Stjórnmálaflokkar þurfa fé til starfsemi sinnar, mikið fé. Það gildir bæði um rótgróna flokka og þá, sem eru að reyna að hasla sér völl í þjóðfélaginu. Úr einhverjum áttum hljóta peningarnir að koma. Það á ekki að vera talið neitt feimnismál og því síður glæpamál.
Hitt er skynsamlegt, að fjármál stjórnmálaflokkanna séu opin almenningi. Eðlilegt er, að kjósendur fái að vita, hvernig fjárhagur flokks er myndaður, hvort það sé á framlögum margra smárra aðila eða hvort þeir séu fáir og öflugir, hugsanlega hagsmunahópar.
Þar sem flokkarnir hafa ekki reynzt að fyrra bragði fúsir til að fræða kjósendur um þetta, er rétt, að þeir verði skyldaðir til þess með lögum. Þetta felur ekki endilega í sér, að niðurstöðutölur ársreiknings séu á borðinu, heldur fremur ýmsar sérhæfðar upplýsingar.
Til dæmis segir litla sögu, að stjórnmálaflokkur hafi selt happdrættismiða fyrir ákveðna upphæð. Það, sem máli skiptir, er, hvort kaupendur miðanna séu eða séu ekki í einhverjum mæli stórfyrirtæki eða voldugir hagsmunaaðilar, sem kaupa mikið magn miða.
Til viðbótar ársreikningi þurfa aðgengileg að vera atriði eins og viðskiptamannaskrá, þar sem komi fram, hverjir séu hinir stóru viðskiptavinir stjórnmálaflokkanna, ef einhverjir eru, þar með taldir mikilvægir kaupendur happdrættismiða.
Ennfremur eiga lög um fjárreiður stjórnmálaflokka að ná yfir ýmsan óbeinan stuðning, svo sem greiðslu auglýsinga, útvegun aðstöðu gegn vægu eða engu endurgjaldi. Líklegt má telja, að stuðningur valdaaðila sé fremur veittur í slíkri óbeinni mynd en beinni.
Hliðstæðar reglur eiga raunar að gilda um stuðning við einstaka stjórnmálamenn. Viðurkenna á, að til dæmis prófkjör kosta þátttakendur peninga, sem eðlilegt er, að komi frá stuðningsfólki. Um leið eiga reglurnar að sýna, hvernig það fjármagn verður til.
Kjósendur hafa gagn af að vita, hvort barátta frambjóðanda í prófkjöri er kostuð af breiðum hópi stuðningsmanna, sem hver um sig leggur af mörkum hóflega fjárhæð, eða hvort mestur hluti kostnaðarins er greiddur af fáum hagsmunasamtökum eða fyrirtækjum.
Ennfremur er eðlilegt, að viðurkennt sé, að ýmis samtök og stórfyrirtæki eru jafnframt í eðli sínu þrýstihópar, sem hafa hag af samskiptum við stjórnmálamenn og flokka. Slíkri viðurkenningu á jafnframt að fylgja upplýsingaskylda þrýstihópanna.
Lög um upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka, stjórnmálamanna og þrýstihópa á þeim fjárreiðum, sem varða samskipti þessara aðila, munu sennilega reynast götótt eins og önnur lög, jafnvel þótt reynt verði að taka tillit til óbeins stuðnings og fyrirgreiðslu.
Þau væru þó tilraun til að lagfæra ástand, sem er óviðunandi. Með þeim væri reynt að viðurkenna, að peningaflæði er nauðsynlegt í stjórnmálunum og reynt að gera kjósendum kleift að vita um þetta flæði. Þetta er skynsamlegra en að reyna að banna sjálft flæðið.
Bandaríkjamenn hafa slæma reynslu af bönnum á þessu sviði, svo sem lögbundnum hámarksfjárhæðum. Miklu líklegra er, að minna verði farið í kringum lög, ef þau fela aðeins í sér upplýsingaskyldu, en ekki fyrirmæli um, hve mikið hverjir megi gefa eða þiggja.
Aðalatriðið er, að kjósendur viti í stórum dráttum um peningaflæði stjórnmálanna og geti tekið mikið eða lítið tillit til þess, ef þeir kæra sig um.
Jónas Kristjánsson
DV