Nýr seðill tvisvar á dag
Potturinn og pannan líður dálítið fyrir samanburðinn við Úlfar og Ljón, þar sem ríkjum ræður fyrri eigandi Pottsins og pönnunnar. Ef þessi óhagstæði samanburður truflaði ekki, væri auðveldara að taka eftir, að í sjálfu sér er Potturinn og pannan ánægjulegt veitingahús, sem skiptir um matseðil tvisvar á dag og býður innlendum fjölskyldum og erlendum ferðamönnum góðan mat við vægu verði.
Þar ber hæst vandað salatborðið, sem líkist í flestu hliðstæðu borði Úlfars og Ljóns. Potturinn og pannan virðist hins vegar ekki hafa náð úthaldi í grænmetisréttum, sem kynntir voru þar upp úr síðustu áramótum, þegar náttúrulækningastofunni hafði verið lokað. Ég hef ekki orðið var við þá í sumar.
Undanfarna mánuði hefur staðurinn að venju verið vinsæll ferðamannastaður. Þeir hafa komið um sjöleytið á kvöldin og í þrengslunum við diskinn hafa þeir beðið þolinmóðir þess, að borð losnaði. Þrátt fyrir álagið og þrengslin er gott skipulag á afgreiðslu og fólk kemst von bráðar að borði.
Innréttingin er nytsamleg og kemur rúmlega 40 manns í sæti á tiltölulega litlu gólfflatarmáli. Við innganginn er ágætur barnakrókur. Falska loftið er einfalt og sniðugt, aðallega myndað af ljósum. Smekklegir veggir, breytilegir að formi, eru skreyttir eldhúsáhöldum og auglýsingaspjöldum. Skilrúm skipta salnum. Í borðplötum er límdur viður og málmþynnur undir heita diska. Stólar eru þægilegir. Þungamiðja innréttingarinnar er frægt borð uppbúið, sem er á hvolfi í loftinu yfir salatbarnum.
Fimm tegundir brauðs
Veikasta hlið matreiðslunnar felst í súpum dagsins. Þær virðast oftast vera þykkar hveitisúpur, til dæmis svokölluð rjómalöguð sveppasúpa, svokölluð rjómalöguð paprikusúpa og svokölluð rjómalöguð blómkálssúpa, sem þar á ofan var kekkjuð. Undantekningin var tær lúðu- og hörpufisksúpa. Með súpunum geta gestir valið sér gott brauð milli um það bil fimm tegunda, sem eru á borði við hlið salatbarsins.
Það er salatborðið, sem er sterka hliðin. Það er jafnan mjög fjölbreytt og frísklegt. Sveppirnir eru nýir og tómatarnir ekki farnir að linast að ráði. Flest grænmetið er hrátt og óblandað, til dæmis ágætt blómkálið. Undantekning er ólystugt kartöflusalat, sem ferðamenn úða í sig með sælubrosi á vör, af því að þeir eru margir hverjir þýzkir og af því að þetta er einmitt þeirra tros. Heimþrá er ekki lambið að leika sér við. Dreymir okkur ekki í útlöndum um þorramat.
Fiskréttir eru fyrirferðarmiklir á matseðlinum, sem breytist lítillega tvisvar á dag. Grillsteiktur steinbítur með kryddsmjöri var afar léttilega eldaður, góður, borinn fram með mauksoðnum dósagulrótum, bakaðri kartöflu og hörðu smjöri. Pönnusteikt rauðspretta með súrsætu grænmeti í strimlum var mjög góð. Sama er að segja um steinbítspiparsteik með piparsósu. Yfirleitt eru fiskréttir staðarins góðir, en meðlætið breytilegt að gæðum.
Ensk nautabuffsteik var létt, meyr og bragðgóð, borin fram með sveppum, bakaðri kartöflu og skánaðri béarnaise-sósu. Svartfuglsbringur með villibráðarsósu voru ofeldaðar og þurrar. Heimalagaður ís er oft á matseðlinum og þá einn eftirrétta, en einhvern veginn hef ég misst af honum.
Traustur matstaður
Í heildina er Potturinn og pannan traustur matstaður, sem býður tiltölulega góða matreiðslu, þótt hann sé í hópi hinna ódýru í borginni. Hann er nokkru dýrari en Laugaás og örlítið dýrari en Úlfar og Ljón. Súpa, salat og kaffi er innifalið í verði aðalrétta, sem nemur að meðaltali 687 krónum. Þríréttuð máltíð með kaffi kostar 837 krónur að meðaltali.
Jónas Kristjánsson
Dæmigerður matseðill
Rjómalöguð sveppasúpa
395 Súpa og salat
630 Steikt ýsuflök með rækjum, gratineruð
610 Soðið heilagfiski með camembert-ostasósu
580 Grillsteiktur steinbítur með kryddsmjöri
630 Heilsteikt rauðsprettuflök með súrsætu grænmeti
580 Smjörsteiktur karfi með púrru, tómati og osti
630 Pönnuristuð smálúðuflök með sjávarréttasósu
860 Glóðarsteikt lambalæri béarnaise
860 Moðsteiktur nautavöðvi með steiktum sveppum
630 Léttsteiktur svartfugl með perum og villibráðarsósu
930 Nautabuffsteik að hætti hússins með bakaðri kartöflu
DV