Pósturinn Páll

Greinar

Nýr forseti Alþingis fylgdi eftir sjónarmiðum sínum í eldhúsdagsumræðu á Alþingi á fimmtudagskvöldið, þegar hann áminnti Jón Baldvin Hannibalsson fyrir að nota óviðurkvæmilegt orðalag, sem greinilega fól í sér niðrandi ummæli um Pál Pétursson félagsmálaráðherra.

Þegar Ólafur G. Einarsson tók við embætti forseta Alþingis, tók hann sérstaklega fram, að draga þyrfti upp aðra mynd af þingstörfunum en nú birtist almenningi í fjölmiðlum. Benti hann á, að þingmenn sjálfir hefðu mest áhrif á, hver ímynd þingsins væri í augum fólks.

Hin nýja áherzla þingforseta er tímabær og eðlileg. Málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn hafa ekki vaxið upp úr málfundastíl ræðukeppna í framhaldsskólum, þótt um nokkurt skeið hafi verið sjónvarpað frá venjulegum þingfundum beint inn í stofur fólksins í landinu.

Fólk hefur horft á þennan málfundastíl og ekki verið hrifið. Þess vegna hefur virðing Alþingis minnkað við beint sjónvarp frá fundum þess. Gott ráð til að sporna gegn því væri að hóa saman nokkrum helztu vandræðabörnunum og sýna þeim sjónvarp frá brezka þinginu.

Brezkir þingmenn tala skýrt og málefnalega og einkum stutt og aftur stutt. Þeir geta líka verið hvassir og jafnvel eitraðir, en allt er það innan ramma, sem er miklu þroskaðri en þær hefðir, sem illu heilli hafa mótazt á Alþingi. Þeim hefðum þarf að breyta í nýju kastljósi.

En það er ekki bara orðbragðið, hálfkæringurinn og leikaraskapurinn, sem þarf að lagast. Okkar þingmenn geta ekki síður lært af Bretum að halda ræðulengd í hófi. Þrátt fyrir breytingar á þingsköpum í átt til styttingar máls, eru langhundar ennþá alltof algengir á Alþingi.

Hinn nýi þingforseti sagði réttilega, að almenningur, sem fylgist daglega með störfum Alþingis, gerði ríkar kröfur um vitrænan málflutning, snarpar umræður og tilþrif á Alþingi. Þess vegna verði að bæta umræðuna og þingmenn að gera meiri kröfur til sjálfra sín.

Ólafur G. Einarsson benti á annað atriði, sem hann taldi geta aukið virðingu Alþingis með því að draga úr því áliti, að það sé lítið annað en afgreiðslu- og handauppréttingastofnun framkvæmdavaldsins. Það væri, að fólk léti af þingmennsku við að verða ráðherrar.

Það getur verið óþægilegt, ef stjórnarslit verða á miðju kjörtímabili og ráðherrar hafa sagt af sér þingmennsku og fá hana ekki aftur. Þess vegna þarf að breyta lögum þannig, að þingmenn verði að taka leyfi frá þingstörfum meðan þeir gegna embætti ráðherra, en eigi afturkvæmt.

Tillögur og hugmyndir þingforseta eru markverðar og benda til, að hann muni á ferli sínum hafa jákvæð áhrif á störf Alþingis. Um eitt atriði í tillögum hans þarf þó að gera fyrirvara. Það er, að bág launakjör og léleg starfsaðstaða fæli hæft fólk frá þáttöku í stjórnmálum.

Mikið framboð fólks til stjórnmálastarfa og einkum til þingmennsku bendir ekki til, að þessi fæling sé öflug. Og séu kjör þingmanna of bág, á að breyta þeim á opinskáan hátt, en ekki að vera pukrast með hliðaratriði á borð við greiðslur fyrir ómælda þáttöku í ráðstefnum.

Um það atriði var rækilega fjallað í leiðara DV í gær og þarf ekki að fara frekari orðum um það. Augljóst er, að Alþingi getur á ýmsan hátt stuðlað að aukinni virðingu sinni í augum fólksins í landinu og að nýr þingforseti hefur þegar gefið skynsamlegan tón á því sviði.

Einna mikilvægast er, að málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn færi ræðustíl sinn úr því horfi, sem þótti góð latína á málfundum, þegar þeir voru í framhaldsskóla.

Jónas Kristjánsson

DV