Pöntunarþjónusta ríkisins

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem felur í sér lækkun útgjalda tryggingafélaganna í slysabætur til fólks. Frumvarp þetta er gott dæmi um, hve auðvelt þrýstihópar eiga með að nota kerfið til að þjóna sérhagsmunum gegn almannahagsmunum.

Frumvarpið er varið með því, að slysabætur séu of miklar fyrir lítil slys og of litlar fyrir mikil slys. Með þessari röksemdafærslu er verið að breiða yfir þá staðreynd, að samanlögð niðurstaða frumvarpsins er að lækka slysabætur til að lækka kostnað tryggingafélaga.

Frumvarpið er varið með því, að það dragi úr kostnaði við lögmenn, lækna og tryggingafræðinga. Með þessari röksemdafærslu er verið að breiða yfir þá staðreynd, að meginniðurstaða frumvarpsins er að lækka slysabætur til fólks til að lækka kostnað tryggingafélaga.

Ef markmið frumvarpsins hefði verið að færa slysabætur frá þeim, sem verða fyrir tiltölulega lítilli örorku, til þeirra, sem verða fyrir tiltölulega mikilli örorku, og að lækka kostnað þjóðfélagsins af lögmönnum og læknum, hefði verið hægt að gera það á einfaldari hátt.

Meðal þess, sem var í fyrstu útgáfu frumvarpsins, var sú sagnfræðilega rökleysa og hreina hjáfræði, að hægt væri að taka upp mál að nokkrum eða mörgum árum liðnum og meta, hvort fjárhagur fólks væri þá annar en verið hefði, ef það hefði ekki lent í slysi.

Frumvarp þetta var óvandað frá upphafi, þótt það sé samið af lagaprófessor. Eftir almenna gagnrýni á síðasta ári voru sniðnir af því nokkrir agnúar áður en það var formlega lagt fram í þessum mánuði. Enn ber það samt skýr merki þess að vera í þágu tryggingafélaga.

Eitt alvarlegasta atriði frumvarpsins er, að það felur í sér þá stefnu, að tryggingafélögunum beri ekki að bæta fólki örorku, nema hún fari yfir ákveðna stærðargráðu. Þetta stríðir gegn almennri réttlætishugsun og mun sennilega mæta nokkurri andstöðu á Alþingi.

Saga þessa máls er skólabókardæmi um óhóflegan aðgang þrýstihópa að kerfinu. Tryggingafélögin eru valdastofnanir, sem hafa með sér óformlegt samstarf um fáokun í þjóðfélaginu. Þau hafa greiðan aðgang að embættismönnum og ráðherrum til snúninga fyrir sig.

Fólk, sem lendir í slysum, myndar hins vegar engan þrýstihóp til mótvægis við fáokunarkerfi tryggingafélaganna. Frumvörp af þessu tagi eru aðeins borin undir tryggingafélögin, en ekki fólkið í landinu eða samtök þess. Þessi leikur er ójafn, svo sem þetta dæmi sýnir.

Niðurstaðan er hin sama og við höfum oft áður séð hér á landi. Fáokunarfyrirtæki misbeita þjónustulipru ríkisvaldi til að færa peninga frá almenningi til sín, í stað þess að beina kröftum sínum að sparnaði í rekstri, svo sem tíðkast í heilbrigðu markaðshagkerfi.

Brýnt er orðið, að sett verði lög um þrýstihópa og heftan aðgang þeirra að opinberum aðilum, svo sem gert hefur verið í Bandaríkjunum. Í því samhengi verði komið á ferli til rannsóknar á, hvernig þrýstihópar beita sér fyrir smíði laga og reglugerða í sína þágu.

Þegar lög og reglugerðir eru í smíðum, þarf um leið að svara spurningum um, hvaða þrýstihópar græða á þessari skriffinnsku og hvaða áhrif þeir hafa haft á framvindu málsins. Jafnframt þarf strax að leita skipulega uppi gagnaðila og spyrja þá álits til mótvægis.

Alþingismenn geta nú hafnað frumvarpinu og þar með sent stjórnkerfinu skilaboð um, að tímabært sé að draga úr pöntunarþjónustu fyrir volduga þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson

DV