Flugfreyjur njóta lítillar samúðar á Alþingi. Enda telja margir henta öðrum betur að fá bætt kjör en hálfgerðri yfirstétt á borð við flugfreyjur, til dæmis fiskvinnslukonum. Auk þess vita þingmenn af eigin reynslu, hversu notalegir eru dagpeningar og bílastyrkir.
Athyglisvert er, að duglegasti þingmaður Alþýðuflokksins, Jóhanna Sigurðardóttir, megnaði ekki að sannfæra einn einasta flokksbróður sinn á Alþingi um réttmæti málstaðar flugfreyja. Formaður flokks hennar hefur meira að segja sagt niðurstöðuna vera “góðan kost fyrir flugfreyjur”.
Þessi sundrung stjórnarandstöðunnar gerði stjórnarflokkunum kleift að berja á flugfreyjum með nýstárlegum og eftirminnilegum hætti á aðfaranótt kvennafrídagsins og þvinga forseta Íslands til að nota fríið sitt til að staðfesta lögin til að hindra fall ríkisstjórnarinnar.
Forsenda hinnar óvenjulegu næturafgreiðslu Alþingis er, að hún sé neyðarráðstöfun að mati samgönguráðherra, sem gegnir hlutverki Jaruzelskis í máli þessu. Á þingi vakti hann athygli á, hve mikilvægar væru flugsamgöngur innan lands og utan, sérstaklega að vetrarlagi.
Daginn áður var upplýst í blöðum, að “flugfélög á landsbyggðinni anna svo til algjörlega farþegaflutningum innanlands”. Ennfremur, að Arnarflug hygðist í millilandaflugi “bæta við einni ferð í dag”. Alkunnugt er, að góðar samgöngur eru til og frá Amsterdam.
Hægt er að segja, að verkfall flugfreyja hjá Flugleiðum hafi valdið farþegum óþægindum, en tæplega neyðarástandi. Hins vegar olli það fyrirtækinu miklu tjóni og má kannski líta á slíkt sem neyðarástand. Er það þá ekki í fyrsta sinn sem hagur Flugleiða telst þjóðarhagur.
Enn einu sinni hefur Alþingi reynzt vera afgreiðslustofnun fyrir aðila úti í bæ, sem ekki hefur lag á að umgangast starfsfólk sitt með venjulegum hætti. Enda leynir sér ekki fögnuður forstjórans. Hann sagði í blaðaviðtali, að lagasetningin væri “eina leiðin”.
Nú má vænta þess, að fleiri fyrirtæki, sem lenda í erfiðleikum út af kröfuhörku starfsliðs, snúi sér til hinnar pólskættuðu ríkisstjórnar landsins með beiðni um yfirlýsingu um neyðarástand. Við vitum frá Jaruzelski, að verkföll eru þjóðhagslega óhagkvæm.
Ennfremur má búast við, að umboðsmenn deiluaðila í kjarasamningum vísi hér eftir frá sér ábyrgð og segi við umbjóðendur sína, að þeir hafi í hvívetna staðið fast á sínu. Það hafi bara verið alþingismennirnir, sem hafi gripið í taumana og klúðrað málinu.
Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn í orði verið fylgjandi svokölluðum frjálsum samningum á vinnumarkaði. Það er því nýstárlegt að sjá á borði, að þingflokkur hans mundi kunna betur við sig á pólska þinginu en hjá heimtufrekum Íslendingum.
Um leið og hinn íslenzki Jaruzelski byrjaði að láta skína í tennurnar í byrjun þessarar viku, hurfu samningamöguleikar eins og dögg fyrir sólu. Þingmenn geta spurt sáttasemjara ríkisins, hvort hægt sé að ná samningum eftir að lagasetningu hefur verið hótað.
Verst er þó, að þingmenn skuli missa nætursvefn út af jafnsjálfsögðum hlut og Flugleiðahag, það er að segja þjóðarhag. Er ekki einfaldast fyrir andans bræður Jaruzelskis að setja almenn lög um bann við verkföllum, ekki bara vegna Flugleiða, heldur okkar hinna líka?
Jónas Kristjánsson.
DV