Póstbarinn

Veitingar

**
Flaggar ódýrum fiski

Póstbarinn við hlið Hótels Borgar í Pósthússtræti er ódýr matstaður, sem flaggar fiskréttum á matseðli. Hann getur þó varla talizt fiskréttastaður, því að hann býður ekki frambærilegan fisk, fyrir utan hefðbundinn plokkara gratíneraðan, blandaðan kartöflum, funheitan úr örbylgjuofni.

Fiskur er yfirleitt ofeldaður og þurr, eins og hann hafi farið um frysti og örbylgjuofn. Þannig voru þorskþunnildin og silungurinn, sem hvort tveggja hvíldi á pönnusteiktu grænmeti með hrísgrjónahaugi til hliðar, ekki risotto heldur þéttum haugi ólystugra hrísgrjóna. Kemur kokkurinn kannski vikulega?

Sumt er samt gott við Póstbarinn, einkum verðið, súpa og fjölmargir aðalréttir á 1190 krónur í hádeginu, súpa og fiskur dagsins á 1990 krónur á kvöldin. Mér sýnist þetta vera nálægt botnverði þeirra staða, sem ekki teljast vera skyndibitastaðir eða austrænir. Samt hefur staðurinn ekki slegið í gegn.

Fyrir utan eru borð og stólar að hætti kaffihúsa. Inni er staðnum skipt um inngang, með tóbaki öðrumegin og reyklausu hinumegin. Stórir gluggar snúa út að dómkirkju og alþingishúsi. Tréborð eru fín með bakháum tréstólum og setukrókur með svörtum mublum er inni í horni. Smekklaus málverk á veggjum eru til sölu. Í heild er umgerðin köld.

Súpu dagsins sækir maður í pott úti í horni, einkum spergilsúpu eða brokkálssúpu, léttar og sæmilega bragðsterkar hveitisúpur rjómaðar. Að öðru leyti er full þjónusta snyrtilega veitt með góðu geði. Kaffi er gott, espresso ekta og borið fram með ágætu súkkulaði.

Undanfarin misseri hafa verið opnaðir nokkrir veitingastaðir í miðborginni með gamaldags og dofinni matreiðslu við vægu verði. Póstbarinn er ágætur fulltrúi þeirra. Þetta er eins konar túristmenjú fiskréttastaður án greinilegs meginþráðar. Hingað má fara, ef menn þurfa endilega að borða fisk og vilja ekki borga mikið.

Jónas Kristjánsson

DV