Potturinn og pannan

Veitingar

****
Rétt eldaður fiskur

Þegar ég nenni ekki að elda, fer ég annað hvort í Kínahúsið við Lækjargötu eða í Pottinn og pönnuna á horni Nóatúns og Brautarholts, einstaka sinnum á Grænan kost.

Potturinn og pannan heldur hátt á lofti merki ódýrra matstaða ár eftir ár og býður betri matreiðslu en nýir staðir í svipuðum verðflokki, svo sem Rossopomodoro, Enrico’s og Póstbarinn. Það eina, er hefur gefið sig, er salatbarinn, sem er orðinn fátæklegur, stundum með þreytulegu jöklasalati og ýmsum blönduðum réttum í stað meiri fjölbreytni í fersku grænmeti.

Ferskur og hæfilega lítið eldaður fiskur dagsins er aðalsmerki Pottsins og pönnunnar. Nýlega fékk ég þar pönnusteikta smálúðu, fallega upp setta á ítölsku fjallasalati og soðnum kartöflum. Einnig soðinn eldislax á hrísgrjónum, undir grænmetisþráðum. Loks grillaðan regnbogasilung á hrásalati og bakaðri kartöflusneið, undir rækjum og óhófi af bráðnu smjöri.

Fínir fiskréttir af þessu tagi kosta 1990 krónur með súpu og salatbar meðtöldu. Í salatborðinu eru tvær tegundir af melónum og epli í jógúrt, sem nota má fyrir eftirrétt. Af fastaseðli kosta aðalréttir 2300 krónur að meðaltali og þríréttuð máltíð 4400 krónur. Þetta er í ódýrari kanti alvöru veitingahúsa á höfuðborgarsvæðinu.

Lengi hefur verið tvenns konar súpa á boðstólum, önnur rjómuð hveitisúpa og hin tær grænmetissúpa. Þær síðarnefndu hafa yfirleitt verið sterkar og góðar. Það er ekki víða annars staðar, að hægt er að forðast hveitisúpurnar. Með súpunum eru að minnsta kosti tvær tegundir af brauði.

Í salatborðinu má finna tómat, rauðlauk, gúrku, papriku og stundum nothæft jöklasalat. Að baki er olífuolía og edik til að blanda sér sósu á salatið. Í gamla daga voru hér líka, en ekki lengur, fallegir sveppir, tvær tegundir af papriku og blaðlaukur, stundum líka reyktur og grafinn lax.

Þjónustan hefur haldizt glaðbeitt og góð. Vatnskönnur koma umsvifalaust á borð. Hér er allt fullt af ferðamönnum á sumrin og dúndrandi umferð fram eftir kvöldi. Staðurinn hefur slegið í gegn á fjölþjóðarmarkaði og er varla byrjaður að feta hina augljósu og auðveldu leið niður gæðastigann.

Jónas Kristjánsson

DV