldur til að kaupa atkvæði og stunda hefðbundna fyrirgreiðslu. Til viðbótar við fyrra framferði á þessu sviði er farið að gefa einkavinum eigur ríkisins.

Með þessu samspili kvíða og óráðsíu er siglt óþarflega hratt út í óþarflega mikla kreppu, sem getur staðið til aldamóta, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þessi kreppa er heimatilbúin, því að hún á sér alls engar rætur í útlöndum. Hún er pólitísk og sálræn.

Þegar annars vegar minnkar kvíðinn hjá almenningi og ráðamönnum fyrirtækja og hins vegar minnkar óráðsían hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum þeirra, sjáum við loks fyrir endann á aðvífandi kreppu.

Jónas Kristjánsson

DV