Pólitískur hámarksafli

Greinar

Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin komust að pólitískri niðurstöðu, þegar leyfður var 155.000 tonna þorskafli á næsta fiskveiðiári, 25.000 tonnum meiri afli en Hafrannsóknastofnunin hafði lagt til. Niðurstöðuna verður að skilja í ljósi þess, að kosið verður að ári liðnu.

Reikningsmenn stjórnarinnar telja, að niðurstaðan feli í sér, að svonefnd kreppa dýpki ekki á síðari hluta þessa árs og fyrri hluta hins næsta, heldur verði örlítill hagvöxtur upp á tæpt prósent. Það jafngildir um leið friði á vinnumarkaði og stöðugu krónugengi á þessum tíma.

Það verður gott fyrir atvinnulífið að búa við stöðugar og friðsamar aðstæður í eitt ár. Það stuðlar enn frekar að sæmilegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, þegar ríkisstjórnin leggur störf sín í dóm kjósenda að ári liðnu. Í ljósi alls þessa er 155.000 tonna ársafli skiljanlegur.

Niðurstaðan stuðlar hins vegar ekki að auknum þorskafla í framtíðinni. Hún felur í sér, að hrygningarstofn þorsks stækkar ekki upp úr því lágmarki, sem hann er kominn í um þessar mundir. Tillagan um 130.000 tonna veiði fól hins vegar í sér, að þessi stofn mundi vaxa.

Til eru þeir, sem telja, að hrygningarstofninn megi vera eins lítill og hann er. Sveiflurnar séu svo miklar í lífríkinu, að þorskstofninn verði fljótur að jafna sig, ef aðstæður í sjónum batni á nýjan leik. Þeir telja þær aðstæður skipta miklu meira máli en magnið af veiddum þorski.

Þetta eru áhættusamar hugleiðingar. Tvær nágrannaþjóðir okkar hafa gengið miklu harðar fram í þorskveiðum en við. Þær hafa ekki haft strangt kvótakerfi. Þetta eru Færeyingar og Kanadamenn. Aflinn hrundi hjá þeim báðum og þorskur var á endanum friðaður við Kanada.

Eftir fimm ára friðun við Nýfundnaland í Kanada eru engin merki þess, að þorskstofninn hafi tekið við sér. Sumir segja þetta sýna gagnsleysi friðunar, en ríkjandi skoðun er, að þetta sé afleiðing fyrri ofveiði. Ákveðið hefur verið að friða þorskinn í fimm ár í viðbót.

Óneitanlega væri slæmt fyrir okkur að lenda í svipaðri stöðu og Færeyingar, svo ekki sé vísað til ástandsins á austurströnd Kanada. Erfitt er að hugsa sér Ísland án þorskveiða, þótt við höfum ef til vill gott af að læra að komast af án þess að setja allt traust okkar á þorskinn.

Ekki er nýtt, að ráðamenn þjóðarinnar telji sig þurfa að leyfa meiri þorskveiði en fiskifræðingar ráðleggja. Eitt frægasta dæmið er Steingrímur Hermannsson, sem var einu sinni sjávarútvegsráðherra og sagði, að meira máli skipti, hvað þjóðin þolir, en hvað þorskurinn þolir.

Um langt árabil hefur á hverju ári verið leyft að veiða meira en fiskifræðingar hafa lagt til og um jafnlangan tíma hefur raunverulegur afli á hverju ári farið langt upp fyrir leyfilegt magn. Eðlilegt er að telja tengsli vera milli þessa og hnignunar þorskstofnsins á sama tíma.

Ljósi punkturinn í niðurstöðu sjávarútvegsráðherra er, að hún tekur inn í myndina þann afla, sem áður var utan kvóta. Er það í samræmi við ný lög, sem Alþingi setti í vetur. Því má gera ráð fyrir, að hin leyfðu 155.000 tonn séu raunveruleg tala, en ekki bara bókhaldstala.

Sægreifar stóru skipanna kvarta yfir hlutdeildinni, sem trillukarlar fá af heildarkvóta. Þorskafli hinna síðarnefndu er ekki skertur, en þorskafli sægreifanna hins vegar um 17%. Þetta táknar, að pólitíkusar hafa uppgötvað, að trillukarlar hafa fleiri atkvæði en sægreifar.

Þannig hafa stjórnvöld fundið málamiðlun, sem ekki verður mjög umdeild. Tekið er tillit til ýmissa pólitískra sjónarmiða. Þorskurinn einn var ekki spurður álits.

Jónas Kristjánsson

DV