Horfið á bandarísku kosningabaráttuna. Þannig mun hún einnig verða hér fyrr eða síðar. Pólitíkin verður að leiksviði. Frambjóðendur hafa ekki lengur skoðanir, heldur viðhorf. Fjölmiðlar miða atburði ekki við tímans rás, heldur við væntingar til atburða. “Bush stóð sig vel, miðað við væntingar.” Markmið stjórnmála er að vera ekki leiðinleg. Þetta er veruleikasjónvarp, ódýrt sjónvarp, þar sem örlög ráðast. Kjallarahöfundar verða leikhúsrýnar. Sviðsetningin var fín, segjum við. Hann heillar ekki, segjum við. Pólitík snýst ekki lengur um lýðræði, heldur um ódýrt sjónvarpsefni fyrir fávita.