Postularnir Páll og Sverrir

Greinar

Efnahagsleg stjórnmálastefna Sverris Hermannssonar er ekki ný af nálinni. Hún er hin sama og lengi hefur verið mælt með hér í blaðinu, uppboð á kvótum í sjávarútvegi og afnám stuðnings við þá, sem bezt mega sín. Þetta er góð stefna, sem enginn flokkur fylgir í raun.

Spurningin er hins vegar, hvort rétti maðurinn til að fara fyrir þessari stefnubreytingu sé sá, sem var þingmaður auðmannavinaflokksins; kommissar mestu sukkstofnunar lýðveldisins; ráðherra í ríkisstjórn, sem fann upp kvótann; og annálaður sukkari sem bankastjóri.

Ef til vill getur Sverrir kjaftað sig frá þessu, rétt eins og hann þykist nú ætla að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, hafandi nýlega sýnt í fréttaviðtali í sjónvarpi þá mestu kvenfyrirlitningu, sem þar hefur sést árum saman. En allt er þetta þó í meira lagi ótrúverðugt.

Sverrir er að ýmsu leyti vel fallinn til pólitískra sálnaveiða. Hann er með orðheppnari Íslendingum, hefur fjölbreyttari orðaforða en aðrir stjórnmálamenn og bezt vald þeirra á íslenzkri tungu. Þar á ofan er hann kjaftfor með afbrigðum, stundum á einkar gamansaman hátt.

Páll postuli var slíkur skörungur og átti skuggalega fortíð eins og Sverrir. Páll fékk vitrun á heiðinni eins og Sverrir á biðlaunatímanum, hætti að ofsækja sannleikann og fór að boða hann vítt um keisaradæmið. Hann breytti fámennri kristni í heimstrúarbrögð.

Munurinn á þeim Páli og Sverri er þó sá, að Páll sá og skildi villu síns vegar, en Sverrir virðist ekki hafa hugmynd um, að hann eigi yfirleitt neina fortíð á þeim pólitísku sviðum, sem hann fjallaði um á fundi sínum með væntanlegum stuðningsmönnum vestur á Ísafirði.

Jarðvegurinn var undir kristni búinn á tíma Páls postula og undir afnám forréttinda á tíma Sverris postula. Einhver hlýtur að taka upp merkið, hvort sem Sverrir gerir það eða einhverjir aðrir. Alþýðuflokkurinn segist raunar þegar hafa þá stefnu, sem Sverrir boðar.

En Alþýðuflokkurinn er ekki trúverðugur fremur en kommissarinn fyrrverandi. Sá flokkur er fyrst og fremst þekktur fyrir að gleyma góðum málum, þegar hann kemst í ríkisstjórn. Og í samstarfi við Alþýðubandalagið verður hann ekki duglegri við afnám forréttinda.

Alþýðubandalagið hefur hingað til verið málsvari sérhagsmuna-forréttinda á borð við kvóta í sjávarútvegi og landbúnaði. Eftir hjónaband þess og Alþýðuflokks verður erfiðara en áður fyrir Ágúst Einarsson og aðra málsvara efnahagslegs réttlætis að breyta kerfinu.

Þörfin er mikil. Stærstu tveir stjórnmálaflokkarnir eru eindregnir stuðningsmenn sérréttinda fyrir þá, sem bezt mega sín. Þeir styðja forréttindi markaðsráðandi stórfyrirtækja. Þeir styðja gjafakvóta handa útgerðarfyrirtækjum. Þeir styðja ríkisrekstur landbúnaðarins.

Það er kjósendum að kenna, að stjórnmálaflokkarnir skuli komast upp með að haga sér eins og þeir gera. Ef Sverri Hermannssyni tekst að vekja marga kjósendur til vitundar um sjálfskaparvítið, getur hann eins og Páll bætt fyrir brot sín sem eins mesta kerfiskarlsins.

Þótt kjósendur hafi keypt margt um dagana og sumt óséð, eru þeir tæpast ginnkeyptir fyrir leiðtogaefni í gömlum stjórnmálamanni, er boðar þeim nýja trú, sem gengur þvert á allt, sem hann áður gerði, án þess að hafa beðizt neinnar afsökunar á skrautlegri fortíð sinni.

Við höfum reynslu af postulum Alþýðuflokksins og postulanum Sverri. Það verða einhverjir aðrir, sem leiða kjósendur til himnaríkis hins pólitíska réttlætis.

Jónas Kristjánsson

DV