Potturinn og pannan, Tilveran, ódýrir staðir

Veitingar

Bylting á Potti og pönnu
Pottinum og pönnunni við Nóatún hjá Brautarholti var bylt að útliti fyrir áramótin. Bása- og timburstíllinn hvarf, en við tók bjartur og opinn stíll að nýrri tízku. Útbyggingin hefur verið breikkuð og salurinn stækkaður, svo að rýmra er milli bólstraðra stóla og viðarborða. Aðbúnaður er notalegri en áður var, vatnskönnur koma á borð og falleg glös. Súpa, salatbar, aðalréttur og kaffi kosta 1830 krónur

Innihaldið er óbreytt
Allt annað er nákvæmlega eins í Pottinum og pönnunni. Þar er sama glaðbeitta þjónustan, sama lága verðið, sami leiðigjarni matseðillinn, sama frambærilega matreiðslan og sama sögufræga og góða salatborðið, sem Úlfar Eysteinsson matreiðslumaður gerði frægt á þessum stað árið 1982. Þetta er einn af föstu punktunum í tilverunni, þótt eigendur hafi komið og farið. En viðskiptavinir eru orðnir átján árum eldri en þeir voru fyrst.

Salatborð er hornsteinn
Óbrigðult salatborð er hornsteinn Pottsins og pönnunnar. Hveitisúpurnar eru leiðinlegar, en stundum sjást betri súpur tærar Væg matreiðsla notar rétta eldunartíma og dauf matreiðsla býður piparsósu, sem ekkert bragð er að. Fyrir nokkrum kvöldum mátti velja milli silungs, fiskiþrennu, gríss og nauts, sem reyndist vera fyrirmyndar piparsteik með léttelduðu grænmeti í vandaðri kantinum.

Tilveran breytist ekki
Enn ódýrari fjölskyldumatstaður er alþýðleg Tilveran við Linnetstíg hjá Fjarðargötu í Hafnarfirði, þar sem súpa, aðalréttur og kaffi kosta 1150 krónur. Þessi staður kom til sögunnar árið 1996 og hefur unnið sér verðugar vinsældir. Svipmót staðarins er þægilega gamaldags, þjónusta notaleg og matreiðsla traust, allt svo sem verið hefur frá fyrsta degi.

Fiskur er beztur
Fiskréttir hafa reynzt mér beztir í Tilverunni. Pönnusteiktur steinbítur var hæfilega eldaður og borinn fram með mildri engifersósu. Smjörsteikt rauðspretta var líka hæfilega elduð, borin fram með mildri saffran-sósu. Ofnbakaður saltfiskur var vel útvatnaður, hvítur og bragðmildur, svo að hann gerist vart betri. Hreindýra-gúllas var meyrt, en skorti hreindýrsbragð og var því miður með kekkjaðri kartöflustöppu.

Aðrir ódýrir staðir
Fyrir utan Pottinn og pönnuna og Tilveruna eru ekki til margir frambærilegir veitingastaðir með fullri þjónustu í lægri verðkantinum. Laugaás við Laugarásveg er þar líka, lengi einn af mínum uppáhaldsstöðum, en hefur verið reikull í spori undanfarin misseri. Annar uppáhaldsstaður er Kínahúsið í Lækjargötu, sem ár eftir ár býður vönduðustu austrænu matreiðsluna hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV